Langaði helst að vera rokkari í hljómsveit

Seint verður sagt að Atli Fannar Bjarkason sé með tóman grautarhaus eða að vefmiðillinn Nútíminn sé trunta. Atli hefur farið á kostum á árinu með þessum nýja miðli og var fenginn til að fræða mastersnema í blaða- og fréttamennsku um framsetningu efnis enda hefur Nútíminn farið nýjar leiðir í þeim efnum.

Stúdentablaðið/Maria Henningsson

Stúdentablaðið/Maria Henningsson

„Ég mætti í tíma til nemenda sem voru að stúdera framsetningu á efni í fjölmiðlum. Mér fannst frábært að fá að segja þeim frá pælingunum mínum í sambandi við það, framsetning á efni er eitt af þessum eilífðarverkefnum sem þróast stöðugt með tækninni og hvernig fólk umgengst miðilinn. Svo fannst mér gaman að fá koma inn í Háskóla Íslands því ég á ekki mörg erindi þangað. Bjóst svo sem aldrei við að fá tækifæri til að útskýra hugmyndir mínar þar og er afar þakklátur. Og eiginlega bara hrærður,“ segir Atli Fannar en til gamans má geta að hann er ekki með stúdentspróf eða aðra menntun.

Sótti um sem námsráðgjafi í grunnskóla
Það var á heimaslóðum sem fjölmiðlaferill Atla byrjaði en hann átti sér þó annan draum á þeim tíma.

„Ég var hættur í skóla, rosa týndur og vissi ekkert hvað ég vildi gera. Ég bjó á Selfossi og langaði helst bara að vera rokkari í hljómsveit. Ég sótti síðan um tvö störf sem voru auglýst á svæðinu, annars vegar sem blaðamaður hjá Glugganum og hins vegar sem námsráðgjafi í Vallaskóla. Skiljanlega fékk ég ekki starf sem námsráðgjafi en hún Þóra á Glugganum gaf mér séns  og starfið þar kveikti einhvern áhuga sem varð að lokum til þess að ég flutti til Reykjavíkur til að starfa við fjölmiðla.“

„Ég hef alltaf öfundað frumkvöðla“
Atli Fannar hætti sem fréttastjóri á Fréttablaðinu til að taka þátt í kosningabaráttu Bjartrar framtíðar 2012. Það starf vatt svo upp á sig og varð hann aðstoðarmaður þingmannsins Guðmundar Steingrímssonar.

„Ég sá fljótlega að starfið hentaði mér ekki svo ég ákvað að segja skilið við pólitíkina og snúa mér aftur að blaðamennskunni. Það var meira en að segja það. Umhverfið var gjörbreytt og félagar mínir á Fréttablaðinu voru flestir horfnir til annarra starfa. Ég byrjaði að spá hvort það væri raunhæft að gera eitthvað sjálfur. Ég hef alltaf öfundað frumkvöðla og langaði til að prófa að hefja rekstur og ákvað því að nýta það eina sem ég kann til þess en það er að skrifa fréttir. Nútíminn varð þá til.

Reiknaði með nokkrum mánuðum af núðlusúpum

Nútíminn hefur sannarlega stimplað sig inn í fjölmiðlaflóru landsins en knappur stíll virðist henta vefumhverfinu ákaflega vel.

Nútíminn gengur mjög vel — eiginlega fáránlega vel. Vefurinn er að fá mikið af heimsóknum, þannig að fólk virðist vera að taka mjög vel í þetta framtak. Þá eru auglýsendur líka sjóðandi heitir fyrir vefnum, sem er auðvitað mjög mikilvægt. Ég var búinn að reikna með því að þurfa að borða núðlusúpu í öll mál í nokkra mánuði en lesendur og auglýsendur tóku vel í vefinn strax í upphafi, þannig að ég get leyft mér að borða almennilegan mat í hvert mál.

„Strákarnir héldu að ég væri dauður“

Þrátt fyrir blaðamennskuna gat Atli sér gott orð sem söngvari rokkhljómsveitarinnar Hölt hóra á sínum tíma en eins og allir vita er margt sem gerist í rokkinu.

Stúdentablaðið/Maria Henningsson

Stúdentablaðið/Maria Henningsson

„Grand Rokk, sem síðan varð Faktorý, var á tímabili aðalstaðurinn fyrir rokkið í Reykjavík og þar spiluðu hljómsveitir eins og Mínus, Brain Police og Dikta og auðvitað Hölt hóra. Í einu af þessum skiptum skellti ég mér út á gólf með hljóðnemann og tók nokkur dansspor á meðan ég söng. Ég veit ekki alveg af hverju en á meðan á laginu stendur byrja ég að vefja snúrunni utan um hálsinn á mér. Ég klifra svo upp á stigaganginn sem var þarna úti á miðju gólfi og dett aftur fyrir mig ofan í hann — örugglega tvo eða þrjá metra. Strákarnir héldu að ég væri dauður enda heyrðist ekkert í mér. Þeir eru hins vegar sannir skemmtikraftar og héldu áfram að spila þangað til ég rankaði við mér. Tónleikarnir héldu svo áfram.“

„Fréttanefið vöðvi sem þarf að þjálfa“
Atli Fannar hefur sínar skoðanir á því hvað sé mikilvægast í störfum fjölmiðla.

„Það er auðvitað mikilvægast að segja rétt frá. Og láta hvorki hagsmuni né önnur tengsl stöðva sig. Með tilkomu netsins hafa blaðamenn líka þurft að hugsa dæmið svolítið upp á nýtt. Smellirnir stýra rosalega miklu en það er rosalega leiðinlegt þegar fyrirsagnir eru notaðar til að blekkja fólk til að smella. Stefna Nútímans er að gera það ekki þó það verði auðvitað að vera svigrúm til að nota húmor og tvíræðni í fyrirsögnum án þess að vera sakaður um „clickbait“. Þetta er rosalega þunn lína og ég er þakklátur fyrir ábendingar og uppbyggilega gagnrýni sem ég hef fengið frá fólki. Nútíminn er hreinskilinn fjölmiðill og segir frá án þess að „sensationalæsa“ fréttir og án þess að blekkja. Það finnst mér mikilvægt — að koma sér beint að efninu og ekkert kjaftæði.“

Blaðamenn Stúdentablaðsins eru flestir að stíga sín fyrstu skref í blaðamennsku og hefur Atli þessar ábendingar. „Er ekki bara fín byrjun að lesa þetta viðtal til að sjá að maður þarf hvorki menntun né reynslu til að byrja? Hvort tveggja hjálpar svo auðvitað til. Svo er fréttanefið vöðvi sem þarf að þjálfa. Þetta gerist ekki á viku,“ segir ritstjórinn geðþekki.