Þetta verður ókei

Það er endalaust verið að spyrja mig hvort ég hafi ekki áhyggjur af íslenskri tungu. Hvort ég missi ekki ítrekað svefn yfir læsi barna. Hvort þetta sé ekki allt saman á leiðinni lóðbeint niður í neðstu sokkaskúffu andskotans. Ég veit það svei mér ekki.

Einhverjir hafa verið að býsnast yfir könnun sem gefur í skyn að aðeins um fjórðungur 15 ára pilta á Íslandi sé meira eða minna ófær um að „lesa sér til gagns“ — eins og það er orðað.  Nú þekki ég sæmilega til íslenskra unglingspilta, var m.a. einn slíkur á tímabili. Og eitt get ég fullyrt. Þessi álappalegu grey eru fullfær um að lesa sér til gagns — altsvo að lesa það sem gagnast þeim.

Þeir geta á augabragði litið á smáskilaboð í símanum sínum og lesið þar úr torræðum táknum, sér til gagns. Þeir geta á örskotsstundu lesið í táknheim og myndmál risavaxinna flókinna tölvuleikja, sér til ómælds gagns. Þeir geta um leið greint það á myndbandi hvort það sé þess virði að horfa á til enda, sér til gagns. Þeir þekkja og kunna skil á aragrúa kvikmynda, sjónvarpsþátta, teiknimyndasagna og vörumerkja — og neyta fjölbreyttrar tónlistar daglega. Þeir lesa virði alls þessa, notkunargildi og innihald án fyrirhafnar. Vanti þá upplýsingar rata þeir án fyrirhafnar um alla afkima netsins. Sér til gagns.

„ Vanti þá upplýsingar rata þeir án fyrirhafnar um alla afkima netsins.“

Vanti þá upplýsingar rata þeir án fyrirhafnar um alla afkima netsins.“

Mér er raunar til efs að nokkur kynslóð hafi verið jafn móttækileg fyrir upplýsingum og einmitt unglingar í dag. Jafn fljúgandi læsir á ólíklegustu tákn, tóna og myndir, sem gamlingjar eins og ég botna hvorki upp né niður í.

„  Þær eru ekki í stafrænni þrívídd, ekki snjallvæddar og ekki einu sinni með auglýsingum.  “

 Þær eru ekki í stafrænni þrívídd, ekki snjallvæddar og ekki einu sinni með auglýsingum. 

Eitthvað verður undan að láta. Í augnablikinu eru það óspennandi og litlausar námsbækur, sem þykja silalegar og gamaldags. Þær eru ekki í stafrænni þrívídd, ekki snjallvæddar og ekki einu sinni með auglýsingum. Isspiss. Ef ætlunin er að að ná athygli og áhuga barna og unglinga — verðum við að gjöra svo vel að taka samkeppnina alvarlega. Að öðrum kosti fyllist þeirra hviki haus af öllu öðru en íslensku. Hún á ekkert fast sæti bókað þarna á fremsta bekk til eilífðarnóns.

En til þess þarf aura. Og orku. Og heilan helvítis helling af tíma. Sem enginn virðist tilbúinn að sjá af. Því þó að okkur þyki þessi lifandis ósköp vænt um málið þá er það ekki nóg. Við þurfum líka að passa upp á það. Styðja við það. Og helst moka í það peningum. Og þá sérstaklega á þessu alþjóðlega samskiptafylleríi sem við erum dottin í. Símarnir okkar eru farnir að tala. Sjónvörpin. Tölvurnar. Bílarnir. Þvottavélarnar bráðum líka. Tannburstinn. Og brauðristin. Hvað svo sem hún hefur nú að segja okkur merkilegt. Þarna þurfum við að hysja upp um okkur stafrænu brækurnar og gera eitthvað í okkar málum. Áður en það verður um seinan. Annars verðum við áður en við vitum af farin að rökræða næringarfræði og hnakkrífast við ísskápana okkar á þýsku. Og þar er morgunljóst hvor mun hafa betur.

Illur erlendur ostur. Myndin tengist efninu að talsverðu leyti.

Illur erlendur ostur. Myndin tengist efninu að talsverðu leyti.

Annars er ég bara góður sko. Það eru allir að tjá sig. Út um allt. Fólk er mun óhræddara í dag en fyrir aðeins áratug síðan að koma hugsunum sínum í orð og básúna þær á allskyns samfélagstorgum. Misgáfulegum reyndar, en fólk er þó að reyna. Og ef einhver slær inn villu þá rís upp her sjálfskipaðra prófarkarlesara sem leiðrétta og veita stafræna löðrunga án þess að blikna.

Sennilega þurfum við bara að sjá um þetta sjálf. Meðan stjórnvöld dunda sér við að vernda osta og rollur fyrir illum útlendum áhrifum þurfum við að gera það sem við höfum svosem alltaf gert. Passað upp á þetta litla sérviskulega dulmál okkar. Svo enginn komist að því hvað við erum að pískra og hugsa.