Áhorfendur fengu ekki stundarfrið

Síðasta föstudag frumsýndi Stúdentaleikhúsið Stundarfrið eftir Guðmund Steinsson í leikstjórn Karls Ágústs Þorbergssonar. Ég hef ekki látið sýningar Stúdentaleikhússins framhjá mér fara síðustu ár og hef gaman af þeirri greddu sem einkennir leikhúsið og þá möguleika sem skapast í metnaðarfullu amatörleikhúsi.

studentaleikhusid

    Sýningin var vel leikin og textavitund leikara mjög góð, en leikarar í áhugaleikhúsum eiga það stundum til að fara með textann sinn, eins og sagt er. Leikarar voru skýrmæltir, öruggir og fundu sig vel á sviðinu –og lausir við ofleik, sem var afar þakklátt. Sviðið var eins konar skeifa mynduð úr þremur sviðum sem táknuðu hvert sinn tíma; 1984, 2004 og þegar þessir tímar mættust. Umhverfi 1984 fannst mér virkilega skemmtilegt. Rokk í Reykjavík var þar í aðalhlutverki sem og áramótaball RÚV þar sem Stuðmenn, Ómar Ragnarsson, Hrafn Gunnlaugsson og Jón Páll Sigmarsson voru í aðalhlutverki. Það sem mér fannst skemmtilegast við verkið var að þrátt fyrir þessa mismunandi tíma voru vandamálin þau sömu. Það var líka gaman þegar ein persóna tók af sér sjálfu og var með gamla og nýja tímann með á myndinni en sú sena færði okkur frá 1984 til 2004.

    Stundarfriður er sýndur í einum tanka Perlunnar en þar sýndi Stúdentaleikhúsið verkið Djamm er snilld! síðasta vor. Þá var mjög vel farið með rými tanksins en í Stundarfriði var teflt djarft og fannst mér það ekki ganga nógu vel upp. Stólar voru færri en áhorfendur og var það með ráðum gert. Leiða átti áhorfendur í ferðalag milli þeirra tíma sem ég útskýrði áðan en í stað þess að áhorfendur upplifðu sig í ferðalagi horfðu þeir oft vandræðalega hver á annan til að passa að vera ekki fyrir, sáu ekki nógu vel og misstu athyglina einstöku sinnum vegna þess að þeir voru að leita sér að góðu sjónarhorni. Þetta hefði þurft að útfæra betur fannst mér. Það var líka leiðinda klúður á sýningunni sem ég fór á, sem vonandi hefur ekki verið á öðrum sýningum. Hljóðmyndin var allt of hátt stillt og brá áhorfendum frekar oft þegar símar hringdu, sem eru áberandi í verkinu. Stundum hélt fólk fyrir eyrun þegar hljóðmynd lék stóran þátt í senunum. Þetta er þó einfalt að laga og hefur kannski bara verið tilfallandi klúður og má til gamans geta að meðalaldur áhorfenda á sýningunni sem ég fór á var mögulega sá hæsti í sögu Stúdentaleikhússins.

    Það væri gaman ef leikhúsið myndi útfæra aðeins betur þetta með áhorfendurna og sviðin. Ef það hefði verið í lagi hefði þetta orðið stórgóð leikhúsupplifun en hún var fín og óhætt að mæla með þessari sýningu fyrir fólk sem vill skella sér á frumlega og vel leikna sýningu.

Stundarfriður var frumsýndur 12. nóvember í Perlunni. Miða á uppsetninguna má nálgast hér.

MenningDaníel Geir Moritz