Endurfæðing femínistafélagsins

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Eftir nokkurra ára dvala var Femínistafélag Háskóla Íslands nýlega endurvakið og er það þegar farið að láta til sín taka. Heiður Anna Helgadóttir, formaður félagsins og Ásrún Ísleifsdóttir, almannatengill þess, deila hér með okkur hugmyndum sínum um félagið, femínisma og hvernig á að fá boltann til að rúlla.

Hinir ógnvænlegu femínistar

„Fólk vill ekki kalla sig femínista, það þykir eitthvað neikvætt orð,“ segir Anna og bætir við að jafnvel fólk sem aðhyllist jafnrétti kynjanna virðist hrætt við að nota þetta ákveðna hugtak. Hún segir það eitt aðal verkefni félagsins að standa fyrir vitundarvakningu um femínisma og vinna á þeirri neikvæðu merkingu sem hefur verið hlaðið á hugtakið. Félagið vonast til að fá fólk til að kynna sér hvað það er í rauninni að vera femínisti... og jafnvel að þora að nota orðið um sjálft sig.

Eitt af fyrstu verkefnum vetrarins er myndaþáttur þar sem farið er um háskólasvæðið og fólk á förnum vegi spurt út í afstöðu sína til femínisma. Valið á viðmælendum er mjög fjölbreytt og svörin við spurningum um femínisma eftir því.     
    „Það eru margir sem trúa á jafnrétti kynjanna en vilja ekki kalla sig femínista af því þeir hreinlega vita ekki hvað orðið þýðir,“ segir Ásrún.

Femínismi úr öllum áttum

Í ár situr fjölbreyttur  14 manna hópur í stjórn Femínistafélags HÍ. Þetta er fólk með mismunandi áherslur, mismunandi skilning á femínisma og auðvitað misjafnlega róttækt. Anna segir að það sé mikill kostur að ekki séu allir að hugsa það sama.
    „Fólk er með einhverja ákveðna hugmynd um hvernig femínisti lítur út,“ segir hún. „Það er bara fáránlegt. Femínismi er fyrir alla. Við þurfum alls konar fólk til að halda baráttunni áfram. Þú ert kannski sammála konseptinu en ósammála því hvernig fólk fer að því. En það þýðir samt ekki að þú sért ekki femínisti.“

Fljótlega mun stjórnin fara af stað með greinaskrifaátak þar sem ýmsir meðlimir skrifa reglulegar greinar um hinar mörgu hliðar femínismans.
    „Við förum náttúrulega yfir greinarnar til að vera viss um að þetta sé eitthvað sem við viljum birta undir okkar nafni,“ segir Ásrún. „En þetta á að koma úr öllum áttum.“

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Jafnrétti fyrir alla

Á jafnréttisdögum stóð Femínistafélagið fyrir fyrsta Bechdel bíói vetrarins ásamt Q – félagi hinsegin stúdenta og Rýni – félagi kvikmyndafræðinema. Anna og Ásrún eru jákvæðar fyrir að vinna frekar með öðrum félögum innan háskólans, eins og t.d. Rýninum og Q.

Margar femíniskar hreyfingar hafa verið gagnrýndar fyrir að gleyma eða hunsa réttindabaráttu undirskipaðra hópa.
    „Það er búið að vera mikið í umræðunni að femínismi snúist ekki lengur bara um konur og karla,” segir Anna. „Samfélagið er alltaf að verða opnara eða kannski kynjalausara. Það eru ekki einu sinni allir sem skilgreina sig sem karl eða konu. Þess vegna er kannski farið að vera óþægilegt að tala alltaf bara um karla og konur.“

„Það sem við erum að berjast fyrir,” segir Ásrún, „er jafnrétti fyrir alla.“