Stúdentaleikhúsið er uppeldisstöð leikara

Í áraraðir hefur Stúdentaleikhúsið staðið fyrir metnaðarfullum sýningum sem eru leiknar af fólki sem síðar meir lætur á sér kræla í leiklistarlífinu. Venjan er að sýning er sett upp á hverju misseri og núna er það Stundarfriður eftir Guðmund Steinsson sem verður sett upp.

„Aðsóknin í haust var rosa góð og hefðum við lent í vandræðum með að taka á móti fleirum,“ segir Vilhelm Þór Neto, formaður stjórnar Stúdentaleikhússins. „Æfingar hafa gengið vel og er leikstjórinn (Karl Ágúst Þorbergsson) alveg frábær. Það er mikið hugmyndaflug í gangi og mjög mikið rýnt í verkið.“
Vilhelm fór með aðalhlutverkið í sýningunni Djamm er snilld sem var sýnd síðasta vetur og er hann með ákveðnar hugmyndir um hvert sé hlutverk Stúdentaleikhússins.
„Að efla skapandi og frumlegt leikhús og hvetja fólk sem hefur áhuga á leiklist en hefur kannski aldrei þorað að leika að koma og prófa að leika.“ 

Þessi voru í Stúdentaleikhúsinu

Það er óhætt að segja að Stúdentaleikhúsið virki sem stökkpallur fyrir fólk sem hefur áhuga á leiklist. Einnig er gaman að segja frá því að margir snúa aftur í Stúdentaleikhúsið sem leikstjórar seinna meir. Leitað var til nokkurra einstaklinga sem voru í Stúdentaleikhúsinu á sínum tíma. Öll hafa þau fengist við mjög fjölbreytt verkefni sem leikhúslífið hefur upp á að bjóða og hafa leiklist af einhverju tagi að aðalstarfi.

Stefán Hallur Stefánsson

„Ég var framkvæmdastjóri, ljósahönnuður og leikari í Stúdentaleikhúsinu á árunum 1999-2001 og stýrði ásamt góðum hópi af fólki, með Hlyn Pál Pálsson í broddi fylkingar, uppbyggingarstarfsemi í kringum leikfélagið sem hafði legið niðri í dágóðan tíma.  Reynslan í Stúdentaleikhúsinu veitti mér ákveðið brautargengi í leiklistinni, hvað varðar frumkvæði, sjálfsöryggi og hugrekki.  Þetta er dýrmætt skref fyrir þá sem eru að koma úr menntaskólaleikfélögunum að hafa.  Þarna heldur áfram ferli sem grunnur er lagður að í menntaskólunum og varð mjög mikilvægt millistig fyrir mig inní atvinnumennskuna. 

Helstu verkefni:
Pressan, Djúpið, Rokland, Eldhraun, Lúkas og Lér konungur.

Salóme R. Gunnarsdóttir

„Ég var í Stúdentaleikhúsinu allt árið 2009. Um vorið settum við upp verkið Þöglir Farþegar, sem Snæbjörn Brynjarsson skrifaði og leikstýrði. Um haustið var það spunaverkið Gestasprettur, sem Tinna Lind Gunnarsdóttir leikstýrði. Ég var í lögfræði í HÍ á þessum tíma en um leið og ég byrjaði í Stúdentaleikhúsinu fór námið að láta í minni pokann. Eftir seinna verkið ákvað ég að námsárangur minn væri orðinn svo slakur að ég þyrfti að hætta að leika mér og ákvað því að vorið 2010 yrði leikhúslaust ofurnámsár hjá mér. Það var ekki langt liðið á önnina þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég hafði ekki verið að hanga inni í lögfræðinni þrátt fyrir Stúdentaleikhúsið, heldur var það þvert á móti Stúdentaleikhúsinu að þakka að ég hafði haldið geðheilsunni í námi sem hentaði mér svona ótrúlega illa. Ég hafði fjarlægt ranga breytu því lögfræðin var vandamálið. Èg var svo heppin að á sama tíma og þessi hugljómun átti sér stað var leiklistar- og dansdeild LHÍ að taka á móti umsóknum í leikaranámið og ég stökk á tækifærið.“

Helstu verkefni: Óvitar, Spamalot, Eldraunin, Hraunið, Stelpurnar og París norðursins.

Hannes Óli Ágústsson

„Ég var mjög virkur í Stúdentaleikhúsinu á árunum 2001-2005 og lék í 8 sýningum á þeim tíma sem ég held að sé ennþá met! Þarna fékk maður tækifæri til að vinna með ungum og gröðum leikstjórum sem voru að springa úr sköpunargleði og leika með jafnöldrum sínum sem hafa sterkar skoðanir á lífinu og listinni. Þetta var einstakt tækifæri fyrir mig sem ungan áhugamann um leiklist, sem komst ekki í gegnum fyrstu síu í inntökuprófum í leiklistardeild LHÍ árið 2001 en flaug svo inn 2005. Þessi mótunarár í Stúdentaleikhúsinu settu mikið mark á mig og þakka ég þessum tíma að ég sé óbrjálaður maður í dag.

Helstu verkefni: Bjarnfreðarson, Hæ Gosi og áramótaskaup RÚV.

 

„Fyrsta uppfærslan mín hjá Stúdentaleikhúsinu var Tartuffé eftir Moliére 1999. Stúdentaleikhúsið hafði legið í dvala um langt skeið en síðan Tartuffe var sett upp hefur það starfað samfleytt. Svo settum við, mikið til sami hópur, upp verkið Ungir menn á uppleið eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttir sem fjallaði um yfirborðslegt góðærisgengi. Við settum það upp 2001 í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Sýningin heppnaðist mjög vel og var valin áhugaleiksýningi ársins og fyrir vikið steig hópurinn á stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu. Svo vann sýningin til verðlauna á leiklistarhátíð í Villinius í Litháen. Það var mjög ævintýraleg ferð og eftir hana varð einhvern veginn ekki aftur snúið fyrir marga hvað leiklistina varðar.“

Helstu verkefni: Hart í bak, Gulleyjan, Ástríður og Engispretturnar.

Þóra Karítas Árnadóttir

Sveinn Ólafur Gunnarsson

„Ég var í Stúdentaleikhúsinu frá 2000-2004. Ég datt inní þetta fyrir algjöra slysni, ætlaði mér að vera í leikmynd eða propsi, en var svo sjanghæaður af Ólafi Agli í hlutverk. Ég smitaðist og það varð ekki aftur snúið. Þetta var algjörlega sprúðlandi hópur í leikhúsinu, undir hlýlegri og góðri stjórn formannsins, Hlyns Páls Pálssonar. Þetta varð til þess að mig langaði að verða leikari og ég sé ekki agnarögn eftir því. Upprunalega ætlaði ég mér að verða skáld og var í heimspeki og íslensku, svona til þess að brýna vopnin. Ég villtist hins vegar af braut út af skyndilegri leiklistarbakteriu.“

Helstu verkefni: Pressa, Málmhaus og Á annan veg.

 

 

 

Helstu verkefni leikaranna eru tekin saman af ritstjóra.

Stundarfriður var frumsýndur 12. nóvember í Perlunni. Miða á uppsetninguna má nálgast hér.

MenningDaníel Geir Moritz