Stefán Hilmarsson er glósuhetja

Stefán Hilmarsson hefur bjargað mörgum félagsfræðinemanum.

Stefán Hilmarsson hefur bjargað mörgum félagsfræðinemanum.

Popparinn Stefán Hilmarsson er goðsögn í íslensku tónlistarlífi, hvort sem litið er til hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns, Eurovisionlaga sem hann hefur sungið eða sóló-platna hans. En innan félagsfræðiáfangans FÉL102G er Stefán Hilmarsson þekktur fyrir allt annað en tónlist. Stebbaglósurnar svokölluðu, skrifaði hann árið 2002 og hafa þær notið mikilla vinsælda hjá félagsfræðinemum síðan og er Stefán Hilmarsson glósuhetja.

Það var síður en svo planið. Ég hef hins vegar haft af því veður að glósurnar hafi gengið manna í millum árum saman. Á sínum tíma lagði ég mikið uppúr því að mæta á fyrirlestra og glósa vel í þeim fögum sem eru glósuhæf, en almenna félagsfræðin var eitt þeirra faga, enda mikið til sagnfræði. Ég hafði á þessum tíma frekar lítinn tíma til að liggja yfir bókunum. Minnisstætt er til dæmis þegar Sálin lék nokkra tónleika með Sinfóníuhljómsveitinni er ég var í náminu. Þá sat ég aðferðarfræðifyrirlestra í Háskólabíó fyrir hádegi og æfði með Sinfó í sama sal eftir hádegi. Um sama leyti var yngri sonurinn hvítvoðungur, þannig að námstíminn var helst til knappur. Af þessum sökum vann ég glósuvinnuna býsna vel, enda vissi ég að ég þyrfti að byggja mikið á þeim. Ég deildi síðan glósunum með völdum samnemendum og svo fóru þær á flakk, eins og gengur. Ekki átti ég von á því að þetta gengi síðan ár eftir ár.

Fjandvinir með skemmtileg námskeið

Ég var í stjórnmálafræði og inngangur að félagsfræði var liður í því námi. Ég ætlaði upphaflega í sagnfræði, en skipti yfir á síðustu metrunum. Ég hafði hins vegar mjög gaman að námskeiði nafna míns Ólafssonar. En ekki hafði ég síður gaman að námskeiðum fjandvinar hans, Hannesar Hólmsteins. Ég get alls ekki sagt að ég hafi kenningar helstu meistara á hraðbergi í dag. Ég man þó glögglega eftir nöfnum eins og Durkheim, Weber, Comte og Spencer, svo eitthvað séu nefnt. Og auðvitað Marx. Allir fundist mér þeir áhugaverðir, hver á sinn hátt.“

Var enginn fyrirmyndarnemandi

Sjálfur var ég almennt enginn fyrirmyndarnemandi og brilleraði síður en svo á prófum, þótt ég hafi komist sæmilega frá þeim flestum. Ég fór fyrst og fremst í þetta nám af áhuga, mér til ánægju og til að víkka sjóndeildarhringinn. Ég kynntist auk þess fólki sem ég hefði ella ekki kynnst, fólki sem urðu góðir vinir mínir. Ég geri ráð fyrir að flestir sem stundi nám séu að því að praktískum ástæðum, þótt áhugi sé alltaf sterk breyta í þessu sambandi. En maður kemst ansi langt á skipulagi. Það kallar á aga. Eigum við ekki að segja að agi sé lykilatriði. Ef maður er agaður og áhugasamur, þá fleytir það manni langleiðina.

Nei, þetta er ekki hún Dollý.

Nei, þetta er ekki hún Dollý.

Kindin Dolly innblástur lagsins Orginal

Sumum félagsfræðinemum hefur þótt lag þetta mega túlka á afar félagsfræðilega vegu og því spyrjum við þig, kæri Stefán: Hver er orginal? 

Líklega veld ég ykkur vonbrigðum með því að upplýsa að sá texti, sem reyndar er eftir Friðrik vin minn Sturluson, er innblásinn af því merka afreki að mönnum tókst að klóna kind laust fyrir síðustu aldamót. Mig minnir að kindin hafi hlotið nafnið Dollý. Textinn er því mun frekar líffræðilegur, en félagsfræðilegur, þótt heimfæra megi hann á báða vegu.