Topp 10 freistingar frá heimanámi

10. Þrif – Einhverra hluta vegna er aldrei hreinna hjá námsmönnum en í ritgerðarskrifum eða prófatíð. Þá er allt notað til að fresta því aðeins að byrja og fljúga moppur og tuskur um húsakynnin.

9. Út að borða – Nemendur selja sér gjarnan þá hugmynd að ætla að læra í hóp og ætla sér kannski að hefja lærdóminn á að borða saman. Áður en þeir vita af er hópurinn kominn á kaffihús og lærdómurinn víðs fjærri.

8. IKEA – Ef maður vill vera heilalaus og vafra um einhverstaðar án þess að spá í það sem skiptir máli er kjörið að skella sér í IKEA.

7. SnapChat – Hversu oft hefur maður fengið Snap frá einhverjum sem er á lesstofu eða á Bókhlöðunni?

6. Glápa á fólk – Það er ekki það sama að læra á víðförnum stað og að sitja með bækur á víðförnum stað og glápa á fólk. Húmorinn okkar verður líka oft ansi súr í prófatíð og getur þetta verið góð tilbreyting frá viðarsleifarbrellunni á Youtube.

5. Partí hjá einhverjum sem maður þekkir ekki neitt – „Já, ég er alveg til í að kíkja,“ er setning sem er ósjaldan sögð. „Er mér boðið?“ er setning sem myndi oftar heyrast í þessum aðstæðum en þá er líka rólegt að gera í lærdómnum.

4. Bíó – Kvikmyndahúsin græða sjaldan meira á stúdentum en þegar um ritgerðarskrif eða prófatarnir eru uppi á teningnum.

3. Bjórkvöld – Aldrei slæm hugmynd að henda í eitt bjórkvöld þegar styttist í skil. Dagurinn eftir bjór er líka afsökun sem er aldrei meira notuð en í prófatíð.

2. Þættir – Ömurlegustu sjónvarpsþættir verða hin mesta afþreying í prófatíð.

1. Facebook – Það þarf svo sem ekki að segja meira.