Gagnkynhneigðir boðnir velkomnir í partý

Jafnréttisdagar HÍ stóðu yfir dagana 6.-17. október og þar var margt á döfinni. Fræðsla í formi fyrirlestra eða bíómynda eru dæmi um það sem var á dagskrá Jafnréttisdaga. Arnar Gíslason er einn af þeim sem tók þátt í að koma Jafnréttisdögum af stað, en þeir voru nú haldnir í sjötta skipti.

Stúdentablaðið/Adelina Antal

Stúdentablaðið/Adelina Antal

„Hugmyndin um Jafnréttisdaga kviknaði í samstarfi við hagsmunafélög nemenda: Félag hinsegin stúdenta, Feminístafélag HÍ, Skyn og Maníu, og einnig Jafnréttisnefnd SHÍ. Það var fyrst á Háskóladeginum 2008 sem við ákváðum að prófa að vera með kynningarbás fyrir jafnréttismál skólans og einnig sem kynning á félögunum. Þessi hópur, ásamt fleirum, hafa verið í samstarfi með Jafnréttisdaga uppfrá því.“

Jafnréttisnefnd HÍ samanstendur af 7 einstaklingum en það eru fulltrúi stúdenta, formaður nefndarinnar og einn einstaklingur af hverju fræðisviði. Jafnréttisnefnd HÍ, Ráð um málefni fatlaðs fólks ásamt fleiri aðilum á vegum skólans og fulltrúum stúdenta taka þátt í að gera dagana að því sem þeir eru. Arnar segir að samstarf starfsfólks HÍ og nemenda sé mikilvægt.

„Það hefur skapast mjög góð dínamík í þessu samstarfi,  það væri ekki eins að hafa bara annaðhvort.Viðburðurinn er mjög fjölbreyttur og það er líklega vegna þess að það eru margir sem koma að dagskránni. Það er enginn einn sem á þetta.“

Lokadagur Jafnréttisdaga HÍ var haldinn með pompi og prakt í Stúdentakjallaranum föstudaginn 17. október og var hann hápunktur jafnréttisdaga. Þar var boðið í „Straight friendly partý“ og allir gagnkynhneigðir boðnir velkomnir. „Til dæmis eru skemmtistaðir oft „gay-friendly“ sem þýðir að þeir séu í rauninni „straight“ en eru bara „gay-friendly.“ Þarna er búið að snúa hlutunum aðeins við og fókusa á normið. Þeir sem tilheyra norminu þurfa ekki að pæla í því af því að það verður enginn hissa ef þú ert straight og þú tekur ekki sérstaklega eftir þröskuldum eða tröppum ef þú ert ófatlaður.“

„Því fleiri normatívum hópum sem maður tilheyrir því ólíklegra er að maður átti sig á því. Þetta er tilraun til þess að gera það sem er normatívt og hversdaglegt meira áberandi. Á þessu kvöldi leikum við okkur svolítið með þessar hugmyndir um að vera straight og hinsegin,“ segir Arnar.