Niður með Frakkland!

Heimildamyndin Vive la France, eða Lifi Frakkland hefur vakið talsverða athygli en myndin var sýnd á RIFF núna í haust. Annar leikstjórinn, Helgi Felixson, er íslenskur og leikstýrði hann meðal annars heimildamyndinni Guð blessi Ísland sem fjallar um bankahrunið. Vive la France hlaut á dögunum silfurverðlaun í flokki heimildamynda á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Mexíkó. 

Vive la France fjallar um líf fólks á eyjunni Tureia í Frönsku Pólýnesíu og máttleysi þeirra gagnvart afleiðingum prófana Frakka á kjarnorkuvopnum á árunum 1966-1996. Alls voru sprengdar á milli 175-180 kjarnorkusprengjur á eyjunni og voru sumar þeirra öflugri en kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki. Frönsk stjórnvöld afneita vandanum og vilja meina að afleiðingar sprenginganna hafi verið minniháttar. Staðreyndin er hins vegar sú að nánast annar hver íbúi á eyjunni er með krabbamein og jarðfræðingar hafa komist að því að jarðvegurinn undir eyjunni er svo illa farinn að hún gæti hrunið í hafið á hverri stundu og valdið flóðbylgju.

Frakkar sprengdu 180 kjarnorkusprengjur á svæðinu á þrjátíu ára tímabili

Frakkar sprengdu 180 kjarnorkusprengjur á svæðinu á þrjátíu ára tímabili

Í myndinni er fylgst með parinu Kua og Teariki sem eru búsett á eyjunni. Þau eru ung, trúlofuð og foreldrar lítils drengs. Þau eiga lífið fram undan en framtíðin brosir ekki beinlínis við þeim. Flestir fjölskyldumeðlimir þeirra eru annaðhvort veikir af krabbameini eða nú þegar fallnir frá af völdum sjúkdómsins. Þegar tíðindin um skelfilegt ástand jarðvegsins undir eyjunni berast hinu unga pari er vart um aðra valkosti að ræða en að flýja frá Tureia. 

Myndin er grípandi strax frá byrjun. Viðfangsefnið er athyglisvert og verðugt umfjöllunar. Vive la France vekur óumflýjanlega upp andúð gagnvart Frökkum, nýlenduherrunum sem var ekki meira annt um nýlendur sínar en svo að þeir sprengdu þar heimsins öflugustu sprengjur með tilheyrandi geislavirkni og eyðileggingu.

Það var forvitnilegt að kynnast aðstæðum íbúa Tureia og í myndinni er dregin upp einstaklega falleg mynd af Pólýnesunum. Þeir eru æðrulausir, heimakærir, söngelskir og gestrisnir en á sama tíma dylst fæstum gremja þeirra gagnvart fyrrum herraþjóð sinni. Leikstjórinn einblínir á líf og tilveru eyjaskeggjanna og áhorfandinn lítur á vandamálið með þeirra augum. Slíkt sjónarhorn getur verið vandasamt að fanga en það tekst vel upp í myndinni. Þótt viðtöl hafi stundum verið svolítið löng og stefnulaus datt myndin ekki beinlínis niður. Helsta umkvörtunarefni mitt var ef til vill tónlistin sem var full klisjulega dramatísk á köflum. Það var alveg óþarfi að beita slíkum brellum þar sem efniviðurinn var alveg nógu átakanlegur í sjálfu sér.

Umfjöllun myndarinnar var vissulega einhliða og myndin sem dregin er upp af Frökkum er sótsvört. Það hefði ef til vill verið áhugavert að heyra þeirra hlið á málunum. Þeir vilja nefnilega halda því fram að geislavirkni sé löngu hætt að mælast á svæðinu. Það breytir því þó ekki að frönsku nýlenduherrarnir leyfðu sér að traðka á nýlendum sínum með því að spilla náttúru þeirra og nýlenduhyggjunni er enn haldið á lofti með algjöru sinnuleysi yfirvalda. Slíkt er auðvitað til háborinnar skammar - niður með Frakkland!

Niðurstaða: Vive la France er fín heimildamynd sem fjallar um athyglisvert en átakanlegt efni. Hún er afhjúpandi og ádeilan á Frakka er hörð. Ef til vill hefði verið forvitnilegt að leyfa þeim vísindamönnum sem telja að umhverfið sé óspillt á svæðinu að tjá sig og tefla fram sínum rökum. Þá hefði umfjöllunin rist enn dýpra.

Einkunn: 3,5 stjörnur af 5