Fáðu hlátur beint í æð!

Leikritið Beint í æð var frumsýnt fyrir troðfullum sal síðasta föstudag í Borgarleikhúsinu. Verkið er eftir Ray Cooney en hann skrifaði einnig Nei ráðherra og Viltu finna milljón? sem slóu í gegn á sínum tíma. Verkið er um lækni sem á að halda ræðu á læknaplebbasamkomu en fær að vita rétt á undan að hann á 17 ára son sem hann hefur aldrei hitt. Sonurinn og barnsmóðirin koma í heimsókn og upphefst mikið uppistand.

Ég vissi nokkurn veginn við hverju væri að búast enda er hér farsi á ferð. Að sýningu lokinni gekk ég út án þess að spyrja mig einnar einustu spurningar en með bros á vör eftir vel heppnaða sýningu. Það sem ég tók fyrst eftir var algjörlega frábær sviðsmynd. Hún var einföld og skemmtileg læknastofa en það sem gerði hana svona frábæra var glugginn sem skartaði fallegu útsýni og átti eftir að gegna stóru hlutverki í sýningunni.

Leikararnir fóru hamförum og þar var Hilmir Snær fremstur í flokki. Gríðarlega sterkt að fá jafn flottan leikara í þetta aðalhlutverk. Hann svitnaði skyrtunni sinni tvisvar og þurfti að beita öllum sínum raddstyrk til að halda hrynjandi sýningarinnar gangandi enda lykilatriði að hún myndi ekki detta niður. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að fólk hló svo mikið að hann varð að ná að yfirgnæfa hláturinn aftur og aftur og aftur til að halda boltanum gangandi. Gói var gríðarlega góður í sínu hlutverki og nýttust hans hæfileikar frábærlega. Hann bauð þó upp á nokkrar falsettur sem heilluðu mig ekki.

Barnsmóðir Hilmis var leikin af Maríönnu Clöru Lúthersdóttur og féll leikur hennar í skuggann af stórleik mótleikara hennar. Hún hélt góðum takti en það vantaði upp á sannfæringu og að hún tryði því að aðstæður væru henni hættulegar. Aðrir leikarar stóðu sig vel og var mjög þakklátt að fá Örn Árnason í hlutverk gamals rugludalls. Salurinn elskaði hann og náðu hann og Gói mjög vel saman með söngvitleysu.

Halldóra Geirharðs leikstýrði og Gísli Rúnar þýddi. Gísli Rúnar lék á alls oddi og var textinn oft mjög körrent. Meira að segja svo körrent að grínast var með maura á Landspítalanum sem fjallað var um í kvöldfréttum klukkustund fyrir sýningu.

Niðurstaða: Geysilega lifandi og skemmtileg sýning. Hentug kvöldstund fyrir fólk sem er ekki þetta dæmigerða leikhúsfólk og óhætt að mæla með þessu fyrir alla sem eru til í góðan farsa. Þessi sýning er ekki þrjár og hálf stjarna og ekki þrjár heldur, þannig að ég ætla að gefa henni þrjár stjörnur og kvart af þeirri fjórðu.

MenningDaníel Geir Moritz