Lifað hátt (á væntingum)

Tímarit, matreiðsluþættir, kvikmyndir, lífskúnstnerar og okkar eigin vinir segja okkur það. Okkur finnst það vera satt. En aftur og aftur hefur verið sýnt fram á það í rannsóknum að við finnum engan mun á ódýrustu og dýrustu rauðvínum heimsins.

Þannig hafa sérfræðingar í vínbransanum kallað þúsund króna vín „guðdómlegt“ ef því er hellt úr flösku sem venjulega myndi innihalda 20.000 króna vín. Þekktir smakkarar hafa ausið úr karöflum reiði sinnar yfir vín sem þeir sjálfir hafa dásamað, eftir að þeim hafði verið sagt að vínið kæmi frá minna virtum framleiðanda. Heilir 54 sérfræðingar, hver einn og einasti í þeirri tilraun, áttuðu sig ekki á því að þeir voru að drekka hvítvín sem var litað rautt. Það er í raun grátbroslegt að lesa um allar þær hugmyndaríku tilraunir sem gerðar hafa verið á aumingja fólkinu sem lagt hefur á sig raunverulega vinnu til að verða sérfræðingar í efninu.

Sérfræðingarnir eru þó ekki að blekkja vísvitandi, ekki frekar en ég þegar ég opnaði loksins dýru ítölsku flöskuna sem ég keypti 2008 fyrir nokkrum mánuðum. Ég gat svarið það að þetta silkimjúka tannín, dýrindis þrúga og þessi undursamlega fylling var það besta sem ég hafði nokkurn tímann hleypt inn fyrir varir mínar.

Sannleikurinn er hinsvegar sá að ef einhver hefði skipt út innihaldinu í flöskunni dýru fyrir 1200 króna vínið sem ég kaupi alltaf í fríhöfninni hefði ég að öllum líkindum gengið í gegnum sama fögnuð í heilanum.
Þar komum við að mergi málsins. Heilinn. Þetta kjötstykki á milli eyrnanna á okkur sem ber ábyrgð á allri okkar skynjun. Það að smakka og dæma vín snýst um mikið meira en bara hvaða efnasambönd leggjast á tunguna í okkur. Það snýst mun meira um væntingarnar sem við höfum. Í stuttu máli sagt, ef ég á von á að smakka rándýrt rauðvín sem á að vera merkilega gott og fæ rauðan vökva í glasið sem hefur sætt/súrt/biturt bragð sem minnir á rauðvín, þá mun mér finnast það fáránlega gott!

Hvað er þá til ráða ef að mann langar í gott vín en vill ekki alltaf að eyða mánaðarsparnaðinum?
Sjálfur hef ég ráðist í að kaupa eina dýra vínflösku og á alltaf til nokkrar ódýrar. Þegar mig svo langar í rauðvínssopa bið ég einhvern annan að taka eina flösku úr eldhússkápnum sem ég geymi vínið í. Ég hef ekki hugmynd um hvaða flaska verður fyrir valinu. Síðan bið ég hjálpsömu manneskjuna að hella innihaldinu í flöskuna sem ég drekk allt mitt vín úr, sem er þessi sama fína vínflaska sem ég kláraði upprunalega innihaldið úr fyrir fáeinum mánuðum. Er ég að drekka það ódýra eða það dýra? Ég hreinlega veit það ekki. Það skiptir heldur ekki máli. Væntingarnar eru alltaf þær sömu. Í dag er þetta örugglega góða vínið, að minnsta kosti kemur það úr rándýrri flösku.