Blóðpeningar: Er konum mismunað vegna eðlilegrar líkamsstarfssemi?

Mánaðarlega blæðir úr klofi nær helmings þjóðarinnar. Eflaust hefur stærstur hluti kvenna á einhverjum tímapunkti þurft að dröslast með dömubindi eða túrtappa í töskunni, draga þetta leynilega góss upp úr töskunni og lauma því í vasann á leið inn á salernið. Þurft að nota ólík leyninöfn yfir „þennan tíma mánaðarins“. Kvenkyns háskólanemar þekkja eflaust flestir tilfinninguna sem fylgir því að koma bindinu laumulega úr töskunni í vasann til þess að rölta svo með það inn á klósett. Því guð forði okkur frá því að samnemendur og félagar á lesstofunni átti sig á ástandinu.  Á langri vakt í vinnunni getur svo komið fyrir að bindin klárist og þá er ekkert í  stöðunni að gera nema að nálgast næsta kvenkyns samstarfsmann og hvísla skömmustulega „áttu dömubindi?“ 

Það er athyglisvert að velta því fyrir sér hvernig blæðingar hafa í gegnum tíðina verið notaðar í þeim tilgangi að lítillækka konur. Lengi vel var talið óæskilegt í mörgum samfélögum að konur sinntu mikilvægum valdastöðum vegna þess að þær færu á blæðingar mánaðarlega. Gæti það talist eitt af mörgum vopnum feðraveldisins að veifa blæðingum eins og rauðum fána gegn konum, undir því falska yfirskini að þær væru í svo djúpstæðu tilfinningalegu ójafnvægi á þessum tíma mánaðarins.

Þrátt fyrir að margt hafi breyst er þessi leynda fyrirlitning á blæðingum kvenna dregin reglulega fram í dagsljósið. Ímyndin um hina veikburða, styggu konu með súkkulaðislefuna og blóðið í klofinu ætlar að verða langvinn. „Ertu á túr“ er andsvar sem hreytt er framan í kvenfólk og er það vitnisburður um þá lífseigu mýtu að bein tenging  sé á milli blæðinga og veruleikafirringu og brjálæðis. Forsetaframbjóðandi repúblíkana, Donald Trump, gerðist sekur um að grípa til þessa útspils þegar hann fullyrti í ágúst að þáttarstjórnandi væri á blæðingum, í þeim tilgangi að lítillækka hann. Ljóst er að þetta ósmekklega útspil Trumps er ekki einsdæmi.

Nýverið hefur sprottið fram umræða um hvort íslensk stjórnvöld ættu að afnema virðisaukaskatt af dömubindum og túrtöppum. Helsta ástæðan fyrir því að umræðan hefur opnast er aðgerðir stjórnvalda í Kanada en skattar af dömubindum, túrtöppum og álfabikurum voru lagðir af þar í landi enda eru þetta nauðsynjavörur fyrir helming þjóðarinnar. Þrýst hefur verið á stjórnvöld víða um heim að beita svipuðum aðgerðum og hefur það jafnframt opnað umræðu á Íslandi. Einnig hefur myllumerkið #túrvæðingin opnað umræðu um blæðingar í daglegu lífi kvenna.

Konur á Íslandi borga 24% skatt af dömubindum og túrtöppum. Eins og staðan er í dag borga því konur um 230 þúsund krónur á ævinni í svokallaðan „túrskatt“ það er að segja ef þær eyða í kringum 2000 krónum á mánuði í þessar nauðsynjavörur. Þetta kemur fram í nýlegri umfjöllun RÚV um málið. Er þetta dágóð fjárupphæð fyrir þá, sem hafa píku og fara á blæðingar, að greiða mánaðarlega og hvað þá fyrir þær konur sem reyna að drösla sér í gegnum nám á hálfum launum eða námslánum. Er þessi svokallaði „túrskattur“ ekki enn ein birtingarmynd þess að konur þurfi að greiða hærra gjald fyrir því að vera virkir þegnar í samfélaginu? Ef orðræðan viðurkennir tilvist píkunnar, blæðinga og öllu því sem fylgir, ætli umræðan opnist? Ætli hægt verði að leggja niður skatt á þessum nauðsynjavörum og blæðingar verði viðurkenndar sem eðlilegur hluti af samfélaginu? Væri þá næsta skref að stofnanir, vinnustaðir og skólar úthlutuðu dömubindum, túrtöppum og öðrum álíka nauðsynjavörum?

Eins og staðan er í dag er það eingöngu fjarlægur draumur að geta nálgast dömubindi eða túrtappa ókeypis á salerni vinnustaðar eða skóla. Er það vegna kostnaðar eða einfaldlega vegna þess að umræða um blæðingar er ekki viðtekin?  

Í apríl hljóp maraþonhlauparinn Kiran Gandhi án þess að nota túrtappa eða dömubindi af tveimur ástæðum; vegna þess hún vildi mótmæla því hve mikið tabú túrblóð væri, sem og af þeirri einföldu ástæðu að henni finnst óþægilegt að hlaupa með túrtappa. Það væri áhugavert að sjá hvernig samfélagið tæki því ef að háskólastúlkur myndu ganga um og leyfa blóðinu að flæða frjálslega vegna þess hve dýrt það er að kaupa dömubindi.

Án þess að leggja upp í þær aðgerðir væri þó engu að síður ánægjulegt að lifa í heimi þar sem flest dömubindi eru ekki framleidd með sterkum ilmefnum þannig að reglulega gufi ekki upp undarleg ilmefnalykt úr klofinu á þér þegar þú ert á túr. Að lifa í heimi þar sem allir gengu stoltir út af lesstofunni með ódýra bindið sitt í hendinni, eða nálguðust það inni á salerni sér að kostnaðarlausu. Blæðingar eru eðlilegur partur af samfélaginu og ekkert til þess að skammast sín fyrir. Þær eiga ekki að vera tabú og við ættum ekki að þurfa að greiða forréttindaskatt fyrir líkamsstarfsemi sem fæstir ráða við.

Það er ekkert jafnrétti í því að konur greiði virðisaukaskatt af nauðsynjavörum og það að geta tekið þátt í daglegu lífi á blæðingum ættu að vera sjálfssögð réttindi, ekki forréttindi. Þar til að sá fjarlægi draumur rætist, að ríkið sendi ástarkveðjur og umhverfisvænan álfabikar til hverrar stúlku sem hefur sínar fyrstu blæðingar, ætti engin kona að greiða hærri skatt af þessum nauðsynjavörum.

 

Texti: Bryndís Silja Pálmadóttir

Myndir: Emma Arvida Byström