Foreldrum mismunað eftir búsetu

192.857 krónur. Það er upphæðin sem foreldri eins árs gamals barns, með lögheimili í Hafnarfirði, þarf að borga í hverjum mánuði, ætli það sér að vista barnið sitt á leikskólum Félagsstofnunar stúdenta. Foreldri í sömu stöðu, með lögheimili í Reykjavík, þarf á sama tíma aðeins að borga í kringum þrjátíu þúsund krónur.

Stafar þetta af mismunandi niðurgreiðslufyrirkomulagi sveitarfélaganna en þau eru ólík í afstöðu sinni gagnvart því að borga fyrir „sín börn“ í leikskólum annarra sveitarfélaga.

Engin lög eða reglugerðir segja til um þetta fyrirkomulag að sögn Sigríðar Stephensen, sem hefur umsjón með faglegu starfi og rekstri leikskóla FS. Aftur á móti eru til staðar svokallaðar viðmiðunarreglur sem Samband íslenskra sveitarfélaga gefur út. Þar segir að ef börn séu vistuð í leikskóla utan síns sveitarfélags skuli sérstaklega samið um greiðslur vegna þess á milli viðkomandi sveitarfélaga. „En það er akkúrat það sem orðið gefur til kynna, bara viðmiðunarreglur,“ segir Sigríður.

Hringja fljótt í foreldra

Átta stunda leikskólavist á dag fyrir eins árs gamalt barn kostar samkvæmt viðmiðunargjaldskrá 192.857 krónur á mánuði. Mismunandi er hversu mikið af þeirri upphæð sveitarfélögin greiða niður, til dæmis greiðir Seltjarnarnes megnið af þessari upphæð til leikskólans. Í tilfelli Hafnarfjarðar er ekki um neina niðurgreiðslu að ræða. „Það kemur ekki króna frá Hafnarfirði,“ segir Sigríður. „Enda erum við ekki með nein börn þaðan.“

Í leikskólum FS, sem eru þrír talsins og allir staðsettir við Eggertsgötu, má á hverjum tíma finna börn með lögheimili í ýmsum sveitarfélögum; Vestmannaeyjum, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Akureyri og Húsavík svo dæmi séu nefnd. En þegar foreldrar barna úr Hafnarfirði sækja um vistun hjá FS segir Sigríður að brugðist sé skjótt við. „Þegar við sjáum umsóknina þá hringjum við um leið og látum vita af því hvernig málum er háttað, svo að viðkomandi geti fundið önnur úrræði.“

„Það er í raun ekki til neitt sem heitir einkarekinn leikskóli á Íslandi.“

Leikskólar FS eru í daglegu tali af mörgum kallaðir einkareknir leikskólar. Sigríður segist hafna þeirri skilgreiningu. „Það er í raun ekki til neitt sem heitir einkarekinn leikskóli á Íslandi,“ segir hún og bendir á að réttara sé að segja að skólarnir séu sjálfstætt reknir, enda reknir að mestu með framlagi frá Reykjavíkurborg.

Neita að hækka gjöldin

„Við rekum okkur fyrir sama fé og aðrir leikskólar í Reykjavíkurborg, nema 20% minna, því okkur er gert að margfalda gjaldskrána okkar gagnvart foreldrum til að vega á móti því,“ segir Sigríður en bætir við að þeim fyrirmælum sé ekki alltaf fylgt eftir. „Á leikskólanum Mánagarði gerum við þetta ekki. Við hækkum ekki gjöldin á stúdenta bara af því að stjórnmálamenn í Reykjavíkurborg hafa ákveðið að hafa þetta svona. Samt er þetta fé sem á rætur sínar að rekja til útsvars foreldranna.“

Sigríður segir að þannig séu leikskólar FS í raun og veru reknir fyrir minni fjárhæðir en skólar Reykjavíkurborgar. Þá borgi stofnunin ekkert með skólunum. „En það sem við gerum betur en stóri bróðir, er að við förum betur með þá fjármuni sem okkur eru úthlutaðir. Þrátt fyrir minna fjármagn erum við að gera mjög góða hluti, okkar skólar starfa eftir hágæða leikskólastefnu og eru mjög vel búnir. Það má margt græða á styttri boðleiðum og minni yfirbyggingu en í kerfi borgarinnar.“

Óhagkvæmur rekstur

Um 100 börn eru nú á biðlista til að komast inn á leikskóla FS. Býst Sigríður við að sú tala nái þremur hundruðum þegar líða fer að vori. Til að mæta þessari eftirspurn vill FS stækka Mánagarð.

„Við þurfum að geta þjónustað stúdenta betur og við þurfum að geta stytt þessa biðlista. Sem þriggja deilda leikskóli er Mánagarður óhagkvæm rekstrareining og það krefst töluverðrar hæfni að halda henni á núlli,“ segir Sigríður, en eins og áður sagði er leikskólinn rekinn á minni framlögum til að hann geti verið raunverulegur valkostur fyrir stúdenta.

„Þar eru nú 68 börn. Ef við gætum stækkað skólann og haft þar 120 börn, væri það allt annar handleggur. Sú rekstrareining væri strax betri. Ekki þyrfti að bæta við leikskólastjóra, eldhúsi eða annari slíkri aðstöðu en þá værum við um leið farin að sigla mun lygnari sæ í rekstrinum.“

Vegna þessa hefur stofnunin sótt um leyfi til stækkunar frá Reykjavíkurborg undanfarin ár, en alltaf fengið neitun. Þykir Sigríði það skjóta skökku við enda hafi FS boðist til að fjármagna stækkunina að öllu leyti. „Borgin hefur margsinnis hafnað þessu á forsendum fjárskorts,“ segir hún, en bendir á að rök borgarinnar haldi hreinlega ekki vatni.

Vilja ekki vinninginn

Sú staðreynd liggur fyrir að í dag eru um 100 börn á biðlista eftir leikskólavist á einungis þessum þremur leikskólum, og má að líkindum finna önnur eins dæmi innan Reykjavíkur. Borgaryfirvöld þyrftu að greiða að fullu fyrir stækkun eigin leikskóla, en hér býðst þeim að vissu leyti ókeypis stækkun.

„Þetta er í rauninni bara eins og happdrættisvinningur fyrir borgina.“

„Þetta er í rauninni bara eins og happdrættisvinningur fyrir borgina. Það kemur til þeirra einhver kona,“ segir Sigríður og vísar til sín sjálfrar. „Og hún segir: „Okkur langar að stækka leikskólann okkar. Við skulum sjá um það, útvega húsnæði, breyta því og fjármagna stækkunina að öllu leyti.“ Samt afþakkar borgin þetta boð ítrekað.“

Texti: Skúli Halldórsson