5 ómissandi jóladrykkir

1 Jólaglögg

Jólaglögg er til í ýmsum útfærslum en meginuppistaða hennar er yfirleitt hitað rauðvín og krydd. Talið er að Rómverjar hafi lagað jólaglögg fyrstir manna en elstu heimildir um drykkinn eru frá annarri öld eftir Krist. Siðurinn barst víða um Evrópu og loks til Norður-Ameríku og því eru til ótal tilbrigði af drykknum. Margir hafa eflaust heyrt um Glühwein þeirra Þjóðverja, skandínavísku Glöggina, Mulled Wine Bandaríkjamanna og Vin Chaud Frakka. Listinn er þó ekki tæmandi enda eiga flest Evrópulönd sína eigin útgáfu af jólaglögg. 

Til eru ótal afbrigði af jólaglögg

Til eru ótal afbrigði af jólaglögg

 

Uppskrift (fyrir 8)

1 appelsína (afhýdd og skorin í bita)

1/2 bolli sykur

2 bollar vatn

1/2 tsk múskat

1 tsk malaður negull (eða nokkrir heilir negulnaglar)

2 tsk kanill

1 flaska rauðvín

Skvetta af gini, vodka eða brennivíni (ef maður kýs svo)

Aðferð: Setjið appelsínu, vatn, krydd og sykur í stóran pott. Kveikið undir og lækkið síðan hitann þegar suðan kemur upp. Látið malla í u.þ.b. 15 mínútur. Lækkið hitann og bætið við víninu. Hitið blönduna upp á ný en gætið að því að suðan komi ekki upp. Berið fram í krúsum. 

2 Heitt súkkulaði

Astekar eru taldir upphafsmenn súkkulaðidrykkja og líklegt er að þeir hafi dreypt á fyrstu súkkulaðidrykkjum sínum fyrir ríflega 2000 árum. Súkkulaðidrykkir Astekanna voru þó verulega frábrugðnir heitu súkkulaði eins og við þekkjum það enda voru þeir sykurlausir og drukknir kaldir. 

Heitt súkkulaði samanstendur yfirleitt af kakó, sykri og hitaðri mjólk. Margir vilja gera greinarmun á heitu súkkulaði og heitu kakói en hið síðarnefnda er blanda af kakódufti (t.d. Swiss miss) og heitu vatni. Hins vegar er „alvöru“ heitt súkkulaði blanda af nýmjólk og súkkulaði. 

Heitt súkkulaði er gjarnan drukkið á veturna, hvort sem það er í jólaboðum eða skíðaferðum. Sumum finnst jafnframt gott að skvetta smá krydduðu rommi út í súkkulaðið, að hætti Vínarbúa. 

Uppskrift (fyrir 4)

1 lítri nýmjólk

125 g suðusúkkulaði

150 ml þeyttur rjómi

Aðferð: Hitið mjólkina í potti og brytjið súkkulaðið útí. Hrærið á meðan súkkulaðið bráðnar og blandast við mjólkina. Hellið í bollana og setjið þeyttan rjóma ofan á. 

3 Malt og appelsín

Appelsín kom á markað árið 1955 og fljótlega upp úr því hóf fólk að blanda saman appelsíni og malti. Samkvæmt vef Ölgerðarinnar er líklegt að það hafi verið gert fyrst og fremst til þess að drýgja maltið. 

Drykkurinn varð fljótt vinsæll og er nú einn helsti jóladrykkur Íslendinga. Deilt er um hvernig hlutföll blöndunnar eigi að vera og jafnframt hvort skuli hella appelsíninu eða maltinu fyrst. Samkvæmt vef Ölgerðarinnar er ágætis þumalputtaregla að blanda eftir stafrófsröð, þ.e. appelsíninu fyrst og maltinu svo. Hlutföll hljóta að ákvarðast af smekk, þeim sem finnst gott að hafa ríkjandi maltbragð ættu þannig að hafa hlut maltsins stærri. 

Ást við fyrstu sýn: Íslendingar hafa blandað saman malti og appelsíni allt frá því að appelsín kom fyrst á markað. 

4 Eggjapúns

Hefðbundið eggjapúns inniheldur mjólk, hrá egg, sykur, áfengi (t.d. romm, brandí eða viskí) og krydd. Talið er að drykkurinn sé afbrigði af drykknum posset sem var vinsæll áfengur drykkur í Englandi á miðöldum. 

Í dag er eggjapúns vinsæll jóladrykkur í Norður-Ameríku en bæði Bandaríkjamenn og Kanadamenn drekka eggjapúns frá þakkargjörðarhátíð og allt fram til jóla. 

Þessi siður hefur ekki fest sig í sessi hér á landi en drykkurinn er engu að síður spennandi og freistandi að prófa. 

Uppskrift í boði Jamie Oliver: 

5 Chai-te

Chai-te er ekki hreinræktaður jóladrykkur en það er samt sem áður kryddað og jólalegt á bragðið. Chai-te heitir upphaflega Masala Chai og er ættað frá Indlandi. Drykkurinn er blanda af svörtu tei og indverskum kryddum, sykri ásamt heitri mjólk og heitu vatni. 

Til eru ýmiss konar afbrigði af chai-tei, til að mynda bjóða mörg kaffihús upp á drykk sem kallast chai-latte. Því svipar til chai-tes en í stað vatns og mjólkur er yfirleitt aðeins notuð mjólk við uppáhellinguna. 

Það er einfalt að laga chai-latte heima og ilmurinn sem fylgir er ljúfur og jólalegur. Hægt er að nota ýmiss konar krydd og þeir sem hafa mjólkuróþol geta notað möndlumjólk, haframjólk eða sojamjólk í stað venjulegrar. 

„Chai“ þýðir einfaldlega „te“ á mörgum evrasískum tungumálum

„Chai“ þýðir einfaldlega „te“ á mörgum evrasískum tungumálum

Uppskrift (fyrir 2)

1/2 lítri nýmjólk (má einnig vera möndlumjólk, haframjólk eða sojamjólk)

1 msk hunang

1 tsk kanill

1/2 msk negulnaglar

1/4 tsk múskat

1/2 tsk engifer

2 pokar af Ceylon-tei 

Aðferð: Blandið saman öllum innihaldsefnum í potti (opnið tepokana og hellið í blönduna). Hitið og hrærið þangað til að suðan kemur upp. Lækkið hitann og hellið í pressukönnu. Síið blönduna í pressukönnunni, hellið í bolla og skvettið smá kanil yfir. 

 

 

LífstíllStúdentablaðið