Jeg spiser dansk – tala Íslendingar dönsku?

Danska er skyldufag í grunnskólum landsins og hefur hún í aldaraðir verið liður í menntun Íslendinga. Frá því að Ísland hlaut sjálfstæði frá Dönum hefur hlutur hennar þó farið minnkandi. Árið 1999 urðu þær umbreytingar í íslensku skólakerfi að enska kom í stað dönsku sem fyrsta erlenda tungumál grunnskólabarna. Danska hefur verið kennd sem annað erlenda tungumál síðan þá. Nú er svo komið fyrir dönskukennslu í íslenskum grunnskólum að nemendur læra fæstir dönsku fyrr en í 7. bekk þótt einhverjir skólar byrji að kenna hana örlítið fyrr.

Ætli danskar orðabækur séu til á flestum íslenskum heimilum?

Ætli danskar orðabækur séu til á flestum íslenskum heimilum?

Margir vilja meina að viðhorf íslenskra barna til danskrar tungu sé síst af jákvæðum toga. Í BA-verkefni sínu, Kan du lide dansk? En undersøgelse af unge islændinges holdning til danskfaget i folkeskolen, viðrar Guðrún Tinna Ólafsdóttir áhyggjur sínar af neikvæðu viðhorfi íslenskra barna til dönsku og niðurstöður rannsóknar hennar á viðhorfi grunnskólabarna í 10. bekk eru sláandi: 84% úrtaksins töldu að viðhorf jafnaldra sinna til dönsku væri almennt neikvætt. Þetta áhugaleysi íslenskra nemenda, auk ríkjandi stöðu enskunnar sem annars tungumáls Íslendinga er ótvíræð ógn við dönskukunnáttu Íslendinga. Í raun er varla hægt að staðhæfa að Íslendingar geti yfirleitt bjargað sér á dönsku, eða hvað?

Danska á sunnudögum

Ástæðan fyrir því að danska er kennd í íslenskum grunnskólum er auðvitað sú að ekki er ýkja langt síðan Ísland tilheyrði Danmörku. Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku við Háskóla Íslands og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum segir að stærstu bæir landsins, eins og Reykjavík, Akureyri, Ísafjörður og Seyðisfjörður, hafi á sínum tíma verið undir miklum dönskum áhrifum. Þangað sóttu aðrir landsmenn sér sínar fyrirmyndir að bæjarlífi og lífsstíl. Þeir sem meira máttu sín (kaupmenn og danskmenntaðir embættismenn) vildu líkja sem mest eftir dönsku yfirstéttinni, sem sást í ýmsum hefðum, eins og til dæmis að halda kaffiboð í garðinum í kringum dúkað borð og klæðast dönskum búningum. Áhrifa gætti einnig í talmáli – í sumum kaupstöðum töluðu bæjarbúar iðulega saman dönsku á sunnudögum.

Við lok nítjándu aldar hafði sjálfstæðisbarátta Íslendinga þegar hlotið byr undir báða vængi og hið íslenska mál í sókn. Nú voru þeir sem töluðu dönsku sagðir sleikja upp Dani og þeir sakaðir um undirlægjuhátt. Gagnrýnin beindist helst að dönskuslettum. Gullaldaríslenskunni var stillt upp á móti hrognamáli Dana, þeir þýddu engin nýyrði eins og við, þeir voru óskýrmæltir og tungutak þeirra einkenndist af skeytingarleysi. Úrslit þess stríðs eru ekkert leyndarmál, annars væri þetta blað líklegast á dönsku.

Dönsk tímarit eru ennþá vinsæl á Íslandi enda margir hrifnir af skandínavískri hönnun og stíl. 

Dönsk tímarit eru ennþá vinsæl á Íslandi enda margir hrifnir af skandínavískri hönnun og stíl. 

Dönskulestur var þó ávallt talinn mikilvægur enda var danskan á þessum tíma lykill okkar að upplýsingaveitum um heiminn. Dönsk tímarit og vikublöð voru mjög vinsæl og um langt skeið var flest íslenskt námsefni á dönsku. Með auknum enskum áhrifum í heiminum hefur þörfin á annarri tungumálakunnáttu en ensku dvínað og óhætt er að fullyrða að sá forsendubrestur hafi orðið til þess að dönskukunnáttu Íslendinga hafi hrakað.  

Tæknin, Klovn og Hróarskelda – meiri tilgangur með dönsku?

Þrátt fyrir að niðurstöður rannsóknar Guðrúnar Tinnu hafi leitt í ljós að flest grunnskólabörn í 10. bekk telji viðhorf jafnaldra sinna til tungumálsins neikvætt var ekki sömu sögu að segja um tilgang kennslunnar en 63% aðspurðra töldu að dönskunámið gæti gagnast þeim í framtíðinni. Katrín Jónsdóttir, dönskukennari í Réttarholtsskóla, tekur í sama streng og segir að grunnskólabörn sjái meiri tilgang með því að læra dönsku í dag en áður. Þau hafi jafnan jákvætt viðhorf til málsins þegar þau byrja í 7. bekk. Þegar komið er í 8. bekk getur áhuginn dvínað, mögulega vegna þyngra efnis. „Neikvætt viðhorf í garð dönskunnar er eins og neikvætt viðhorf í garð allra faga, ef maður nær ekki tökum á náminu er maður væntanlega neikvæður. Ef þeim er kennt að nota málið sér í hag, ekki bara að þjösnast endalaust á málfræði, þá er meira svigrúm til þess að gera námið skemmtilegt. Kennarinn sé þarna lykillinn, því áhugasamur kennari gerir námið áhugaverðara,“ segir hún.  

Ætli Íslendingar sem heimsækja Hróarskeldu séu duglegir að tjá sig á dönsku við innfædda?

Ætli Íslendingar sem heimsækja Hróarskeldu séu duglegir að tjá sig á dönsku við innfædda?

Ungmenni í menntaskóla hafa einnig meiri áhuga á dönsku samkvæmt Viðari Hrafni Steingrímssyni, dönskukennara í Flensborgarskólanum. Hann telur að þetta sé sjónvarpsþáttunum Klovn, Hróarskelduhátíðinni og annarri menningarframleiðslu Dana að þakka. Þetta efni fer betur í ungmenni en annað, eins og Viðar sagði sjálfur: „í gamla daga var bara Matador.“ Þótt þeir þættir séu vissulega frábærir eru þeir kannski ekki í uppáhaldi hjá menntaskólakrökkum.  

Því gæti verið að áhugi nemenda á grunn- og menntaskólastigi á dönsku sé ekki eins lítill eins og margir halda og sé jafnvel að aukast. En er námið að lagast? Viðar segir að við séum að færast í rétta átt en að því miður sé mikið skorið niður í dönskunni í nýrri námsskrá.

Íslendingar sem flytjast til Danmerkur illa undirbúnir

Óformleg könnun sem blaðamaður lagði fyrir meðlimi Facebook-hópsins Íslendingar í Danmörku leiddi í ljós að langflestir meðlimir hópsins töldu dönskukunnáttu Íslendinga vera slaka og kenndu þar margir hreimnum okkar um. Þeir sem svöruðu sögðust flestir ekki hafa verið nógu vel undirbúnir í dönsku þegar þeir fluttu út en sögðust þó hafa náð tökum á málinu heldur hratt. Hvort sem það er dönskukennslu í grunnskóla að þakka eða skyldleika málanna tveggja er erfitt að segja.

Norðmenn gera grín að óskiljanleika dönskunnar í þessum bráðfyndna skets. 

Hvað viðhorf Íslendinga til dönsku varðar voru þeir meðlimir Facebook-hópsins sem svöruðu flestir sammála því að þeir Íslendingar sem höfðu einhverja tengingu við Danmörku (höfðu búið þar eða áttu fjölskyldu þar), voru jákvæðir gagnvart dönsku en að Íslendingar væru þó almennt neikvæðir í garð dönskunnar. Algeng skoðun viðmælenda var að fullorðnir væru þeir einu sem hefðu jákvætt viðhorf til dönsku en að unglingarnir væru upp til hópa neikvæðir og áhugalausir. „Ekki unglingarnir allavegana haha,“ og „Man ekki eftir neinum í dönskutímum í skóla sem kunnu að meta málið,“ voru meðal annars innlegg meðlima hópsins í þessa umræðu.

Er samnorrænt mál lausn?

Mörg vötn hafa runnið til sjávar frá því að Íslendingar litu upp til Dana og þótti dönsk tunga „fínni“ en íslenskan. Nú gera Íslendingar gjarnan grín að því hvernig Danir tala og þeir hlæja sig sömuleiðis máttlausa að okkur og okkar „skandinavísku“. Danska er ef til vill ekki léttasta skandínavíska tungumálið til þessa að læra og því er kannski tímabært að athuga hvort norsku- eða sænskukennsla væri árangursríkari en dönskukennsla í skólum. Þá væri hægt að búa til ágætan grunn í öllum málum sem nemendur geta síðan byggt á þegar þeir flytja út til Norðurlandanna. Samnorrænt tungumál er möguleg lausn og gætu allir Norðurlandabúar hagnast á því.

Væri heppilegra að kenna sænsku eða norsku í íslenskum skólum?

Væri heppilegra að kenna sænsku eða norsku í íslenskum skólum?

Með auknu norrænu samstarfi gæti orðið vitundarvakning á mikilvægi þess að þessi lönd geti talað saman án þess að þurfa að grípa til enskunnar. Þetta þýðir ekki að Íslendingar hafi engan áhuga á Danmörku. Við erum hvergi nærri hætt að flytjast þangað búferlum eða fara þangað í frí og á þetta litla land sér stað í hjörtum margra Íslendinga. Því er ef til vill ekkert fararsnið á skóladönskunni, að minnsta kosti ekki í bili.  

Texti: Arnór Steinn Ívarsson

MenningStúdentablaðið