Þarftu að endurstilla hugarfarið?

Hugarfar fólks og áhrif þess á frammistöðu, hvatningu og vellíðan hefur verið rannsakað af Dr. Carol Dweck, prófessor við Stanford háskólann. Í fáum orðum gengur kenning hennar út frá því að til er tvenns konar hugarfar: festuhugarfar (e. fixed mindset) og gróskuhugarfar (e. growth mindset). Manneskja sem er með festuhugarfar telur að persónuleg færni og hæfniþættir eins og gáfur og íþróttahæfileikar séu meðfæddir og óbreytanlegir. Hins vegar trúir manneskja með gróskuhugarfar að hægt sé að breyta og þróa þessa þætti.

Rannsóknir Carol og annarra staðfesta hversu mikilvægt það er að vita hvað hugarfar getur haft mikil áhrif á hegðun og það hvernig við lifum lífinu. Hægt er að breyta festuhugarfari í gróskuhugarfar. Eitt af því merkilega sem gerist við slíkar breytingar er að heilinn myndar nýjar taugatengingar með nýrri vitneskju og áhrif þess skila sér í aukningu á eðlismassa heilans. Rannsóknir á sviði taugavísinda sýna fram á að með því að læra eitthvað nýtt eða æfa eitthvað nýtt getur manneskja þróað heilann sinn.

Í lok misseris, þegar álag eykst og streitan fer að gera meira vart við sig er mikilvægt að muna að stilla inn á gróskuhugarfarið. Hugsið um heilann sem vöðva sem þarf að þjálfa – því meiri æfingu sem hann fær því sterkari verður hann. Það mun skila sér í jákvæðum áhrifum á markmiðin sem þið setjið ykkur, hvernig þið takist á við erfiðleika og farið í gegnum þá.

Ég hvet ykkur til að kynna ykkur nánar gróskuhugarfar og rannsóknir Carol Dweck. Gott er að nota leitarvélina í youtube og slá inn ‘Carol Dweck growth mindset’.

Með jákvæðri kveðju og hugarfari

Fyrir hönd NSHÍ

Hildur Katrín Rafnsdóttir, náms- og starfsráðgjafi

LífstíllStúdentablaðið