Einar Ben og Háskóli Íslands

Vissir þú að…

... Benedikt Sveinsson, faðir Einars Benediktssonar skálds, lagði fyrstur fram frumvarp á Alþingi um stofnun Háskóla Íslands árið 1881. Skóli sá átti að hýsa laga-, guðfræði-, og læknadeild og átti að mennta íslenska embættismenn.

... Föðursystir Einars, Þorbjörg Sveinsdóttir, og frænka hans, Ólafía Jóhannsdóttir, söfnuðu fé fyrir stofnun skólans árið 1894. Fé þetta nýttist svo til að styrkja fyrstu kvenstúdenta Háskóla Íslands.

Skáldið og athafnamaðurinn Einar Ben

Skáldið og athafnamaðurinn Einar Ben

... Einar var, eins og Benedikt, mikill baráttumaður fyrir sjálfstæði Íslendinga. Hann stofnaði til að mynda fyrsta dagblaðið á Íslandi, Dagskrá árið 1894, sem studdi Heimastjórnarflokkinn. Einar var afkastamikið skáld og höfundur allt til ársins 1932, og orðinn viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar 68 ára að aldri, er hann settist alfarið að í Herdísarvík á Reykjanesskaga ásamt sambýliskonu sinni Hlín Johnson.

... Einar ánafnaði Háskóla Íslands öllum sínum eigum árið 1935, fimm árum áður en hann lést. Um var að ræða híbýli, innbú og alla landareign Einars á Selvogi: Herdísarvík sem er um 4.200 hektarar að stærð.

... Meðal gjafa var bókasafn Einars sem samanstendur af 1.225 verkum, flest á latínu eða grísku um landa- eða sagnfræði. Safn þetta er vel varið í luktum geymslum Háskólabókasafnsins enda margt af því mjög fágætt.

... Hægt var að tylla sér í sófasett Einars í Skólabæ, móttökusal Háskólans í Suðurgarði. Settið fór síðar á flakk og endaði í aðalbyggingu Háskólans þar sem nemendur gátu holað sér niður. Eftir breytingar endaði það í geymslu og þarfnast nú lagfæringar.

... Fallegasti gripur innbúsins er þó enn á Háskólasvæðinu, í VR-III. Gripurinn er forláta skrifborð skáldsins en við það voru eflaust mörg  af verkum hans unnin. Borðið er voldugt og í alla staði hið glæsilegasta. Því miður er það falið í fundarsal hússins en markmiðið er að gefa því betri stað þar sem allir geta barið það augum.

Skrifborð Einars 

Skrifborð Einars 

... Nemendafélagið Grimmhildur, félag H-nemenda á Hugvísindasviði, afhjúpaði minningarskilti í Selvogi árið 2013 um síðustu íbúa Herdísarvíkur, Hlín og skáldið.


Texti: Kristinn Pálsson

MenningStúdentablaðið