Djass fyrir byrjendur: Lagalisti

Djasstónlistarmennirnir Ragnhildur Gunnarsdóttir og Steingrímur Teague settu saman lagalista fyrir lesendur sem eru forvitnir um djass en vita ekki hvar þeir eiga að byrja...


ADHD - „Saman“

Við erum bæði sammála um að allar plötur íslensku hljómsveitarinnar ADHD séu snilld. Best er að hlusta á lagið „Saman“ með lokuð augu upp í sófa og leyfa tónlistinni að fara með mann á áður óþekkta staði. Er þetta djass, indímúsík, eitthvað annað? Hverjum er ekki sama, þegar þetta er svona gott!

Bill Evans & Tony Bennett – „Some Other Time“

Það spila fáir píanóleikarar jafn undurfallegar ballöður og Bill Evans, sem samt er of kúl til að verða uppvís að væmni. Við, sem erum ekki jafnkúl, háskælum jafnan yfir því þegar hann einn leikur undir hjá Tony Bennett.

Blossom Dearie – „Now At Last“

Líkt og Nina Simone og Aretha Franklin þá var Blossom Dearie algjör píanóvirtúós, þrátt fyrir að vera þekktari sem söngkona. Hin kanadíska Feist, mikill aðdáandi Dearie, gerði sína útgáfu af þessu viðkvæma lagi á plötunni Let It Die um árið.

Chet Baker – „But Not For Me“

Söngfuglinn og trompetleikarinn Chet Baker er einn af allra færustu djössurum sögunnar. Lagið „But Not For Me“ af plötunni Chet Baker Sings sýnir bestu hliðar Chet, þ.e. ómþýðan söng í bland við lýrískan spuna á trompet.

Dave Holland – „Blue Jean“

Þetta fallega lag má finna á Pathways, plötu bassaleikarans og tónsmiðsins Dave Holland. Við gátum ekki sleppt því að leyfa forkunnarfögrum barítónsaxafónleik Gary Smulyan að hljóma í eyrum hlustenda.

Einar Valur Scheving – „Sveitin“

Einar Valur Scheving gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2006 og gaf henni nafnið Cycles. Platan í heild sinni er afskaplega draumkennd og falleg og gefur lagið „Sveitin“ góða mynd af því.

Jóel Pálsson - „Andrúm“

„Andrúm“ eftir töffarann Jóel Pálsson getur ekki annað en framkallað gæsahúð hjá hlustendum. Lagið læðist nánast aftan að manni en springur svo út í kraftmikilli rokkdjasskássu.

Louis Armstrong & Ella Fitzgerald - „A Foggy Day“

Það er ekki hægt að vera í vondu skapi þegar maður hlustar á þessa tvo sólargeisla syngja saman um hvernig góður félagsskapur getur lyft manni uppúr versta drunga.

Miles Davis - „All Blues“

Við hefðum getað valið hvaða lag sem er af lykilverkinu Kind of Blue. Sjálfsagt hefur engin plata vakið áhuga jafnmargra á djassi. Hún grípur við fyrstu hlustun, og verður einhvernveginn betri og betri… tja… í okkar tilfelli endalaust, enn sem komið er!

Nancy Wilson & Cannonball Adderley – „The Masquerade Is Over“

Nancy Wilson er snargöldrótt söngkona. Aldrei hefur verið jafnsárt að heyra um ástina hverfulu – eitt sinn svo heita, en nú hismið eitt.

Texti: Ragnhildur Gunnarsdóttir og Steingrímur Teague

Lagalistann er að finna (nokkurn veginn í heild sinni) hér

MenningStúdentablaðið