Fræðsla er lykillinn: „Hinsegin“ hefur margar birtingarmyndir

 Heiðrún Fivelstad

 Heiðrún Fivelstad

Heiðrún Fivelstad er 21 árs gamall mann- og kynjafræðinemi við Háskóla Íslands. Heiðrún hefur verið virk í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi og hélt meðal annars fyrirlestur á jafnréttisdögum MH. Í ljósi mikillar umræðu um réttindi hinsegin fólks á Íslandi undanfarið ákvað Stúdentablaðið að setjast niður með Heiðrúnu og taka mið af stöðu mála.

Nú virðist mörgum hulin ráðgáta hver munurinn er á kynhneigð og kynvitund. Hver er skilgreiningarmunurinn þarna á milli? Það er vissulega munur á kynvitund (e. gender identity) og kynhneigð (e. sexual orientation). Munurinn þar á milli er augljósari í ensku þar sem gender og sex eru tvö mismunandi orð, en á íslensku höfum við einungis „kyn“, og er því auðveldara að ruglast þar á milli. Kynvitund segir til um hvernig kyn þú upplifir þig sem, burtséð frá líffræðilegu kyni og útliti. Sumir upplifa sig sem karlkyns, sumir sem kvenkyns, aðrir sem blöndu af hvoru tveggja, enn aðrir flakka þar á milli og aðrir upplifa sig sem hvorugt. Hins vegar segir kynhneigð til um hverjum þú laðast að, til dæmis samkynhneigðir, gagnkynhneigðir og pankynhneigðir og svo lengi mætti telja. Persónulega finnst mér mikilvægt að gera sér grein fyrir að þessir tveir hlutir eru aðskildir [þ.e. kynhneigð og kynvitund], auk þess hafa þeir hvorugir neitt með líffræðilegt kyn einstaklinga að gera.

Er misjafnt eftir kynhneigð og kynvitund hversu mikla fordóma fólk upplifir? Er fólk almennt opnara fyrir sumum kynhneigðum- og vitundum en öðrum? Almennt hef ég heyrt, og sjálf tekið eftir, að íslenskur almenningur sé opnari fyrir samkynhneigðum en öðrum undir hinsegin-regnhlífinni. Ég tel það vera sökum þess að almennt er íslenskur almenningur upplýstari um samkynhneigða en aðra hinsegin hópa, auk þess sem birtingarmyndir þeirra eru algengari í fjölmiðlum, bókmenntum og sjónvarpsefni. Þeir fordómar sem verða til eru því einfaldlega sökum fáfræði og því mikilvægt fyrir almenning að fá bæði fræðslu, og sækjast eftir fræðslu, til að sporna gegn þeim fordómum. Þar með opnast upplýsingaflæði um fleiri hópa hinsegin heimsins og fordómar minnka vonandi í kjölfarið.

Heldur þú að einhverjir hinsegin hópar upplifi meira frelsi eða meiri rétt til einhvers en aðrir? Sjálf tel ég að sá heimur sem við búum í í dag byggist að miklu leyti á skilgreiningum í rými með ákveðna umgjörð, líkt og kassa. Sjálf finn ég fyrir því, sem samkynhneigð kona á Íslandi, að frá því að fara úr hinum gagnkynhneiðga kassa, sem hinn „heteronormatívi“ heimur gerir sjálfkrafa ráð fyrir að ég tilheyri, fer ég beint yfir í annan kassa, þar sem önnur umgjörð bíður mín sem gerir ráð fyrir hverju sé búist við af mér, til dæmis hvað varðar klæðaburð og hegðun. Mín persónulega upplifun er því ekki endilega sú að um sé að ræða meira frelsi, og klárlega ekki meiri rétt. Ég get hins vegar ekki tekið afstöðu annarra hinsegin hópa, en það kæmi mér ekki á óvart ef upplifun þeirra væri svipuð, þótt það sé sjálfsagt persónubundið.

Nú sérhæfir ferðaskrifstofan Pink Iceland sig í ferðum fyrir hinsegin samfélagið. Telur þú það brjóta í bága við jafnrétti eða á það meiri rétt á sér þar sem að þetta er minnihlutahópur? Ég tel það ekki brjóta í bága við jafnrétti, einmitt þar sem um er að ræða minnihlutahóp. Það er mannlegur réttur hvers einstaklings að upplifa sig öruggan í umhverfi sínu, og þar sem margir einstaklingar sem ferðast til Íslands koma frá löndum þar sem viðhorf til hinsegin fólks er stífara, tel ég það sjálfsagt að þeir megi sækjast í rými þar sem þeir vita að þeir eru öruggir (e. safe space). Persónulega finnst mér frábært að til sé íslensk ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í slíkum ferðum. Ef einhver sækist ekki eftir slíkum ferðum er lítið mál að finna ferðir sem eru ekki sérsniðnar að hinsegin hópum.

Hinsegin barir eru sérstakur samastaður í djammsamfélaginu fyrir hinsegin fólk. Væri það sambærilegt við bar sem væri með það yfirlýsta markmið að vera fyrir gagnkynhneigða eða er réttlætanlegt að líta á það öðrum augum í ljósi þess að hinsegin fólk er minnihlutahópur? Aftur komum við að umræðunni um öruggan stað (e. safe space) og „heternormatívni“. Sjálf tel ég ekki nauðsynlegt fyrir bar að lýsa því yfir að markhópur þeirra séu gagnkynhneigðir, þar sem almenningur gerir sjálfkrafa ráð fyrir því að staðir séu einmitt það, verandi meirihlutahópur samfélagsins. Vegna fordóma sem enn fyrirfinnast í samfélaginu gagnvart hinsegin fólki er mikilvægt fyrir hinsegin einstaklinga að geta djammað á stað þar sem þeir vita að þeim verður ekki mismunað sökum kynhneigðar eða kynvitundar. Einnig er það mikilvægt fyrir hinsegin samfélagið svo hinsegin einstaklingar geti kynnst fleiri einstaklingum í svipaðri stöðu og þeir.
 

Telur þú foreldra í dag vera betur undirbúna fyrir það ef barn þeirra skilgreinir sig sem hinsegin heldur en foreldrar fyrir til dæmis tíu árum? Ég tel að það sé mjög persónubundið hjá hverri fjölskyldu hvernig hún tekst á við slíkt. Hins vegar tel ég að nú til dags sé álitið almennt álitið að slæmt sé að mismuna á grundvelli kynhneigðar. Í þeirri umræðu finnst mér hins vegar mikilvægt að benda á að fjölskyldur þurfa oft tíma til að átta sig á breyttum aðstæðum, líkt og einstaklingurinn sjálfur þarf oft tíma til að átta sig áður en hann er tilbúinn að deila því með fjölskyldu sinni.

Mikilvægt er því að gefa fjölskyldu sinni tíma og rúm til að bæði átta sig, fræðast og sættast við þá staðreynd, ef um ósætti er að ræða. Sjálf veit ég ekki hvort foreldrar séu betur í stakk búnir, en ég tel að meiri fræðslu sé hægt að fá í samfélaginu í dag. Má þar nefna hina ýmsu fyrirlestra Samtakanna 78, Uglu [Uglu Stefaníu Jónsdóttur, fræðslustjóra Samtakanna 78 og formann Trans-Íslands], Kitty [Kitty Andersen, formann Intersex á Íslandi] og svo framvegis.

Hvað telur þú vera mikilvægst að vekja til umræðu um í samfélaginu í dag varðandi hinsegin fólk? Umræðan undanfarið hefur verið virk hvað varðar trans og intersex en almennri vitneskju um þau málefni er þrátt fyrir það ábótavant. Til dæmis er mér það hitamál að intersex einstaklingar skulu vera settir kornungir í aðgerðir sökum fáfræði lækna, málefni sem Kitty hefur verið dugleg að berjast fyrir, en sú umræða er heldur ný af nálinni. Nýlega sat ég einnig fyrirlestur Öldu Villiljósar um kynsegin einstaklinga og nýja persónufornafnið hán, sem mér finnst einnig mikilvæg umræða, og er klárlega einn af þeim hópum hinsegin fólks sem minnst hafa fengið athygli. Mikilvægt finnst mér að vinnustaðir, skólar og einstaklingar sæki fræðslu hjá Samtökunum 78 um hinsegin málefni til að vera betur í stakk búnir.


Texti: Hulda Hvönn Kristinsdóttir