Miðaldafræði og mannauðsstjórnun - Tvær stjörnur á skólabekk

Háskóli Íslands státar af mörgum áhugaverðum og glæsilegum nemendum. Sumir þeirra eru þjóðþekktir, eins og þau Jónsi í Svörtum fötum og Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarkona.

Jónsa í Svörtum fötum þarf varla að kynna á Íslandi en hann vakti athygli sem söngvari popphljómsveitarinnar Í svörtum fötum árið 1999 og er síðan þá orðinn landsmönnum kunnur sem söngvari, leikari, poppari og skemmtikraftur. Fullu nafni heitir Jónsi Jón Jósep Snæbjörnsson og er fæddur 1. júní á Akureyri árið 1977. Hann gekk í Menntaskólann á Akureyri, þar sem hann kláraði stúdentspróf, áður en hann hélt suður til Reykjavíkur. Þar vann hann á leikskóla, lærði söng í FÍH og árið 1998 kom hann fyrst fram í söngleik.

 Ári síðar stofnaði hann hljómsveitina Í svörtum fötum, en hún hefur gefið út fjórar hljómplötur og þrjá DVD diska. Jónsi hefur auk þess gefið út eina sólóplötu, leikið í átta leiksýningum og einni bíómynd og keppt tvisvar sinnum fyrir hönd Íslands í Eurovision. Jón Jósep býr núna í Hafnarfirði með eiginkonu sinni og tveimur börnum, stundar meistaranám í mannauðsstjórnun og vinnur fullt starf sem flugþjónn hjá Icelandair. 

„Ég er í mannauðsstjórnun og er að bæta því ofan á sálfræðinám úr HR. Grófa ástæðan fyrir því af hverju ég er í námi er einfaldlega sú að atvinnumarkaðurinn biður alltaf um það að við séum með meistaragráðu í dag. Eftir þetta margumrædda hrun, sem ég nenni nú ekki að ræða mikið lengur, þá jókst menntunarkrafan fyrir mörg þeirra starfa sem mig langar til að vinna. Og þar af leiðandi endaði ég á að fara í meistaranám þegar ég var búinn með sálfræðina. Mér fannst það bara ágætis hattur ofan á sálfræðina.“

„Hjónabandsráðgjafinn“ Jón Jósep Snæbjörnsson

Jóni Jósep þótti mannauðsstjórnunin vera eðlilegt framhald.„Ég hef unnið með mörgu fólki. Mér finnst ég hafa þá reynslu úr tónlistinni. Plús það að ég held að ég hefði ofboðslega litla tiltrú frá almenningi ef ég færi í það að vera klínískur barnasálfræðingur.“ Hann hlær. „Ég held að það sé ekki góð hugmynd. Ímyndaðu þér bara popparanafn og settu á undan barnasálfræðingur eða hjónabandsráðgjafi. Það finnst mér ekki virka vel.“

Outlook bjargar málunum

Aðspurður hvernig það gangi að samræma tónlistina og námið, stendur ekki á svörum. „Mjög vel með aðstoð Outlook,“ segir Jón Jósep . „En ég er þræll dagbókarinnar – algjörlega. Ég mæti ekki á neinn stað nema fá fundarboð.“Aðspurður hvað sé  í gangi hjá honum í tónlistinni þessa dagana svarar hann: „Ég er ekki að stunda neina sprotastarfssemi í tónlist. Ég sit á þeim góða stað að geta ráðið því hversu mikið ég vinn við tónlist. Ég er líka fastráðin „flugfreyja“ hjá Icelandair og á tvö börn, á unglingsaldri annars vegar og 9 ára hins vegar, þannig að það er í mörg horn að líta hjá mér. Ég er ekki að semja neina tónlist núna, spila frekar á gítar þegar mér dettur í hug, verandi trúbador og hugsanlega skemmtikraftur. Ég er í hljómsveitinni Í svörtum fötum og spila í henni af og til og tek bara að mér hin og þessi verkefni. Ég get núna í dag sagt oftar nei en já, sem er yndislegt, af því ég vann allar helgar frá 1999 til 2006.“ Núna hugsar hann sig aðeins betur um. „Ja, ég fékk kannski fjórar helgar í frí á ári. Og þá er yndislegt að geta líka bara vaknað með fjölskyldunni um helgar. Þannig að ég er svona meira að dekra við mig og mína núna. Annars missi ég bara af fjölskyldunni, af börnunum mínum og konunni minni. Og því miður, þá er fjölskyldan mín mér bara dýrmætari en tónlistin.“

Skráði sig í miðaldafræði

Eva María Jónsdóttir er landsþekkt fyrir margvíslega aðkomu að sjónvarpi og útvarpi sem dagskrárgerðarkona, höfundur, stjórnandi, kynnir og spyrill . Eva María byrjaði tvítug í Háskólanum og kláraði eitt ár í bókmenntafræði áður en hún fór til Parísar sem Erasmus-stúdent og lauk ári í bókmenntafræði þar. Þegar hún kom aftur heim ætlaði hún að ljúka námi en fékk þá vinnu sem skrifta hjá Sjónvarpinu. Eva María var úti á vinnumarkaðnum næstu árin en hún hefur unnið sem dagskrárgerðarkona á RÚV frá árinu 1993. Andlit hennar hefur sést í kvikmyndunum 101 Reykjavík, Dís og XL.Hún var höfundur þáttanna Stutt í spunann, dagskrárgerðarmaður í Kastljósi, Gettu betur og Eurovision, svo eitthvað sé nefnt, og ekki aðeins verið tilnefnd til Edduverðlauna heldur einnig unnið þau. 

Það liðu heil 16 ár frá því Eva María skráði sig fyrst í BA-nám í bókmenntafræði þar til hún útskrifaðist haustið 2007, en námskeiðin sem þurfti til að ljúka náminu vann hún upp meðfram vinnu og barneignum. Eva María á núna fjögur börn, en með hverju barninu sem hún hefur eignast hefur hún skráð sig í námskeið í Háskólanum. Þegar hún skrifaði BA-ritgerðina jókst áhugi hennar á miðaldabókmenntum. Hún sá fram á, þegar barn númer fjögur var komið og 3 stjúpbörn höfðu bæst í hópinn, að það gæti orðið erfitt að fara beint að vinna aftur eins og venjulega eftir fæðingarorlof. Skráði hún sig þá í framhaldsnám í miðaldafræði með áherslu á íslenskar bókmenntir.

Tengingar á milli íslenskra og evrópskra miðaldabókmennta

„Það sem heillaði mig við þetta nám var að geta einbeitt mér alveg að miðaldabókmenntum okkar Íslendinga og tengja það síðan við bókmenntahræringar annars staðar í Evrópu á miðöldum. Ég hef kannski mestan áhuga á bókmenntunum en eftir að ég fór í námið kviknaði líka áhuga á handverkinu sem handritin eru. Föndrið sem þarf að vinna til þess að búa til eitt skinnhandrit er alveg gríðarlegt. Þannig að það voru kannski bókmenntirnar sem drifu mig áfram, en miðaldamenningin almennt og að reyna að setja sig í spor fólks sem var uppi á þessum tíma er mjög gefandi.“ Aðspurð hvort það hafi alltaf staðið til að mennta sig í miðaldafræðum fer Eva María að hlæja. „Nei, ég ætlaði aldrei að gera þetta. Ég ætlaði bara að vinna í tapað-fundið í sundlaugunum. Þetta er mjög langt frá því.“ En hvernig gengur að samræma dagskrárgerðina og námið? „Mér finnst það ekkert sérstakt að vera alltaf að reyna samræma – og það líka á risastóru heimili. En kosturinn er sá að eftir því sem maður hefur fleiri hnöppum að hneppa, því mun betur neyðist maður til að skipuleggja sig.“

„Hvað er að frétta?“

Eva María vinnur að ýmsu samhliða framhaldsnáminu og barnauppeldinu. „Ég er að taka viðtöl fyrir Viðtalið, sem Bogi Ágústsson hefur verið með um árabil og fékk síðan fleiri fréttamenn og dagskrárgerðamenn til liðs við mig. Ég tek bara eitt og eitt viðtal. Það þarf að undirbúa það, taka það, klippa það, lesa það og kynna það. Síðan er ég að ljúka upptökum á stuttri viðtalsþáttaröð fyrir RÚV. Þannig að ég hef greidd störf í lágmarki.“ Aðspurð hvort dagskrárgerðin og námið tvinnist eitthvað saman og hvort reynslan úr atvinnulífinu komi að góðum notum  við námið svarar hún: „Ég myndi segja að hún þvældist svolítið fyrir bara af því það er svo mikill hraði og mikið „hvað er að gerast núna?“ og „hvað er að frétta?“ í dagskrárgerð og  fjölmiðlum. Það er ekkert sérstakt að vera að fara aftur til miðalda; þar er allt við það sama og frá tímanum liggja fyrir ákveðnar heimildir og það er ekkert að breytast hratt. Það eru auðvitað unnar mikilvægar rannsóknir – en framfarir í miðaldafræðum eru kannski ekki hraðar miðað við framvinduna sem ég er vön úr fjölmiðlum,“ segir Eva María. „Þannig að ég myndi frekar segja að námið nýtist manni í vinnunni heldur en vinnan í náminu eða reynslan úr vinnunni. Hins vegar nýtist námið mér mjög vel í uppeldi barna af því þar er svo mikið efni frá þessum tíma sem maður getur deilt með þeim og þau geta haft áhuga á. Margar af þjóðsögunum eiga rætur allt til miðalda. Það er því rosa gaman að lesa fyrir börnin núna.“