Er nám bara fyrir efnafólk á Íslandi?

„Er það stefna ríkisstjórnarinnar að nám verði bara fyrir efnafólk á Íslandi?“ spyr Guðrún Hreinsdóttir, læknir, í ritinu Sögur námsmanna, af fullri alvöru.

Eins og margir stúdentar vita tóku nýjar reglur gildi hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna síðastliðið ár. Nú þarf að ljúka að minnsta kosti 22 einingum á misseri, í stað 18 eininga, til þess að fá námslán. Breytingarnar mættu mikilli andstöðu meðal stúdenta sem margir hverjir hafa í kjölfarið þurft að sætta sig við skertan grundvöll til háskólanáms.

Er krafan um 75% í raun krafa um 100%?

„Almennt tel ég ekki ósanngjarnt að námsmenn skili um 75% lágmarksárangri til að fá lánveitingu á hagstæðum kjörum frá skattborgurum,“ segir Jónas Fr. Jónsson, stjórnarformaður LÍN. Þessum rökum hafna þeir Ísak Rúnarsson, formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands, og Sigurður Helgi Birgisson hagsmunafulltrúi ráðsins, og segja að í mörgum tilfellum sé í raun ekki um að ræða 75% námsframvindukröfu, heldur 100%. Þá er einkum um að ræða þær deildir sem notast mikið við námskeið sem nema meira en 10 ECTS-einingum. Kerfið þvingar þannig nemendur til að annaðhvort taka 30 ECTS-einingar og fá þá námslán frá LÍN ef öllum áföngum er náð, eða þá taka 20 ECTS-einingar og fá ekkert námslán.

Lítil mistök geta verið afdrifarík

Fyrir þá nemendur sem stóla á framfærslu LÍN getur þessi herta framvindukrafa haft mikil sálræn áhrif þegar kemur að lokaprófum enda geta lítil mistök eða veikindi kostað námsmann framfærslu sína. Vissulega eru undanþágur frá þessari reglu sem eiga að milda þessi áhrif, líkt og þær sem felast í grein 2.4.7 í úthlutunarreglum sjóðsins.

Þar er meðal annars greint frá undanþágum vegna aðstæðna þar sem námsmaður stundar nám á námsbraut sem er skipulögð þannig af skóla að námsframvindukrafa um 22 ECTS-einingar sé raunveruleg krafa um námsframvindukröfu upp á 30 ECTS-einingar, getur fengið lán í réttu hlutfalli við þann einingafjölda sem hann lýkur, enda séu einingaskil ekki undir 20 ECTS-einingum.

Einnig var gerð undanþága fyrir þá sem eru að ljúka námi og eiga minna en 22 ECTS-einingar eftir, sem gerir þeim kleift að fá námslán samt sem áður. Sú undanþága kemur þó illa út að mati Ísaks og Sigurðar Helga og til stendur að endurbæta hana. Loks var bætt við undanþágu um uppgjör í lok skólaárs, það er að nái námsmaður ekki framfærslukröfu á haustmisseri eigi hann kost á að taka einingar á vormisseri.

Hvatakerfi frekar en kerfi refsinga

Þeir Ísak og Sigurður Helgi telja að eðlilegra væri að setja upp hvatakerfi svo námsmenn sjái hag sinn í að klára nám á réttum tíma, frekar en að setja námsmönnum afarkosti líkt og menntamálaráðherra kaus að gera. Stúdentaráð hefur jafnframt lengi þrýst á endurskoðun á lánakerfinu í heild sinni og virðist þrýstingurinn ætla að skila árangri því sú vinna er komin í farveg hjá menntamálaráðuneytinu. Stúdentaráð hefur þannig lagt áherslu á að breyta þeim ósýnilegu og ófyrirsjáanlegu styrkjum, sem ríkissjóður veitir nú í dulbúningi námslána, með hagstæðum vaxtakjörum og niðurfellingu láns við andlát, yfir í gagnsæja og hvetjandi styrki.

Einstaklingar hraktir af menntaveginum

Óvissa ríkir í dag um hvort stjórnvöld ætli að færa aðstöðu námsmanna til betri vegar eða halda áfram að útiloka háskóla fyrir einstaklinga sem ekki hafa efni á að stunda nám og þar með takmarka háskólanám á Íslandi við efnafólk. Líkja mætti núverandi ástandi við Hungurleikana þegar litið er til þess að nýja reglan hamlar einstaklingum, sem til dæmis eru með börn á framfæri eða eiga við námsörðugleika að stríða, að stunda nám í háskóla.

Þá skerðir þetta einnig talsvert svigrúm námsmanna og frelsi þeirra til þess að skipuleggja námsferil sinn eftir eigin þörfum og girðir jafnvel fyrir möguleika margra á að sækja sér menntun. Þannig eru dæmi um að nemendur veigri sér við háskólanám sökum þess að þeir þora ekki að hætta á mögulegt fall og sitja þá uppi með mjög háa yfirdráttarskuld, eða þá að aðstæður þeirra geri þeim hreinlega ekki kleift að stunda 75-100% nám vegna tekjumissis. Í báðum dæmunum er um að ræða lítt efnaða einstaklinga sem hraktir eru af menntaveginum og eiga að mínu mati fullan rétt á skýrum svörum ríkisstjórnarinnar við þeirri spurningu Guðrúnar sem sett var fram hér að ofan.