Rektorsslagurinn 2015: Kynning á frambjóðendum

Þann 1. júlí næstkomandi mun Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, láta af störfum og nýr rektor verður skipaður. Frambjóðendur til rektors eru þrír; þau Einar Steingrímsson, Guðrún Nordal og Jón Atli Benediktsson. 

Kosningar til rektors verða 13. apríl en þær munu fara fram á Uglunni. Atkvæðisrétt til kjörsins hafa starfsmenn Háskólans (1.485 talsins) sem og nemendur hans (12.625 talsins). 

Atkvæðin hafa þó ekki öll sama vægi. Samkvæmt skólareglum gilda atkvæði háskólakennara, sérfræðinga og annarra starfsmanna sem hafa háskólapróf sem 60% greiddra atkvæða á meðan atkvæði nemenda gilda 30%. Atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila gilda sem 10% greiddra atkvæða. 

Frambjóðendurnir þrír eru allir hoknir af reynslu hvað fræðimennsku og kennslu varðar. Það er þó mikilvægt fyrir starfsmenn og nemendur HÍ að kynna sér nánar stefnumál þeirra og framtíðarsýn varðandi skólann. 

Jón Atli Benediktsson með gítar, Guðrún Nordal í útlöndum og Einar Steingrímsson á báti

Jón Atli Benediktsson með gítar, Guðrún Nordal í útlöndum og Einar Steingrímsson á báti

Frambjóðandi #1: Einar Steingrímsson

Aldur og fyrri störf:

Einar Steingrímsson er fæddur þann 20. júlí árið 1955. Hann lauk bakkalársgráðu í stærðfræði með heimsspeki sem aukagrein frá Háskólanum í Pennsylvaníu árið 1987. Hann lauk svo meistaragráðu frá sama skóla. Einar lauk doktorsprófi í stærðfræði frá MIT, Massachusetts Institute of Technology, árið 1992.

Einar hefur verið prófessor við Strathclyde-háskóla í Glasgow frá árinu 2010. Áður kenndi hann við Chalmers-tækniháskólann í Gautaborg og Háskólann í Reykjavík. Hann var jafnframt forseti Vísindaráðs og í framkvæmdastjórn HR frá árunum 2007–2008.

Stefnumál í grófum dráttum:

 • Að bæta rannsóknastarf til muna. Einar telur að ekki eigi að dæla fjármagni í rannsóknastarf innan skólans sem ekki stenst alþjóðlegar gæðakröfur. Heldur eigi að veita meira fé þeim sem stunda góða fræðimennsku í alþjóðlegum samanburði. Þeir vísindamenn sem stunda fræðimennsku sem ekki stenst samanburð í alþjóðasamhengi ættu að fá aukið svigrúm til kennslu í stað þess að vinna að rannsóknum og því þyrfti að afnema rannsóknaskyldu sem akademískir starfsmenn HÍ gegna.
   
 • Að gera ítarlega og óháða úttekt á rannsóknastarfi deilda skólans á fimm ára fresti.
   
 • Efla kennslu með því að styðja þá kennara sem vilja prófa nýjungar í kennsluháttum og taka í auknum mæli tillit til athugasemda að hálfu nemenda.
   
 • Skipa sérstakan aðstoðarrektor yfir kennslumálin.
   
 • Endurskipuleggja vinnumatskerfi sem nú er ríkjandi. Einar telur að vinnumatskerfið umbuni þeim fræðimönnum sem birta margar greinar í stað þess að umbuna þeim fyrir gæði greinanna.
   
 • Laun akademískra starfsmanna ættu að grundvallast á gæðum starfs þeirra, ekki magni framlags.  
   
 • Að ráða öflugt (eða ungt og efnilegt) rannsóknafólk til starfa og auglýsa nánast allar stöður á alþjóðlegum vettvangi.
   
 • Að reyna að bæta skólastarfið í reynd í stað þess að einblína á það markmið að komast hærra á alþjóðlegum listum.

Stefnuskrá Einars Steingrímssonar má lesa í heild sinni HÉR.

Ýmsar staðreyndir um Einar:

 • Einar er virkur í athugasemdum og margir kannast við nafn hans vegna tíðrar viðkomu á kommentakerfum landsins.
   
 • Einar er sérlega ötull bloggari á Eyjunni. Hann er þekktur fyrir að vera hárbeittur og gagnrýninn, ekki síst í umfjöllun sinni um háskólamál. Áhugasamir geta fundið fjöldan allan af bloggfærslum þar sem Einar er sérlega óvægin í gagnrýni sinni  en þessi bloggfærsla er ágætt dæmi um slíkt. Þess má geta að Gauti Kristmannsson, prófessor við HÍ, skrifaði langan pistil á Hugrás þar sem hann gagnrýnir umrædda bloggfærslu Einars. 
   
 • Einar er ekki vinsæll hjá femínistum. Hann skrifaði meðal annars greinina „Hvenær fengu karlar kosningarétt“ sem birtist í Kvennablaðinu fyrr á þessu ári og vakti mikið umtal. 
   
 • Einar er á föstu með norninni og aðgerðasinnanum Evu Hauksdóttur. Hún er einnig andstæðingur femínisma. 
   
 • Einar er óvæginn í gagnrýni sinni um íslenskt samfélag og smíðaði meðal annars nýyrðið andverðleikasamfélag til þess að lýsa ákveðinni lensku sem hann hefur orðið vitni af hér á landi. 
   
 • Háskólinn í Reykjavík sagði Einari upp störfum árið 2010. Einar telur að hann hafi verið rekinn fyrir að rífa kjaft.
   
 • Einar á 1.911 vini á Facebook
   
 • „Persónulegur“ vefur Einars er óhefðbundin. Þar má meðal annars finna þessa mynd af Einari:
Mynd af Einari Steingrímssyni

Mynd af Einari Steingrímssyni

 

Frambjóðandi #2: Guðrún Nordal

Aldur og fyrri störf: 

Guðrún Nordal fæddist þann 27. september árið 1960. Eiginmaður hennar er Ögmundur Skarphéðinsson, arkitekt, en þau eiga saman eina dóttur.

Guðrún er Forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Guðrún lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1982, hélt síðan til München í framhaldsnám og lauk meistaraprófi þaðan 1983. Guðrún lauk síðan doktorsgráðu frá Oxford-háskóla árið 1988.

Árið 1990 fékk Guðrún lektorsstöðu hjá University College London. Frá árunum 1993–1997 hafði hún rannnsóknarstöðu hjá Vísindaráði og var svo ráðin sem fræðimaður hjá Árnastofnun árið 1997. Hún gegndi þeirri stöðu til ársins 2000 og var ráðin sem dósent hjá Háskóla Íslands 2001. Hún var gerð að prófessor árið 2005 og ráðin sem forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2009. 

Stefnumál í grófum dráttum:

 • Að efla Háskóla Íslands sem rannsóknaháskóla með því að stuðla að auknum fjárveitingum til skólans. 
   
 • Að meta árangur og ávinning í kjölfar umfangsmikilla skipulagsbreytinga sem gerðar voru í Háskóla Íslands fyrir sjö árum og áætla hvert skuli stefna í framtíðinni.
   
 • Að gera úttekt á reiknilíkani kennslu sem Guðrún telur að grundvallist fremur á magni en gæðum. 
   
 • Guðrún telur að nýliðun í akademískar stöður Háskólans sé ekki fullnægjandi og að ráða þurfi bót á því. 
   
 • Að efla rannsóknartengda nýsköpun.

Stefnuskrá Guðrúnar Nordal má lesa í heild sinni HÉR

Ýmsar staðreyndir um Guðrúnu:

 • Guðrún er systir Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, en þær þykja sláandi líkar í útliti.
   
 • Guðrún á sama afmælisdag og Meat Loaf.
   
 • Guðrún er virk á Twitter.
   
 • Guðrún hlaut fálkaorðuna 2010.
   
 • Guðrún er afkomandi Jens Sigurðssonar, bróður Jóns Sigurðssonar. Hún er einnig bróðurdóttir Jóns Nordal, tónskálds.
   
 • Guðrún á 1.137 vini á Facebook.
   
 • Guðrún vann til Íslensku Bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og bóka almenns efnis fyrir bókina Bókmenntasaga I ásamt þeim Sverri Tómassyni og Vésteini Ólasyni. 

 

Frambjóðandi #3: Jón Atli Benediktsson


Aldur og fyrri störf:

 Jón Atli Benediktsson fæddist þann 19. maí árið 1960. Hann er kvæntur Stefaníu Óskarsdóttur og eiga þau tvo syni. Hann er aðstoðarrektor vísinda og kennslu og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands. 

Jón Atli lauk doktorsgráðu í rafmagnsverkfræði árið 1990 frá Purdue University í Indíana, Bandaríkjunum. Hann hafði áður lokið meistaragráðu frá sama skóla og bakkalársgráðu frá Háskóla Íslands.

Jón Atli hóf störf sem lektor í rafmagns- og tölvuverkfræði í Háskóla Íslands árið 1991 en fékk prófessorsstöðu 1996. Hann hefur verið gistiprófessor við Háskólann í Trento á Ítalíu frá árinu 2002 og við Kingston University, Bretlandi frá 1999-2004. Hann ritstýrði tímaritinu IEEE Transactions on Geoscience and Remote Sensing frá árunum 2003–2008.

Frá 2006–2009 gegndi Jón Atli stöðu þróunarstjóra og aðstoðarmanns rektors en hefur verið aðstoðarrektor vísinda og kennslu frá því 2009.

Stefnumál í grófum dráttum:

 • Að stuðla að auknum fjárframlögum til Háskóla Íslands.
   
 • Að bæta kjör og aðbúnað starfsfólks og auka starfsánægju.
   
 • Að efla nýliðun í rannsóknastarfi og virða sérstöðu fræðigreina.
   
 • Að tryggja það að nám í Háskóla Íslands standist samanburð á alþjóðavettvangi.
   
 • Að tryggja góða kennsluhætti og námsaðstöðu fyrir nemendur.

Stefnuskrá Jóns Atla má lesa í heild sinni HÉR

Ýmsar staðreyndir um Jón Atla:

 • Jón Atli er mikill áhugamaður um rokk- og pönktónlist.
   
 • Jón Atli er virkur á Instagram og Twitter.
   
 • Jón Atli var valinn rafmagnsverkfræðingur ársins 2013.
   
 • Í blaðaviðtali frá árinu 2012 sagði Jón Atli að honum þætti koma til greina að allir umsækjendur  HÍ myndu þreyta inntökupróf.
   
 • Jón Atli tók útvarpsviðtal við Frank Zappa árið 1992. Viðtalið var hluti af sex klukkutíma útvarpsþætti tileinkað tónlist Zappa sem Jón vann með Kolbeini Árnasyni.