Ég elska mig...

...og þá á ég ekki einungis við sjálfa mig heldur einnig við sýninguna MIG sem Stúdentaleikhúsið frumsýndi nú á dögum. MIG er í leikstjórn Öddu Rutar Jónsdóttur og er sýnd á Strandgötu 75 i Hafnarfirðinum.

Það er margt sem gerir MIG sérstaka. Sýningin fer ekki fram á sviði. Hún er eins og lítið, skrýtið ferðalag á hreyfingu milli herbergja og dregur áhorfendurna með sér í gegnum ólíkar atburðarásir. Bilið á milli leikara og áhorfenda, veruleika og skáldskapar, er oft á tíðum óskýrt og er áhorfandinn umkringdur leikritinu öllum stundum. Hjá mér stendur upp úr atriði þegar   leikhópurinn fyllir rýmið og rappar hárbeitta og bráðfyndna samfélagsádeilu á meðan áhorfendur sitja spakir og hafa aldrei áður séð neitt jafn kúl. Leikritið er í skeddsa formi og stoppa því flestir karakterarnir ekki lengi við í senn en þó eru margir eftirminnilegir og má þar til dæmis nefna steratröllið Thor og reiða barnaskólakennarann. Þá er sviðsmyndin sjálf mjög eftirminnileg og þá sérstaklega huggulega kaffihúsið í upphafi leikritsins.

MIG er í senn mannleg, klikkuð, heimspekileg og mjög fyndin - í einu orði TÖFF. Það væri hverjum manni bagalegt að missa af þessari sýningu og mæli ég eindregið með henni.