Hvað er svona merkilegt við það, að vera skeggjaður?

Hvert sem maður fer nú á dögum er varla þverfótað fyrir skeggjuðum karlmönnum. Það mætti halda að skipið með Gillette Sport 3 rakvélunum hefði strandað. Mig langar að fjalla aðeins um hvernig stendur á þessu og hvað er á bakvið þessa, ef hægt er að kalla, tískubylgju.


Illa uppraðaðar keilur

Sjálfur skarta ég alskeggi og hef gert núna í að verða þrjú ár. Ekki datt mér í hug fyrir nokkrum árum að það yrði raunin, einfaldlega af því ég hélt ég hefði ekki nógu góða skeggrót. Skeggvöxturinn var meira eins og hjá táningi og hárin sem spruttu litu út eins og illa uppraðaðar keilur á knattspyrnuæfingu hjá KR. En góðir hlutir gerast hægt og undir lok Erasmus dvalar minnar í Montpellier voru keilurnar farnar að minna á vel skipulagðan varnarvegg eingöngu skipuðum mönnum á borð við Jaap Stam. Sem sagt þéttara og karlmannslegra heldur en verið hafði. Ég var alveg sáttur, en hafði í hyggju að raka það eftir nokkrar vikur. Einfaldlega af því að ég var ekki vanur að hafa skegg og var hreinlega ekki viss um að það væri málið. Allt þar til ég kynntist franskri snót. Með okkur tókst góður vinskapur og meira til og eftir að hafa þekkt hana í nokkra daga og viðrað hugmyndina um rakstur við hana fékk ég svarið: Never, ever shave! Ári seinna vorum við gift.


Mosinn á Möðrudalsöræfum

Það er nefnilega það! Never ever shave. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að kvenkyns meðlimir þessarar plánetu kunna vel við skeggvöxt karlmanna. Þetta er jú karlmennskumerki. Þetta er eitthvað sem aðgreinir okkur frá kvenkyninu. En af hverju raka karlmenn sig þá? Er ekki eðlilegt að láta þetta vaxa? Nú er ég ekki að tala um að láta þetta vaxa eins og mosann á Möðrudalsöræfum, út og suður og án nokkurrar yfirsjónar. Auðvitað skal skegg vera vel snyrt, þótt það geti verið sítt og mikið. Ef þú ert með skegg er um að setjast í stólinn hjá Stjúra í Kormáki og Skildi mánaðarlega og láta snyrta skeggið, nú eða láta konuna um það. Illa snyrt skegg, er illa séð.


Auðveldara að afhöfða

Það eru tískubylgjur í skeggvexti sem og öðru í þessum heimi. Heimspekingar til forna voru vel skeggjaðir. Aristóteles tók reyndar upp á því að raka skegg sitt þvert á alla tískustrauma og var litinn hornauga fyrir vikið. Sennilega eitthvað flipp hjá honum til að reyna að vera öðruvísi. Nema hann hafi tekið upp stefnu Alexanders Mikla sem bannaði skegg sinna manna í hernaði sínum, þar sem ókostur þótti að vera skeggjaður í bardaga sökum þess að menn gátu náð góðu taki á skegginu og auðveldara var þá að afhöfða menn með góðri sveiflu sverðs. Nú, Rómverjar til forna tóku allt í einu upp á því að vera vel rakaðir líkt og femingardrengir og töldu menn að með því væru þeir að alskilja sig frá Grikkjum sem voru vel skeggjaðir á þessum tímum. Og svona mætti lengi telja.


Rakstursbann á Biblíutímum

Staðreyndin er að í dag er þetta í tísku. Svo mikið í raun að sumir taka upp á því að raka sig einfaldlega til að synda gegn straumnum. Líkt og Aristóteles á sínum tíma. Auðvitað geta ekki allir safnað skeggi. Og það er gott og blessað. En sumir spyrja sig, er eðlilegt að skafa húðina og vera skegglaus? Af hverju ekki að láta þetta vaxa? Þetta hlýjar manni á köldum vetrardögum og nóg er búið að vera af þeim í ár hér á Frónni. Það er vísindalega sannað að skeggjaðir karlmenn veikjast síður og eru fljótari að jafna sig af flensum en skegglausir menn. Skeggið safnar jú í sig ýmsum bakteríum sem færu annars í vit manna. Svo er því einnig haldið uppi að skegg geri menn einfaldlega sterkari. Í hári okkar og skeggi er efni sem kallast Biotin og eykur það þol. Þannig að ef menn skerða hár og skegg þá missa þeir þol. Þetta er talin ein af ástæðum að mönnum hefur verið bannað að fara til rakarans á hinum ýmsu tímaskeiðum mannskynssögunnar.


Ráð frönsku snótarinnar.

Hvað sem því líður, skegg eða skeggleysi og skoðanir manna og kvenna á því, þá er eitthvað við það að vera skeggjaður. Eitthvað sem er erfitt að koma í orð. En þessi pæling er kannski bara aukaatriði. Það sem skiptir málið er að vera maður sjálfur í eigin skinni og eins og manni líður best. Ekki fylgja einhverjum tískustraumum eða stefnum. Mér líður vel með skegg og er ekkert á leiðinni útí Hagkaup að kaupa Gillette Sport 3 sköfu. Það er líka gaman að vera í skeggklúbbnum. Þetta er einskonar bræðralag. Skeggjaðir bræður hrósa hvor öðrum, nikka til hvors annars á förnum vegi og gefa góð ráð. Þetta tengir menn og er tilefni í small-talk í partýjum. Bara hið besta mál. Ég fór að ráðum frönsku snótarinnar. Og sé ekki eftir því. Þannig að mig langar að dreifa boðskapnum til skeggbræðranna. Never ever shave! Hver veit, kannski er gifting á næsta leyti, svona ef þið eruð fyrir það á annað borð.