Coursera: Ókeypis fjarnám í bestu háskólum heims

Árið 2012 stofnuðu tveir tölvunarfræðiprófessorar við Stanford háskóla vefsíðuna Coursera.org og hefur hún fagnað góðu gengi síðan. Coursera gengur út á að gera fólki um allan heim kleift að stunda fjarnám á háskólastigi við ýmsa háskóla, frá 24 löndum. Að staðaldri þarf ekki að borga fyrir þátttöku í námskeiðunum og því getur hver sem er tekið þátt, svo lengi sem hann hefur nettengingu, áhuga og tíma. 

Nafntogaðir háskólar

Samstarfsháskólar Coursera eru 117 talsins og á þeim lista má finna nokkra af bestu háskólum í heimi, þar á meðal Princeton, Yale, Brown og Caltech. Í augnablikinu eru rúmlega 1500 kúrsar í boði á Coursera á sviði hugvísinda, lista, raunvísinda, menntavísinda, heilbrigðisvísinda og félagsvísinda og ættu því flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Flestir kúrsar sem í boði eru á Coursera eru kenndir á ensku. Fyrirkomulagið er oftast með þeim hætti að nemandinn horfir á fyrirlestra í gegnum netið, les námsefnið og leysir verkefni. Stundum þarf nemandinn að taka próf og sumum kúrsunum lýkur með lokaprófi. Sérstök spjallsvæði eru svo fyrir nemendur til þess að hafa samskipti og spjalla saman um námsefnið. Námskeiðin eru misjafnlega löng en yfirleitt spanna þau fjórar til tíu vikur. 

Heimsbylting í menntamálum

Ókeypis er að taka þátt í öllum þeim námskeiðum sem í boði eru á Coursera en þeir nemendur sem vilja staðfestingu á því að hafa setið kúrsinn og staðist hann geta skráð sig á svokallað Signature Track. Þeir sem eru skráðir á þá braut eru undir eftirliti, þ.e. gengið er úr skugga um að þeir séu ekki að svindla, og við lok námskeiðisins fær nemandinn skírteini sem hann getur framvísað t.d. við atvinnuleit. Aðrir þurfa ekki að borga og geta því menntað sig að vild án endurgjalds. Þetta fyrirkomulag er því stórkostleg bylting fyrir þá sem hafa ekki aðgang að hefðbundnu háskólanámi, t.d. vegna búsetu eða fjárskorts. 

Coursera felur einnig í sér dýrmæt tækifæri fyrir nemendur á Íslandi. Þar sem margir af samstarfsháskólum Coursera eru á heimsmælikvarða gæti verið snjallræði að taka þátt í einum kúrsi sem ítarefni meðfram náminu. Auk þess gætu nemendur sem hafa víðtækt áhugasvið skráð sig í kúrsa á Coursera sem eru alls ótengdir námi þeirra, sér til ánægju og yndisauka. 

Dæmi um spennandi kúrsa sem eru í boði á Coursera í augnablikinu: