5 jákvæðir hlutir við janúar

1. Hækkandi sól

Þótt skammdegið ráði enn ríkjum á Íslandi er von á betri og bjartari tíð. Daginn hóf að lengja þann 22. desember og í Reykjavík lengist hann um 5,6 mínútur á dag að meðaltali. Ekki líður á löngu þar til Íslendingar geta fagnað björtum morgnum en þann 5. febrúar næstkomandi mun sólin koma upp klukkan 10:02 eða heilum klukktíma fyrr en hún gerði í dag. 

2. Þorrinn

Þorrinn hefst á föstudegi milli 19. og 25. janúar og stendur yfir í mánuð. Oft er talað um að þreyja Þorrann en samkvæmt Vísindavefnum er sú sögn skyld sögninni að þrá – sbr. að vera óþreyjufullur. Heimildir eru til frá miðöldum um Þorrablót á Íslandi en siðurinn lagðist síðan af og var ekki endurvakinn fyrr en undir lok 19. aldar af íslenskum stúdentum í Kaupmannahöfn og um miðja 20. öldinna kveiktu reykvískir veitingamenn á perunni og „markaðssettu“ Þorrablót. 

Í dag eru Þorrablót haldin víðs vegar og eru tilhlökkunarefni margra. Þorrinn er sannarlega einn af ljósu punktunum í janúarmánuði. 

3. Útsölur

Vetrarútsölur flestra verslana eru haldnar í janúar og teygja sig jafnvel fram í febrúar. Í fatabúðum er vetrarfatnaður seldur á niðursettu verði til þess að rýma fyrir sumarvörum. Þetta kemur sér einstaklega vel fyrir Íslendinga því við höfum not fyrir hlýjar peysur, trefla og kuldaskó fram í maí.

4. Nýtt upphaf

Margir líta á áramót sem ákveðin kaflaskil og hefja árið gjarnan á því að breyta einhverju varðandi lífshætti sína. Mjög algengt er að fólk setji sér markmið varðandi heilsu og mataræði, hætti að reykja eða skrái sig á námskeið. Janúar er góður mánuður til þess að líta yfir farinn veg og taka ákvarðanir um framtíðina. 

5. Dagur „einskis“ er haldinn hátíðlegur

Þættirnir um Seinfeld fjalla um „ekkert“. Aldrei hefur verið betra tilefni til þess að horfa á Seinfeld en einmitt í dag, 16. janúar. 

Þættirnir um Seinfeld fjalla um „ekkert“. Aldrei hefur verið betra tilefni til þess að horfa á Seinfeld en einmitt í dag, 16. janúar. 

Bandaríkjamenn eru duglegir að búa sér til ýmiss konar hátíðisdaga og er dagur „einskis“ haldinn hátíðlegur þar í landi í dag, 16. janúar. Tilgangur hátíðarinnar er að fagna engu og gera ekkert. Í ár er dagur „einskis“ á laugardegi og því ætti að vera nokkuð auðvelt að fagna honum. Gleðilega hátíð!LífstíllStúdentablaðið