Fimm fatamarkaðir

Með hækkandi sól og nýrri önn læðist oft að manni sú löngun að kaupa sér ný föt fyrir skólann eða skrallið en buddan er oft ansi létt eftir allt kaupæðið um jólin. Þá er upplagt fyrir hagsýna námsmenn að gera sér ferð í einhverja af þeim fjölmörgu fatamörkuðum sem eru á höfðuborgarsvæðinu. Það gerist varla betra en að geta keypt ódýr föt sem eru bæði umhverfisvæn og einstök. Ekki væri það heldur verra ef ágóðinn rynni í hjálparstarf. Augnablikið þegar þú finnur loksins hinn fullkomna pallíettukjól, truflaða strigaskó eða draumajakkann sem að svo margir leita að gerir allt róteríið þess virði . Við þekkjum flest hinar margrómuðu verslanir Spúútnik og Nostalgíu en það eru til mun fleiri fatamarkaðir, dreifðir um höfuðborgarsvæðið og oftast mun ódýrari. Því ákvað Stúdentablaðið mæla með fimm flottum fatamörkuðum og bjóða þér í fjársjóðsleit í nyrstu höfuðborg heimsins.

 

Rauði krossinn á Laugavegi

Laugavegur 12

Þetta er örugglega vinsælasta búðin þar sem hún er á þessum prýðisstað og því einnig vinsæl meðal erlendra ferðamanna. Hingað koma bestu Rauða kross-flíkurnar eða allavega þær sem taldar eru í tísku. Því fylgir að verðið er aðeins hærra. Þar er hægt að finna lopapeysur á góðu verði, oft fínar kápur og einstaka leðurbuxur. Á góðum degi getur maður dottið í lukkupottinn og fundið fallegar flíkur en oft er mikið búið og margt jafnvel á uppsprengdu verði. Verslunin mun hinsvegar flytja á Skólavörðustíginn í næsta mánuði og verður spennandi að sjá hvernig nýja búðin verður.

Kostir: Mikil velta á fötum – miklar líkur á að finna eitthvað fallegt –staðsetningin.

Ókostir: Hærra verðlag en í öðrum svipuðum búðum – lítil strákadeild – vinsæl.

Fatamarkaðurinn við Hlemm

Laugavegur 118, 105 Reykjavík

Þessi verslun er himnaríki fyrir glysgjarna og rótara – algjör fjársjóðskista. Þetta er útsölumarkaður fyrir Spúútnik og Nostalgíu, hingað koma fötin sem seldust ekki eða komust ekki fyrir. Því er verðið mun lægra en í fyrrnefndum búðum en samt má finna þarna nóg af gullmolum. Í Fatamarkaðnum er mikið til af bæði alvöru- og gervipelsum, litríkum úlpum, palíettukjólum og peysum.  Strákadeildin er líka afbragðsgóð með mikið úrval af gallabuxum og fallegum jökkum. 

Kostir: Miðsvæðis – flott strákadeild – mikið úrval og margt fallegt.

Ókostir: Ágóðinn rennur ekki til hjálparstarfa – aðeins dýrari en hinar búðirnar.

Hertex í Grafarvogi

Vínlandsleið 6–8, 113 Reykjavík

Glæný búð í Grafarvogi fyrir þá sem finnst gaman að heimsækja úthverfin eða þá sem fæddust handan Ártúnsbrekkunnar. Búðin er mjög stór og minnir eilítið á svipaðar erlendar búðir. Þarna er ekki bara fatnaður heldur líka húsgögn og alls kyns húsbúnaður. Því er einkar þægilegt fyrir hagsýna námsmenn að gera sér ferð í Hertex Grafarvogi og slá tvær flugur í einu höggi. Þarna er mikið úrval af allskyns fötum það á mjög fínu verði. 

Kostir: Ódýr og mikið úrval – ágæt karladeild

Ókostir: Langt í burtu fyrir þá sem búa miðsvæðis í Reykjavík. 

Kolaportið

Hið margrómaða Kolaport er klassíkt og klikkar seint. Fyrstu hughrif minna kannski smá á Sorpu en svo áttar maður sig á því að maður er komin í vintage- himnaríki! Það er best að mæta annaðhvort um leið og það opnar, því þá er auðvitað mesta úrvalið, eða í lok dags því þá vill fólk ekki taka með sér rest heim og selur varninginn á slikk. Magga úr horninu [hún er þekktur sölumaður í Kolaportinu og var með stærsta bás Portsins um árabil] er búin að færa sig fram í anddyri og þar er alltaf hægt að finna einhverja fjarsjóði. Raðir af illa samsettum fötum, fimmtíu skópör en aðeins tvö sem eru flott. Þónokkrar kápur...en þó bara ein af þeim sú sem þú ert akkúrat að leita að. Kolaportið er þannig að þú getur komið þangað viku eftir viku, gramsað í haugum en komið tómhentur heim – en stundum er eins og gersemarnar leynast alls staðar!

Kostir: Stemningin – oftast ódýrt – fjölbreytt úrval af öllu heimsins dóti.

Gallar: Aðeins opið um helgar – erfitt fyrir óþolinmóða.

Rauði krossinn efst á Laugaveginum

Laugavegur 116

Þessi skemmtilega verslun er nýkomin úr allsherjar yfirhalningu og er orðin stórglæsileg. Í dag gefur hún öðrum tískubúðum ekkert eftir í útliti. Í þessari Rauða kross-búð er ekki jafn mikið um tískuvörur eins og í systurbúð hennar neðar á Laugaveginum en hún er mun ódýrari. Hún er líka nánast við hliðina á fyrrnefndum Fatamarkaði við Hlemm og því þægilegt að heimsækja tvo góða fatamarkaði í einni ferð. 

Kostir: Í miðbænum – ódýr

Gallar: Svolítið mikið af barnafötum, bókum og illa förnu dóti til sölu. 

 

Aðrir fatamarkaðir sem vert er að nefna:

  • Samhjálp, Ármúla 11
  • ABC-markaðurinn, Háaleitsbraut 68 Austurveri
  • Rauði Krossinn í Hafnarfirði, Strandgata 24 220 Hfj
  • Hertex í Garðastræti 6
  • Flóamarkaður til styrktar Konukoti á Laugardögum, Eskihlíð 4
LífstíllStúdentablaðið