Listin að breyta venjum

Hreyfing og mataræði hefur mikil áhrif á heilsu okkar og líðan. Þá hafa daglegar venjur mótandi áhrif á hvernig við lifum lífinu. Þegar við viljum bæta mataræðið eða koma hreyfingu inn í daglega rútínu þurfum við yfirleitt að breyta einhverjum venjum. Hver breyting þarf ekki að vera ýkja stór. Best er að setja sér nokkur lítil markmið og breyta venjum sínum smátt og smátt. Með tímanum geta þessar litlu breytingar svo gert gæfumuninn.

Vissulega getur þú byrjað í tímabundnu átaki eða á vinsælum kúr. Jafnvel fjárfest í dýrum fæðubótarefnum og þar fram eftir götum. Þá ertu þátttakandi í viðburði sem hefur upphaf og endi. Á endanum lýkur átakinu eða fæðubótarefnið klárast.

Það sem einkennir yfirleitt meintar töfralausnir er að þær krefjast þess ekki að við gerum varanlegar breytingar á daglegum venjum. Þú telur jafnvel niður dagana sem eru eftir af átakinu og sérð þína fyrri rútínu í hyllingum.

Það að breyta venjum er ákveðið ferli. Ferlið byrjar á því að þig langar breyta einhverju í þínum lífsstíl. Næstu skref felast svo í því að setja sér skýr markmið, ákveða hvernig þú ætlar að fara að og að lokum hefjast handa. Segjum sem svo að þú ætlir að stunda líkamsrækt þrjá daga vikunnar. Þá skiptir miklu máli að finna hreyfingu sem þér þykir skemmtileg. Fjölbreytni í æfingavali sem og góður æfingafélagi getur svo haft hvetjandi áhrif og tryggt að áhugi viðhaldist. Loks skaltu finna tíma sem hentar vel og njóta þess að gera reglubundna hreyfingu að venju.

Ef við spáum aðeins í mataræðið þá sjáum við fljótt hve mjög það mótast að stórum hluta af venjum. Hjá flestum myndast mynstur í neyslu milli daga. Morgunmaturinn er til dæmis yfirleitt hinn sami, þú tekur með þér nesti eða borðar í mötuneyti í hádeginu. Þú smyrð með sama álegginu, kaupir sömu tegundir og þú ert vanur/vön þegar þú kaupir í matinn og svo framvegis. Sama má segja um það umhverfi sem við borðum í. Fjölskyldur sameinast gjarnan við eldhúsborðið yfir kvöldmatnum á meðan sumir borða á ferðinni og enn aðrir yfir tölvu eða sjónvarpi.

Við pælum ef til vill ekki mikið í þessum venjum enda virðast þær þróast án þess að við verðum þess sérstaklega vör. Aftur á móti getum við leitt hugann að þeim, breytt og bætt ef viljinn er fyrir hendi.

Dæmi um litlar en árangursríkar breytingar í mataræði:

  • Borðaðu ávexti og grænmeti milli mála og með mat.
  • Eldaðu heima á kvöldin og taktu afganga með þér í nesti.
  • Taktu til í eldhússkápunum og hafðu holla millibita innan seilingar.
  • Drekktu 1 – 2 lítra af vatni á dag og takmarkaðu neyslu á súrum og sætum drykkjum.
  • Taktu hlé frá því sem þú ert að gera og borðaðu matinn ,,meðvitað” við matarborðið.
  • Saltaðu minna og dragðu úr neyslu á viðbættum sykri.
  • Mundu að umbun og refsingar eiga ekki heima við matarborðið. Ekki verðlauna þig með mat og ekki refsa þér fyrir eigin matarhegðun.

Að lokum er mikilvægt að nálgast þær breytingar sem þú ætlar að gera með réttu hugarfari. Það er skemmtilegt verkefni að taka til hjá sér og enginn ætti að þurfa að upplifa það sem kvöð. Stundum þarf bara að stilla fókusinn.

Gangi þér vel og mundu að góðir hlutir gerast hægt!