Samtímatónlist fyrir byrjendur

Tónskáldið Þráinn Hjálmarsson tók saman lagalista fyrir lesendur sem eru forvitnir um samtímatónlist en vita ekki hvar þeir eiga að byrja...

Þráinn Hjálmarsson

Þráinn Hjálmarsson

„Samtímatónlist“ er regnhlífarhugtak sem notað er yfir tónlist allt frá byrjun/miðbiks tuttugustu aldar og til okkar daga. Innan samtímatónlistar er að finna töluvert ólíka strauma og stefnur en kjarninn er að vissu leyti fólginn í sambandinu á milli flytjenda og tónhöfunda og nýtingu nótna í einhverju formi til miðlunar þar á milli. Það er vert að taka það fram að eftirfarandi listi einblínir þó einkum á einn kima samtímatónlistar, þar sem hljóðið sjálft er í hávegum haft og hlustun áheyrandans sem gerist að vissu leyti þátttakandi í að skapa verkið með sinni eigin hlustun. Þó má nefna að mest áberandi tískustraumurinn í samtímatónlist dagsins í dag er nokkurn veginn á öndverðum meiði við þennan lista þar sem algengt er að höfundar nái að gera sína eigin persónu og frásögn að miðju verkanna.

Verkin eru í tímaröð frá John Cage til ársins í ár, en Cage átti stóran þátt í að opna á nálgun þar sem öll hljóð verða að efnivið tónlistar og upplifun okkar á hljóðinu er miðja tónlistarinnar: nokkurn vegin laus við nærveru höfundarins. 1. John Cage (1912-1992) – 4'33 (1952)
Verk Cage í þremur þáttum, 4'33'', átti sinn þátt í því að auka vægi hlustunar í sköpunarferli tónlistar, verkið og verk hans náðu að opna enn frekar skilgreiningu okkar á því hvað geti verið skilgreint sem tónlist. Í verkinu, 4'33'', kemur flytjandi fram á sviðið og gefur ekki frá sér eitt einasta hljóð í fjórar mínútur og 33 sekúndur. Með því er striga tónlistar veitt athygli, þögnin er alltumlykjandi sem og umhverfið (sem er alls ekkert þögult). Má segja að verkið sé hliðstæða hvítu málverka Robert Rauschenberg sem máluð voru ári áður.
    Finna má ótal upptökur á netinu þar sem ólíkir flytjendur flytja verkið, allt frá sinfóníuhljómsveitum til svartmálmshljómsveita en vinninginn á líklegast leikarinn Nicholas Cage, eins og sjá má á þessu myndbandi. 

2. Giacinto Scelsi (1905-1988) – Quattro Pezzi su una nota sola (for Orchestra) (ísl. Fjögur eintóna verk fyrir hljómsveit)  (1959)
Tónlist ítalska tónskáldsins Giacinto Scelsi er íhugul og í senn þráhyggin. Á tímabili samdi hann mörg heillandi verk sem spinnast út frá blæbrigðum einnar nótu, þar á meðal þetta verk.

3. Pauline Oliveros (1932) – Bye bye butterfly (1967)
Í upphafi ferils bandaríska tónskáldsins Pauline Oliveros vann hún einkum með rafhljóð og var áberandi innan raftónlistarsenunnar á vesturströnd Bandaríkjanna framan af. Allt frá lokum níunda áratugarins hefur hún þróað og unnið með „djúphlustun“ (e. deep listening) sem samþættir kennslu, spuna, rafhljóð og íhugun og vekur þannig athygli á hljóðumhverfinu og þeim ástöndum sem skapast við nánari hlustun.

4. Salvatore Sciarrino (1947) – Sei quartetti brevi (1971)
Eitt af sérkennum tónlistar ítalska tónskáldsins Salvatore Sciarrino er einstök hljóðfæratækni sem fólgin er í verkunum: hljóðfærin öðlast ákveðinn framandleika og fyrir vikið myndast sérstakur hljóðheimur. Að vissu leyti umbreytast hljóðfærin hans í eins konar persónur sem halda í sín sérkenni þó að nýtt verk kalli á annan söguþráð og aðra spennu.

5. Gérard Grisey (1946-1998) – Partiels (1975)
Verk franska tónskáldsins Gérards Grisey, Partiels, er talið eitt af höfuðverkum „spectralisma“ sem er tónlistarstefna sem á upptök sín í París á áttunda áratugnum. Í stuttu máli sagt er helsta einkenni „spectralisma“ hlutlaus nálgun á miðil tónlistarinnar, hljóðið sjálft. Markmiðið er að slíta sig frá sögu og menningu tónlistar og sækjast eftir því að leyfa hljóðinu að verða að eina umfjöllunarefni tónlistarinnar. Hljóðgreiningartækni og boðfræði (e. information theory) sem á þeim tíma voru ný af nálinni settu sitt mark á hugmyndafræði stefnunnar. Nafnið er dregið af hljóðrófi (spectri) og vísar til þess að ólík hljóðfæri sem leika sömu nótuna hafa, sem dæmi, sitt eigið hljóðróf sem gerir okkur kleift að heyra til dæmis mun á milli ólíkra radda og ólíkra hljóðfæra. Allt tónaefni Partiels er unnið upp úr hljóðgreiningu á djúpu ‘E’ leiknu á básúnu sem jafnframt opnar verkið.

6. Morton Feldman (1926-1987) – Why patterns? (1978)
Viðhorf bandaríska tónskáldsins Feldmans til hljóðs og tónlistar snerist um það að leyfa hljóðunum að „vera þau sjálf“ sem var að vissu leyti í andófi við ríkjandi hugmyndafræði samtímatónlistar þess tíma, þar sem nótur og uppröðun þeirra á blaðinu var virt umfram hlustun og upplifun á hljóðum. Hljóðlát og hæg tónlistin skapar visst ástand þar sem óregluleg mynstur koma fyrir aftur og aftur, skapar þar með ákveðið ástand sem er þó nægilega brotið upp til að viðhalda athyglinni til lengri tíma. Sennilega má rekja notkun Feldmans á mynstrum til áhuga hans á vöfðum teppum en um skeið stundaði hann viðskipti með slík teppi sér til viðurværis.

7. Kaija Saariaho (1952) – Sept Papillons (2000)
Hljóðheimur finnska tónskáldsins Kaiju Saariaho er einstaklega nosturlegur og fínlegur en jafnframt einstaklega persónulegur og einkennandi. Verkið Sept Papillons (ísl. Sjö fiðrildi) er verk í sjö þáttum fyrir einleiksselló og dregur fram einstaklega seyðandi, heillandi og nýstárlegan karakter sellósins. Eitt af komandi verkefnum Kaiju er ný ópera sem Royal Opera House í London pantaði af henni en óperan verður frumflutt árið 2020. Samlandi Kaiju, rithöfundurinn Sofi Oksanen mun vinna að texta óperunnar.

8. Marianthi Papalexandri-Alexandri (1974) – Untitled (2009)
Tónlist gríska tónskáldsins Marianthi Papalexandri-Alexandri er staðsett á mörkum innsetningar og tónlistar en oft eru verk hennar umbreytt hljóðfæri/hljóðgjafar sem skapa nokkurs konar aðstæður sem flytjendur vinna innan í flutningi tónverka hennar. Einkennist tónlistin af smágerðum og óreglulegum hljóðum sem skapa flatt yfirborð en iða öll þegar nánar er hlustað. Hlustandanum er gert kleift að að flakka á milli þessara laga og skapa sína eigin upplifun.

9. Anna Þorvaldsdóttir (1977) – Aeriality (2011)
Heillandi stemning og persónulegur hljóðheimur einkennir tónlist Önnu þar sem sterk, þykk og á köflum myrk stemning verkanna togar hlustendur inn í sig. Tónlist hennar hefur lokkað til sín nokkuð víðan hlustendahóp en Anna er eitt þekktasta tónskáld Íslendinga um þessar mundir. Afköst Önnu hafa verið sérlega mikil í ár en tvær plötur komu út á þessu ári með verkum hennar í flutningi þekktra flytjenda auk þess sem ópera hennar, UR, hefur verið sett upp víða um Evrópu.

10. Eva Maria Houben (1955) – Hazy Horizon (2015)
Tónlist Evu Mariu er á köflum afar íhugul og gefur bæði hlustandanum og flytjandanum færi á að stinga sér á kaf inn í óm stakra, langra tóna. Ástandið sem skapast fer fjarri því að mynda hljóma eða laglínur en þess í stað er þungamiðjan á hljóðunum sjálfum og framköllun þeirra í hljóðfærunum. Tónlist Evu hefur viss tengsl við tónlist og nálgun John Cage þar sem eitt af markmiðunum er að opna nánar á öll hljóð í umhverfinu og njóta. Finna má fleiri höfunda sem vinna á svipuðum slóðum og deila álíkri fagurfræði hjá Wandelweiser-útgáfunni sem áður fyrr var tónskáldahópur en er nú útgáfa sem Eva Maria kemur að.

MenningStúdentablaðið