„Háskólar í hættu:" Ætla að safna 20.000 undirskriftum

 

Háskóli Íslands. Mynd/Stúdentablaðið (KÁA)

Háskóli Íslands. Mynd/Stúdentablaðið (KÁA)

„Markmiðið er að ná 20.000 undirskriftum, sem nemur sirka fjölda allra háskólanema í landinu,” segir Kristófer Már Maronsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, í samtali við Stúdentablaðið.

Stúdentahreyfingar allra háskóla landsins hófu í dag rafræna undirskriftasöfnun til að vekja athygli á verulegri undirfjármögnun sem stefni háskólum landsins í hættu. Undirskriftasöfnunin fer undir yfirskriftinni Háskólar í hættu og felur í sér áskorun til stjórnvalda um að forgangsraða í þágu menntamála og að framfylgja markmiðum um fjármögnun háskólakerfisins.

 „Meðalframlag íslenska ríkisins á hvern ársnema í háskóla er tæplega 1,3 milljónir króna. Ísland er þar langt á eftir nágrannaþjóðum sínum því framlagið nemur rúmlega 2,2 milljónum króna að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum,” segir meðal annars í áskoruninni sem hægt er að skrifa undir í gegnum síðuna haskolarnir.is. 

„Við vorum að ákveða að halda þennan fund á mánudaginn, þá ræddum við hvað við getum gert meira,” segir Kristófer, spurður hvernig það kom til að ákveðið var að ráðast í undirskriftasöfnunina. 

Á mánudaginn munu Stúdentaráð Háskóla Íslands, Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík og Félag Stúdenta við Háskólann á Akureyri standa fyrir opnum fundi á Háskólatorgi þar sem fulltrúar þeirra flokka, sem nú mælast með mest fylgi í skoðanakönnunum, munu sitja fyrir svörum um málefni háskólanna og fjármögnun þeirra.

„Þetta skiptir miklu máli upp á framtíð ungs fólks á Íslandi og framtíð landsins almennt,” segir Kristófer, sem kveðst bjartsýnn á gott gengi í undirskriftasöfnuninni.