Samfylkingin: „LÍN á að vera félagslegur jöfnunarsjóður"

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Samfylkingarinnar um stefnu flokksins er varðar háskólana og málefni stúdenta.

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Við erum sammála ákalli rektora háskólanna um aukin framlög til háskólanna og nauðsyn þess að gera betur en ríkisstjórnin lofar í sinni ríkisfjármálaáætlun. Öflugir háskólar eru forsenda þess að við getum byggt upp samfélag sem byggir á hugviti og að hægt verði að skapa fjölbreytt og vellaunuð störf fyrir ungt hæfileikafólk. Okkur er líka umhugað um að efla nám í greinum sem standa undir góðri heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir börnin okkar.

Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Hann á að vera félagslegur jöfnunarsjóður. Við viljum koma á styrkjakerfi þannig að hluti af námi geti breyst í styrk eins og á hinum Norðurlöndunum en við viljum ekki að það sé greitt með peningum þeirra námsmanna sem nauðsynlega þurfa á lánum að halda. Við viljum alls ekki hækka endurgreiðslur upp í 3 prósent af tekjum líkt kveðið var á um í ríkisstjórnarfrumvarpi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Hærri endurgreiðslur bitna harkalega á ungu fólki á sama tíma og það er að koma undir sig fótunum á húsnæðismarkaði.

Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

Já.

Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

10. Það verður að breyta forgangsröðinni frá því að hugsa fyrst um fjármagnseigendur og þá sem best hafa það, yfir í að styðja við réttlátt þjóðfélag sem býður upp á menntun, störf og heilbrigðiskerfi sem jafnast á við það besta í heimi.

 

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez