Sjálfstæðisflokkurinn: „Í fyrsta skipti boðið upp á fulla framfærslu"

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez

Þann 29. október ganga landsmenn til kosninga en að því tilefni lagði Stúdentablaðið nokkrar spurningar fyrir flokkana sem bjóða fram til Alþingis. Hér eru svör Sjálfstæðisflokksins um stefnu flokksins er varðar háskólana og málefni stúdenta.

Hver er stefna flokksins í málefnum háskólanna í stuttu máli?

Tengsl rannsókna, menntunar og vísinda við nýsköpun eru að mati Sjálfstæðisflokksins grundvöllur lífsgæða í nútímahagkerfum. Fátt er jafn mikilvægt fyrir framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að hér á landi starfi öflugir háskólar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á rannsóknir og vísindi á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar og mikilvægt er að áfram verði haldið á þeirri braut. Menntakerfið þarf að bregðast hratt við þeim áskorunum og grípa tækifærin sem felast í tækniframförum næstu ára.

Mannauður skiptir höfuðmáli í þjóðfélagi sem í síauknum mæli byggir á þekkingu. Mikilvægt er að lögfesta frumvarp um nýjan lánasjóð sem byggir á styrkjakerfi og fyrirframgreiddri námsaðstoð. Brýnt er að stuðla að bættri námsframvindu nemenda í háskólum til að hámarka ávinning einstaklinga og samfélags. Þá er nauðsynlegt að horft verði í auknum mæli á hvernig megi auka gæði í háskólastarfi. Sjálfstæðisflokkurinn telur að auka skuli framlög til háskólastigs til meðaltals OECD-landa. 

Hver er afstaða flokksins til Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

Sjálfstæðisflokkurinn telur tímabært að Lánasjóður íslenskra námsmanna verði endurskoðaður frá grunni. Að mati Sjálfstæðisflokksins þjónar núverandi námslánafyrirkomulag ekki nægilega vel þörfum námsmanna, auk þess sem rekstur hans til langs tíma er varla sjálfbær.

Á kjörtímabilinu lagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fram frumvarp um námslán- og námsstyrki sem tekur á öllum helstu ókostum núverandi námslánakerfis og er mikil kjarabót fyrir námsmenn. Með nýju námsstyrkjakerfi er í fyrsta skipti boðið upp á fulla framfærslu á sama tíma og teknir eru upp beinir, fyrirframgreiddir styrkir auk námslána á lægstu fáanlegu vöxtum.  

Er flokkurinn reiðubúinn til að gera allt hvað hann getur til að sjá háskólunum fyrir viðunandi fjármagni?

Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að frumforsendur fyrir ábyrgum og sjálfbærum ríkisrekstri verða að vera fyrir hendi áður en hægt er að hækka fjárframlög til málaflokka, eins og háskólastigsins. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur átt sér stað alger viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs á kjörtímabilinu. Hallarekstri var snúið við og skuldir greiddar niður. Á þessum grunni hefur Sjálfstæðisflokkurinn snúið við miklum niðurskurði seinasta kjörtímabils sem fór samhliða mikilli fjölgun nemenda á háskólastigi, sem var einsdæmi miðað við helstu samanburðarþjóðir á sama tímabili.

Á þessu kjörtímabili var umtalsverðu fé beint úr ríkissjóði til háskólanna, þar með talið yfir milljarði króna árlega í gegnum Rannsóknasjóð. Jafnframt er áformað að fram til ársins 2021 bætist um 2,5 milljarðar króna á háskólastigið í fjárlögum. Það er eins og fyrr segir stefna Sjálfstæðisflokksins að framlög til háskólastigsins nái meðaltali OECD-landa. Sjálfstæðisflokkurinn telur einnig mikilvægt að samhliða verði ráðist í kerfisbreytingar sem bæti starfsumhverfi háskóla, stuðli að bættri námsframvindu og tryggi áfram háskólakerfi í fremstu röð. 

Á skalanum 1 til 10, hversu mikilvægt telur flokkurinn að forgangsraða þurfi í þágu stúdenta og háskólanna? (1; alls ekki mikilvægt. 10; mjög mikilvægt)

Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn flokka sýnt það í verki hve mikilvægt hann telur að forgangsraðað sé í þágu stúdenta. Samkvæmt nýju frumvarpi um námslán og námsstyrki stendur til að stúdentar fái með beinum hætti um 2,3 milljarða króna árlega til viðbótar við núverandi framlög í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Í ofanálag eru áform um að strax á þessu ári renni 5 milljarðar króna til viðbótar inn í lánasjóðinn til þess að hægt sé að taka upp fyrirframgreiðslu námsaðstoðar, sem stúdentar hafa lengi kallað eftir. Stjórnarandstöðuflokkar á Alþingi hafa lagst gegn þessari forgangsröðun. Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram berjast fyrir því að forgangsraðað verði í þágu stúdenta með þessum hætti.

Teikning: Halldór Sánchez

Teikning: Halldór Sánchez