Cycle Festival: „Tilvalin afsökun til að upplifa eitthvað nýtt og öðruvísi"

FOXP2’ eftir Marguerite Humeau. Ljósmynd/Inès Manai

FOXP2’ eftir Marguerite Humeau. Ljósmynd/Inès Manai

Cycle Festival verður haldin hátíðlega í annað skipti í Kópavogi helgina 27. – 30. október. Cycle er spennandi listahátíð sem að sögn Guðnýjar Þóru Guðmundsdóttur, listræns stjórnanda hátíðarinnar, er eina hátíð sinnar tegundar á Íslandi. Guðný er einn stofnenda Cycle Festival en hún svaraði nokkrum spurningum Stúdentablaðsins um þessa fjölbreyttu og lifandi hátíð.

Cycle festival leggur áherslu á samtímatónlist í tengslum við myndlist og gjörninga en „vonin er auðvitað sú að reyna að afmá mörkin milli listgreinanna,“ segir Guðný.

,,Hugmyndin að hátíðinni hafði blundað lengi í okkur og við verið áður í öðrum verkefnum sem hægt er að segja að séu einhvers konar forrennarar hátíðarinnar. Það tók samt langan tíma að finna verkefninu réttan farveg. Með aðstoð Kópavogsbæjar fengum við aðstöðu og tæki til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Ætli maður geti því ekki sagt að hátíðin spretti upp af þörf og búi til vettvang fyrir íslenska og alþjóðlega listamenn til að koma saman og læra hver af öðrum. Á einhvern hátt er þetta líka spurning um að gefa tilbaka til samfélagsins og sjá hvaða áhrif menningarviðburður getur haft á bæjarmyndina og nærsamfélagið. Þegar litið er yfir sviðið á Íslandi má finna fjölmarga listamenn sem hafa valið að nota tónlistina sem miðil í sinni listsköpun og þeir verða stöðugt fleiri. Einnig er tónlistarsenan ótrúlega frjó og það var því spennandi verkefni að koma upp vettvangi þar sem þessi tvö listform eru sett saman í forgrunn,“segir Guðný.

Fjölbreytt flóra á hátíðinni

Hrefna Hrönn Leifsdóttir

Hrefna Hrönn Leifsdóttir

Hrefna Hörn Leifsdóttir, aðstoðar sýningarstjóri Cycle Festival féllst á að mæla með þremur sýningum sem sýndar verða á hátíðinni en Hrefna lýsir Cycle Festivali sem „tilvalinni afsökun til að upplifa eitthvað alveg nýtt og öðruvísi.“

„Gerðarsafn hýsir stærstan hluta myndlistarverka hátíðarinnar en sýningin ‘Þá’ stendur til 18. desember. Samhliða sýningunni mun gjörningur eftir bandaríska listamanninn David Levine eiga sér stað. Leikararnir munu dreifa sér um safnið og í almenningsrými víðsvegar um Kópavog og flytja verk unnið úr bókinni ‘Heart of Darkness’ eftir Joseph Conrad,” útskýrir Hrefna. Hún kveðst spennt að sjá verkið flutt innan um myndlistarverk sem og í óhefðbundnu rýmunum. Hugmyndin er að áhorfandinn geti gengið á milli og fylgst með þar sem leikararnir verða búnir að koma sér fyrir á nokkrum ólíkum stöðum.

„Ég er líka mjög spennt að upplifa hljóðinnsetninguna ‘FOXP2’ eftir Marguerite Humeau sem verður sett upp í Salnum og verður í gangi alla helgina á milli annarra atriða. Verkið sem kannar ferðalag milli mismunandi heima og tíma var fyrst sett upp í ‘Palais de Tokyo’ í París, en það er frábært að fá tækifæri til að sjá það hér.“

Á öðrum degi hátíðarinnar verður farið með rútu út fyrir Kópavog í nokkrra tíma gjörninga-ferðalag með þýska listamanninum Johannes Paul Raether. Raether klæðist skrautlegum dragbúningum í gjörningum sínum og tekur áhorfendur með í einstakt ferðalag að sögn Hrefnu. „Ég var heppin að taka þátt í seinasta gjörningnum hans í ‘Berliner Festspiele’ þar sem ferðalagið endaði á mjög óvæntan hátt í Apple-búðinni á einni stærstu verslunargötu Berlínar. Það liggur enn leynd yfir hvert er heitið að þessu sinni,” segir Hrefna en hún lofar áhugaverðu ferðalagi.

Allir viðburðir Cycle Festival eru ókeypis og því um að gera að láta sjá sig.

Johannes Paul Raether: "DysTerb, NeoEuroGado PraYttLanth 5.5.5.1 – Infiltration der Rare Screen Halde“ Ljósmynd: Cristopher Hewitt

Johannes Paul Raether: "DysTerb, NeoEuroGado PraYttLanth 5.5.5.1 – Infiltration der Rare Screen Halde“ Ljósmynd: Cristopher Hewitt

MenningGuest User