„Ekki sjálfsagt mál að standa sig sem foreldri“

Heiða Björg Pálmadóttir, Guðrún Hrefna Sverrisdóttir og Oddgeir Einarsson á hátíðarmálþingi Úlfljóts.  mynd/Ragnhildur Þrastar

Heiða Björg Pálmadóttir, Guðrún Hrefna Sverrisdóttir og Oddgeir Einarsson á hátíðarmálþingi Úlfljóts. mynd/Ragnhildur Þrastar

Erfitt var orð sem heyrðist oft á tólfta hátíðarmálþingi Úlfljóts, tímarits laganema, síðastliðinn miðvikudag. Það er ekki að furða að þetta orð hafi komið fyrir oftar en einu sinni í málflutningi framsögumanna þar sem umræðuefnið var jú, ákaflega erfitt.

Umfjöllunarefni málþingsins var; íþyngjandi aðgerðir barnaverndarnefndar, vistun barns utan heimilis og forsjársvipting - er of seint gripið til ráðstafana á Íslandi? Formælendur voru ekki fullkomlega sammála um svar við spurningunni. Mál sem koma inn á borð barnaverndarnefndar eru jafn misjöfn og þau eru mörg og er svarið við spurningunni því afar flókið og fer eftir einstökum málum hvort spurningunni sé svarað neitandi eða játandi.

Dómskerfið hafi slæm áhrif á börnin

Fyrsti framsögumaður málþingsin var Guðrún Hrefna Sverrisdóttir, félagsráðgjafi hjá barnavernd Garðarbæjar. Hún tjáði áheyrendum að fósturvistanir væru iðulega gerðar í samvinnu við foreldra og sjaldan kæmi til forræðissviptingar. Guðrún telur þá breytingu, að ákvarðanir um forsjársviptingar séu settar í hendur dómstóla, ekki jákvæða breytingu á lögunum. Áður fyrr voru ákvarðanir um forsjársviptingu teknar af starfsmönnum barnaverndarnefndar. Þetta telur Guðrún hafa slæm áhrif á börnin þar sem málin séu langan tíma í vinnslu sé þeim vísað til dómstóla og því vert að velta fyrir sér hvort barnið hafi efni á því að bíða við óviðunandi aðstæður þangað til.

Segir umfjöllun fjölmiðla „félagsklám"

Næst upp í pontu var Heiða Björg Pálmadóttir lögfræðingur hjá Barnaverndarstofu. Heiða kom inn á umfjöllun fjölmiðla um barnaverndarnefnd og hennar mál. Kallaði Heiða umfjöllun fjölmiðla um þessi viðkvæmu mál „félagsklám,“ en þar átti hún við að almenningi þyki mál sem þessi oft spennandi en forboðin á einhvern hátt og fjölmiðlar fjalli oftar en ekki bara um aðra hlið málsins; hlið foreldris. Fréttirnar sé auðvelt að framleiða, sögurnar eru persónulegar, allir hafa skoðanir á slíkum málum en fáir þekki málin raunverulega. Fyrirsagnir á borð við: „Barnavernd í ólestri – Foreldrar gerðir að glæpamönnum af óhæfu starfsfólki barnaverndarnefndar,“ eru daglegt brauð og litlar líkur á að viðkomandi blaðamaður hafi haft gögn frá báðum hliðum sem styðji slíkar fullyrðingar.

Að sögn Heiðu ýja fjölmiðlar óhikað að því að barnaverndarnefnd gangi of hart fram en því er Heiða ekki sammála. Raunin sé þveröfug, barnaverndarnefnd fær inn á borð til sín um 5000 mál á hverju ári og þar af séu einungis 400 börn vistuð utan heimilis eða um 8%. Þegar barnaverndarmál fara fyrir dómstóla sé barnaverndarnefnd iðulega dæmt í vil sem sýnir fram á að Barnaverndarnefnd sé ekki að fara of geyst í sínum málum. Þar taldi Heiða fram gögn úr doktorsritgerð sinni þar sem hún skoðaði 55 barnaverndarmál sem fóru fyrir dómstóla en í 45 málum af 52 var fallist á kröfur Barnaverndarnefndar.

Mynd: Barnaverndarstofa

Mynd: Barnaverndarstofa

Skortir fjármagn til að halda úti starfsfólki

Oddgeir Einarsson, hæstarréttarlögmaður, var ósammála fyrri ræðumönnum á vissum sviðum, barnaverndarnefnd grípi ekki of seint til úrræða. Það þurfi að vera alveg klárt að íþyngjandi úrræða sé þörf ætli barnaverndaryfirvöld að beita þeim. Seinfærum foreldrum ætti að vera að gefið meira svigrúm til þess að standa sig og vægari úrræði hentuðu oft í tilvikum þeirra. Vandamálið sé hins vegar, að til þess að mögulegt sé að beita vægari úrræðum svo sem tilsjón og aðkomu ópersónulegs ráðgjafa, þurfi starfsfólk en fjármunir til þess að greiða starfsfólki séu ekki til.

Það væru að mati Oddgeirs, breyting til batnaðar ef lögmenn fengju að koma fyrr að málum til þess að koma í veg fyrir samskiptaörðugleika milli barnaverndarnefndar og foreldra og jafnvel til þess að komast hjá dómsmáli. Lögmenn gætu þá aðstoðað foreldra og barnaverndarnefnd til þess að komast að samkomulagi. Þetta myndi ekki fela í sér aukin útgjöld, þvert á móti væri mikill sparnaður fólginn í því að komast hjá því að málin færu fyrir dómstóla.

Frétt skrifar: Ragnhildur Þrastardóttir