Nýtt blóð á Iceland Airwaves 2016

Ófáar hljómsveitir hafa slegið í gegn eftir að hafa troðið upp á Airwaves, en hátíðin leitast við að fá upprennandi hæfileikafólk til að koma fram. Stúdentablaðið leitaði og fann allra ferskustu hljómsveitir í senunni í dag. Þrjú bönd sem öll bjóða upp á eitthvað nýtt; nýtt hljóð, nýja upplifun, ný átrúnaðargoð. Þrjár óviðjafnanlega sexí hljómsveitir sem ekkert fær stoppað og enginn ætti að missa af.

Hljómsveitin Hatari.  Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

Hljómsveitin Hatari. Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

aYia

aYia er dularfyllsta hljómsveit Íslands. Hljómsveitin setur tónlistina í fyrirrúm og kjósa meðlimir hennar að koma ekki fram undir nafni. aYia var stofnuð fyrir tveimur árum en kom í fyrsta skipti fram á Secret Solstice-hátíðinni í sumar. Með tilkomu aYia opnaðist ný vídd, hljóðheimur sem fer með hlustandann í ferðalag um ókannaða geima. Í þau fáu skipti sem aYia hefur spilað opinberlega hafa áhorfendur verið hnepptir í álög og yfirnáttúruleg stemmning ráðið ríkjum.

aYia samþykkti að svara nokkrum spurningum Stúdentablaðsins með því skilyrði að nafnleyndar yrði gætt.

Hvers vegna aYia?

„Vegna þess að stundum þarf að nefna ráðgáturnar."

 Hver er boðskapur aYia?

„aYia vill láta fólk vita að það er ekki allt sem sýnist."

Hvert er sköpunarferli aYia?

„Véfréttin semur ljóð og syngur við það laglínu sem glóir inn í augunum svo allir sjái aðeins betur. Hettan tekur það í sundur og skoðar og skoðar og skoðar í þúsundárasmásjá, að lokum lætur það dansa við malbik. Hinn sem límir saman fólk tengir það við loftnet og jörð og vatn og myrkur."

Á aYia sér draum?

„Þetta er allt bara draumur."

 Hvert stefnir aYia?

„aYia stefnir að fimmtu höfuðáttinni."

Við hverju mega aðdáendur ykkar búast á Airwaves?

„Einhverju grunsamlegu."

Hægt verður að berja aYia augum: 4. nóvember í Silfurbergi Hörpu kl. 20:00 og 5. nóvember á Húrra kl. 22:30.

 

Hljómsveitin CYBER. Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

Hljómsveitin CYBER. Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

CYBER

Bandið CYBER samstendur af rappdívunum Jóhönnu Rakel Jónasdóttur og Sölku Valsdóttur ásamt DJ Þuru Stínu og MC Blævi. Þetta dýnamíska drauma gengi hefur verið áberandi í tónlistarsenunni í sumar og gáfu þær út plötuna „Crap" með pompi og prakt í ágúst. Útgáfunni var fagnað með eftirminnilegum tónleikum þar sem orkan sprakk utan af röppurunum og flæddi yfir áhorfendur með þeim óafturkallanlegu afleiðingum að hlustendur urðu háðir með því sama. Stúdentablaðið fékk að leggja nokkrar spurningar fyrir þessar gyðjur.

„CYBER varð eiginlega til á landa fylleríi 2011, Salka átti varalit sem hét CYBER og mér fannst það hljóma eins og nafn á hljómsveit, þannig við ákváðum að vera sú hljómsveit. Svo vorum við líka skítblankar (enda að sötra landa) en langaði samt á Airwaves. Pælingin þá var að henda í eina EP og fá svo að spila á hátíðinni mánuði seinna, það gekk ekki alveg. En EP-ið og Airwaves kom ekki fyrr en 5 árum seinna.”

 Hvernig er hið týpíska sköpunarferli?

,,Jóhönnu finnst best að vera upp í stúdíói og taka upp löng bull session og úr því kemur svo hennar texti og flæði. Mér og Blævi finnst hinsvegar betra að skrifa texta niður og ákveða flæðið fyrirfram. Svo höfum við líka oft verið að fá bít frá pródúserum og semja svo yfir það, en undanfarið erum við búin að vera að vinna taktinn, textann og „vibe-ið" allt samhliða með pródúsent sem kallar sig Marmari. En þegar ég hugsa um það þá er kannski engin ein týpísk leið, við erum svolítið fylgjandi því að gera bara eitthvað.”

 Eru CYBER hættulegar?

„Salka er svo mikið crazy bitch að hún gæti örugglega drepið einhvern ef til þess kæmi. Svo erum ég og Þura Stína fáránlega góðar í jujitzu, þannig já við erum alveg frekar hættulegar skúzur." 

Aðdáendur CYBER mega búast við sprengju á Airwaves en dúóið lofar „helluðum tónleikum, fallegum „visuals," gannislag, mozarella stöngum og rugluðu djammi.” Þær minna einnig á að gleyma ekki góða skapinu og smokkunum. „Fokking pirrandi að gleyma þessum hlutum."

Hægt verður að sjá CYBER: 5. nóvember á Húrra kl. 01:30 og off-venue.

Hatari

Hljómsveitin Hatari samanstendur af þeim Klemensi Nikulássyni Hannigan og Matthíasi Tryggva Haraldssyni auk ónafngreinds trommara, sem kemur undantekningalaust fram grímuklæddur. Þríeykið vakti áhuga ritstjórnar í sumar með óvenjulegri framkomu sinni á hátíðinni LungA, þar sem Hatarar mættu sem þruma úr heiðskýru lofti og settu á svið sinn eigin ritúalíska kokteil af pönki og raftónlist. Áhorfendur voru kveðnir í kútinn og neyddir til að dansa, nauðugir viljugir.

Mikil leynd hvílir yfir sveitinni, stefnu hennar og boðskap, en tónlist hennar er í senn rammpólitísk og tilfinningaþrungin. Meðlimir Hatara neituðu að veita Stúdentablaðinu viðtal en sendu þess í stað eftirfarandi skilaboð til ritstjórnar:

„Sameinist ómagar bak í bak og dansið. Dansið eða deyið.“ 

„Ég sá þessa menn fyrst síðasta haust og fannst eins og ný bylgja væri við það að steypast yfir íslenskt tónlistarlíf – ef ekki yfir íslenska menningu eins og hún leggur sig,“ sagði Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir, stofnandi útgáfunnar Hið myrka man, í samtali við Stúdentablaðið þegar ritstjórn fór á stúfana að leita upplýsinga um Hatara. „Þeir slógu vægast sagt í gegn. Ég hef sjaldan séð Reykvíkinga dansa af svo mikilli innlifun fyrir miðnætti á fimmtudagskvöldi,“ segir Sólveig um fyrstu tónleika Hatara.

Samkvæmt tilkynningu á vefsvæði tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves miðar sveitin að því að „afhjúpa þá linnulausu svikamyllu sem við köllum hversdagleikann."

„Ég hætti að vinna fyrir Domus Medica daginn eftir að ég sá Hatara fyrst á sviði. Þeir gjörbreyttu sýn minni á markaðssamfélagið. Afhverju seldi ég mig ekki fyrir meira?“ sagði Karl Torsten Ställborn, söngvari og gítarleikari, í samtali við Stúdentablaðið en hann hefur að eigin sögn fylgst grannt með sveitinni frá upphafi.

Þá hafa fleiri tónlistarmenn ekki séð ástæðu til að spara stóru orðin. „Mér leið eins og heimurinn væri að enda kominn,“ er haft eftir DJ flugvél og geimskip á tónlistarvefnum imx.is, þar sem hún lýsir tónleikum sveitarinnar á hátíðinni Norðanpaunk.

Hatarar munu predika: 2. nóvember í Iðnó kl. 20:30 og 6. nóvember í Valshöllinni Upstairs kl. 19:10 og off-venue.

 

Kristlín Dís skrifar fyrir Stúdentablaðið

 

Hljómsveitin aYia.  Ljósmynd/ Magnús Andersen

Hljómsveitin aYia. Ljósmynd/ Magnús Andersen