Slær nöldri upp í grín – Lóa Hjálmtýsdóttir

Myndasögur Lóu Hjálmtýsdóttur, söngkonu FM Belfast, hafa birst víða og vakið verðskuldaða athygli. Hún hefur myndskreytt fjölda bóka, teiknað myndir í Skrípó-spilið og komið að gerð teiknimyndaþáttarins Hulla sem var sýndur á RÚV haustið 2013.

Nýjasta bók Lóu, Lóaboratoríum, sem samanstendur af safni myndasagna, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna árið 2014 og Menningarverðlauna DV árið 2015. Lóa á að baki nám í myndlist frá Listaháskóla Íslands og myndskreytingum frá Parsons New School of Design í New York. Ekki er nóg með að Lóa láti að sér kveða í tónlist og myndlist heldur er hún einnig í meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands. 


Kveikir á bullrás

Ritlistarnámið hefur komið Lóu að góðum notum við að semja söngtexta fyrir FM Belfast. „Það hefur verið auðveldara eftir að ég byrjaði í náminu að vera ekki að ofhugsa og fatta að maður getur kveikt á einhverri bullrás – og svo er hægt að hreinsa seinna. Að leyfa sér að koma öllu út og draga sig svo til baka í staðinn fyrir að sitja og rembast og skrifa þetta bara í formatið, hér er viðlag og það er svona mörg atkvæði,“ segir Lóa. 

Bakgrunnur hennar í myndlist hefur haft áhrif á skrifin. „Ég reyni alltaf að troða teikningu inn í allt sem ég er að gera,“ bætir hún við. Þetta á til að mynda við um bókina Uppskriftabók – skáldverk sem ritlistarnemar í samvinnu við ritstjórnarnema gáfu út í maí á síðasta ári. Framlag Lóu til bókarinnar, Að hrella granna, er saga með örstuttum köflum og mynd við hvern þeirra. Auk þess verða í bókinni andlitsmyndir eftir Lóu af öllum þeim sem standa að gerð bókarinnar. 

Reynslan af því að búa til teiknimyndasögur hefur einnig komið sér vel í náminu. „Ég var í leikritaáfanga og þá fattaði ég að ég var með miklu meiri reynslu í að skrifa samtöl en ég áttaði mig á. Ég er svo vön að vera með nokkrar ímyndaðar manneskjur sem þurfa að spjalla saman.“

Lóa er ánægð með ritlistarnámið í heild sinni en nefnir að námskeiðið Aðferðir og hugtök hafi verið sérstaklega skemmtilegt en þar fékk hún æfingu í að greina texta. „Mér finnst ótrúlega gaman að greina verk annarra, bara svona til að skilja hvernig þau eru og hvernig þau hugsuðu. Mér finnst það ógeðslega skemmtilegt og þetta var ótrúlega mikið nördið í mér sem naut sín þarna, svona að ofhugsa einhverjar bíómyndir og ljóð.“ Mest krefjandi við námið finnst henni hins vegar að gagnrýna það sem samnemendurnir hafa skrifað. „Það er mikil kúnst að vera gagnleg í svona af því þetta er allt annað en ef þú ert óumbeðinn að segja eitthvað um verk hjá öðrum. Já að vera hreinskilin og hugrökk í því. Ég held að það sé erfiðast.“

Gamall nöldurseggur sem glápir á fólk

Innblástur að teiknimyndasögum fær Lóa víða. „Sumt eru náttúrulega bara sögur sem gerðust í alvörunni og svo bara breyti ég þeim í samtöl eða breyti einhverju í grín sem var kannski ekkert rosalega mikið grín. 

_MG_6109.jpg

Svo er ég með útsýni yfir bílaplanið á Bæjarins bestu og glápi ótrúlega mikið á fólk að kaupa sér pulsu. Líka af því að Harpa er þarna og skyggir á Esjuna og þetta er eitthvað svo ótrúega fyndið, svo rosalega mikið þessi borg á þessum tíma.

Já, svo er ég líka gamall nöldurseggur að mörgu leyti þannig að ég á mjög auðvelt með að setja mig í spor fýlupúka sem er ellilífeyrisþegi eða hefur mikinn tíma til þess að láta hlutina fara í taugarnar á sér,“ segir Lóa kímin. „Ég nota það oft. Líka ef mér gremst eitthvað þá finnst mér rosa fínt að losna við það svona og snúa því bara upp í eitthvað skemmtilegt. Þá er ég einhvern veginn búin að afgreiða það.“ 

Þannig verða myndasögur Lóu stundum að ádeilu. „Bara ósjálfrátt eitthvað sem tengist mínum skoðunum og einhverju sem ég sé.“ Lóa telur þetta hafa aukist í fyrra eftir að hún fór að gera myndasögur á hverjum degi í einn og hálfan mánuð. „Þá koma inn árstíðirnar, páskar og jól og allt sem er að gerast í kringum mann. Þessa dagana er ég til dæmis að gera páskaegg og hvað snjór getur verið hvimleiður.“

Gerir grín að göllunum í sjálfri sér

„Mér finnst svo leiðinlegir brandarar sem eru einhvern veginn á kostnað einhvers, að gera grín að einhverjum af því að hann er svona eða hinsegin. Mig langar ekki að gera þannig brandara þannig að ég reyni oftast að gera grín að einhverjum persónuleikagöllum í sjálfri mér og þá hittir það oft á einhvern annan því maður er ekkert eitthvað æðislega einstakur.“

Lóa er dugleg að sjá spaugilegu hliðarnar á hlutunum. „Ég lendi mjög oft í skrýtnu. Ég hef örugglega mjög oft sagt frá því þegar ég skrúbbaði bakið á gamalli konu í Laugardaglslauginni. Ég var akkúrat komin úr sundbolnum þegar þessi kona kom upp að mér með risastóran svamp og bað mig, en ekki systur mína, um að skrúbba á sér bakið. Systir mín var alveg blá í framan af því að halda niðri í sér hlátri. Þessi kona er framan á bókinni minni [Lóaboratoríum]. Það er svona inspirerað af þessu. Þetta voru svo asnalegar aðstæður. Ég gat einhvern veginn ekki sagt nei við einhverja pínulitla gamla konu með kryppu.“

Lóu fannst gaman að vera unglingur og fá óstjórnleg hlátursköst. „Það kemur ekki jafn oft fyrir mig núna en þá var maður einhvern veginn í meira ójafnvægi. Það var allt eitthvað svo vandræðalegt og fyndið. Ég hélt að ég væri segull á skrýtið fólk og skrýtna hluti en þetta er mjög algengt. Það líður öllum svona eins og þeir séu manneskjan sem lendir alltaf í þessu en svo eru allir bara í einhverju rugli alla daga.“

Húmor er varnarmekanismi

Lóa segist lítið þurfa að hafa fyrir húmornum í verkum sínum. „Ég er bara þannig víruð að ég reyni alltaf að vera fyndin þó ég vilji það ekki. En þetta er líka varnarmekansimi og kúltúr. Ég kem úr fjölskyldu sem grínast alveg rosalega mikið og á vini sem eru mjög fyndnir. Þetta er einhvers konar hegðun sem ég hef vanið mig á og sumt er náttúrulega bara af því að maður hefur einlægt gaman að gríni en sumt er líka stress, að vera alltaf að segja eitthvað og hlæja á eftir hverri setningu og eitthvað svoleiðis.“

Lóa tók þátt í þarsíðasta áramótaskaupi en þar kom húmorinn að góðum notum. Hún tók þátt í hugmyndavinnu og sá um teikningarnar. „Það var eins og að vera í Eurovision, búin að horfa á þetta alla ævi og svo bara ertu þarna! Svo líka af því að þetta voru ótrúlega skemmtilegar konur sem voru að gera þetta.“ Hún segir að það hafi verið stressandi að horfa á skaupið á gamlárskvöld. „Heima í stofu var algjör þögn þegar teiknimyndirnar komu því allir voru stressaðir fyrir mína hönd.“

Hægt að vinna við áhugamálin sín

Lóa er þeirrar skoðunar að það sé hægt að vinna við hvað sem er. „Ég er alltaf að reyna að troða því í hausinn á systkinabörnunum mínum að þau geti unnið við hvað sem er, meira að segja áhugamálin sín. Ég hef oft hitt fólk sem festist í einhverju praktísku og heldur að það sé ekki hægt að vera til án þess að fara ógeðslega praktíska leið og læra kannski eitthvað sem þau vilja ekkert læra.“

Lóa bendir á að það er hægt að vinna við ýmsa hluti. „Mér finnst CCP gott dæmi. Þar vinnur fólk sem spilaði leikinn svo mikið að það var ráðið af því að það var náttúrulega orðið sérfræðingar í tölvuleiknum og mér finnst það svo æðislegt. Líka þegar fólk vinnur við að vera á hjólabretti og eitthvað svona. Mér finnst aðdáunarvert að það sé hægt að vinna við hvað sem er, að maður þurfi ekki að gera eitthvað leiðinlegt. Mér finnst ótrúlega mikilvægt að fatta það. En ég þurfti að fatta það.“

Lóa hefur fundið leið til þess að vinna við það sem henni finnst skemmtilegt og sameina áhugamál og vinnu. Hún veit þó ekki hvað henni finnst skemmtilegast af því sem hún er að gera. „Mér finnst eiginlega allt skemmtilegt sem ég er að gera. Mér finnst reyndar ekki gaman að gera bókhald en það er eitthvað sem er nauðsynlegt. 

Það er svo mismunandi skemmtilegt. Ég á bæði svona „introvert“ og „extrovert“ hlið þannig að ég nýt mín bæði að láta eins og brjálæðingur einhvers staðar í útlöndum á sviði og sitja ein hérna á skrifstofunni minni að dingla mér að teikna og svona. Tilbreytingin er því að vissu leyti skemmtilegust.“

 

Texti: Karítas Hrundar Pálsdóttir

Ljósmyndir: Adelina Antal