3. ritlistarkeppni Stúdentablaðsins: Úrslit

Þriðja ritlistarkeppni vetrarins fól í sér að finna myndatexta við þessa skopmynd eftir einn af ritstjórnarmeðlimum Stúdentablaðsins, Kristin Pálsson. Við fengum mikinn fjölda af innsendum hugmyndum, bæði á íslensku og á ensku.

Sbl-2tbl.jpg


1. sæti

„Svo þegar ég sting upp á rómantísku kvöldi þá vill hún bara fara í ísbíltúr!“

–Sif Sigfúsdóttir


2. sæti

Samtal um örvæntingu ástarinnar

- Ertu ástfanginn, Snjólaugur?

- Ég hef aldrei þekkt eins ástríðu og hlýju. Ég heyri tónlist þegar hún hreyfir sig. Ég heyri í býflugum og öll skilningarvit mín eru opin. Áður var allt svo dimmt og kalt. En núna finnst mér ég vera léttur eins og fjöður. Útgeislun hennar er svo mikil að mér finnst ég ljóma allur. Það er eins og tjöldin hafi verið dregin frá. Loksins er heimurinn bjartur.

- Hefurðu sagt henni hvernig þér líður?      

- Ég hef reynt það en mér finnst hún ekki skilja mig. Ég hef teiknað ástarjátningar á stéttina en þær hverfa. Þegar ég kalla á hana þá svarar hún mér ekki. Hún virðir mig stundum ekki viðlits. En samt starir hún löngum stundum á mig og segir ekkert. Síðan hverfur hún tímunum saman og þegar hún kemur tilbaka kemur hún ekki með neina afsökun.

- Áhugavert…

- Mér finnst ég elska hana of mikið, læknir. Og svo hef ég grun um að það séu fleiri sem elski hana en ég. Og að hún elski aðra en mig. Ég sturlast af afbrýðisemi. Ég er svo reiður og svo ástfanginn.

Nú fann sálfræðingurinn fyrir óvæntum kekki hálsinum. Hann þekkti ástina sem Snjólaugur lýsti. Hann hafði fundið fyrir nákvæmlega eins tilfinningu að undanförnu. Hann vissi hversu vonlaus ástin hans var og mikilvæg af því hann elskaða hana líka. Af öllu hjarta, svo mikið að hann vissi að hann myndi deyja fyrir hana. En hann var líka ofboðslega hræddur við hana. Bara ef hann færi ekki einn á hennar fund…

- Hvað er til ráða, læknir?

- Snjólaugur, ég skal koma með þér. Það er bara eitt ráð og við vitum báðir hvað það er. Við viljum ekki deyja án ástarinnar þó hún muni að endanum bræða okkur.

Snjólaugur er hissa á svörum læknisins. Ætlaði hann með honum? Læknirinn er staðinn upp og dregur gardínurnar frá. Birta flæðir inn í herbergið. Læknirinn opnar svalahurðina og stígur út. Snjólaugur fyllist forvitni og nýtilkominni von. Hann hlýtur að vita hvað hann er að gera, hugsar hann. Af svölunum sjá þeir að vorið er að springa út í blóma. Læknirinn og Snjólaugur haldast í greinar og horfa upp til hennar. Þeir brosa þar til tölurnar úr munnvikinu detta út, gulrótin lippast á jörðina, greinarnar sem voru hendur síga niður, búkurinn verður að vatni.

Þeir bráðna ofan í hvorn annan. Eftir er aðeins ástfanginn pollur.

Hún kemur þá loksins. Sleikir þá upp af stéttinni. Og sækir þá til sín.

–Ragnheiður Harpa Leifsdóttir

3. sæti

„Fyrirgefðu, en mér liði mun betur í tímunum okkar á þessum bedda ef ég væri ekki alltaf skráður strax á eftir króníska runkaranum“

–Páll Axel Sigurðsson


Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir tók að sér dómgæslu og segir eftirfarandi um efstu sætin þrjú:

1. sæti: Einfalt, fyndið og mannlegt. Snjókarl að röfla yfir einhverju dæmigerðu fyrir manneskjur en örugglega alvarlegra þegar snjókarlar eiga í hlut. Ég veit ekki einu sinni hvað ísbíltúr fyrir snjókarla þýðir.

2. sæti: Ekki beinlínis skopmyndatexti en þar sem þetta var mjög áhugavert, fallegt og vel skrifað þá fannst mér þetta eiga skilið sæti.

3. sæti: Ég valdi þetta þar sem þetta var skemmtilega óviðeigandi og bjó til mynd í huganum af einhverju greyi sem gengur undir nafninu Króníski runkarinn. Mér fannst líka fyndið að fara út fyrir hið augljósa, taka bráðnaða snjóinn og breyta honum í brund.

FS veitir efstu sætunum þremur vegleg verðlaun, sigurvegarinn hlýtur bókagjöf frá Bóksölu Stúdenta, annað sætið fær gjafabréf fyrir tvo á Stúdentakjallarann og þriðja sætið kaffikort í Hámu.