Betrunarstefna eða refsingarvist? Í íslenskum lögum er hvergi minnst á betrun

Aðstæður fanga í fangelsum á Íslandi hafa verið mikið í umræðunni upp á síðkastið. Við lesum fréttir af hvítflibbaglæpamönnum sem verja afplánun sinni í einbýlishúsum á Kvíabryggju, heyrum að fangar geti vafrað að vild á netinu og jafnvel afplánað langar refsingar utan fangelsa. En er þetta í raun veruleiki fanga á Íslandi?

Mikil vitundarvakning hefur orðið um hvort það sé ekki löngu kominn tími á nálgast fangelsisvist sem betrun í stað refsingar. Flestar nágrannaþjóðir okkar hafa tileinkað sér fangelsisstefnu sem kallast einfaldlega betrunarvist. Í henni felst að fangar geti nýtt afplánun sína til að vinna í sínum málum, læra nýja siði og vonandi breyta lífi sínu til hins betra. Það gefur þeim kost á því að snúa aftur til samfélagsins að afplánun lokinni sem betri einstaklingar. Slíkt er auðvitað bæði ávinningur fyrir fangann sjálfan og samfélagið allt.

Refsingarvist við lýði á Íslandi

Á Íslandi hefur ekki enn verið tekin sú stefna hjá stjórnvöldum að breyta fangelsismálum í betrunarvist í stað refsingarvistar. Betrunarvist felst í því að fangelsi bjóði upp á þáttöku í ýmsum uppbyggilegum athöfnum og veiti föngum aðgang að sérfræðingum í von um að hjálpa þeim að snúa til baka í samfélagið betur staddir. Þar spilar aðgangur að námi, verkmenntun og tómstundum miklu máli. Skref í þessa átt hafa verið tekin hér á landi en við eigum ennþá langt í land. Aðstöðu fanga í fangelsum er ábótavant og hefur hún verið rannsökuð og gagnrýnd af ýmsum aðilum, þar á meðal Ríkisendurskoðun, Afstöðu og Sameinuðu þjóðunum.

Afstaða er félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun fanga. Á hverjum degi berst félagið fyrir réttindum fanga og beitir stjórnvöld þrýstingi. Félagsmenn Afstöðu eru helstu talsmenn betrunarstefnu á Íslandi og vonast þeir til að stjórnvöld á Íslandi tileinki sér þá stefnu með það markmið að fækka endurkomum í fangelsi og byggja upp einstaklinga sem geta tekið virkan þátt í samfélaginu. Þrátt fyrir þau skref sem tekin hafa veriði í átt að betrunarstefnu í íslenskum fangelsum eru dómþolar, svo dæmi sé tekið, ennþá dæmdir til refsingar og hvergi í lögum er minnst á betrun. Samkvæmt þeim er námsframboð í fangelsum í raun afar takmarkað og fjárhagsleg aðstoð vegna kostnaðar við nám af skornum skammti. Ásamt því er aðgengi til náms mismunandi eftir fangelsum og föngum þannig mismunað.

Aðstoð sálfræðinga og geðlækna fyrir fanga er einnig afar takmörkuð, sem er ekki viðunandi þar sem margir dómþolar þurfa reglulega meðhöndlun. Í lok 2015 birtist ítarleg grein um fangelsismál á Íslandi á Vísi, en í henni kom fram að enginn geðlæknir væri starfandi á Litla Hrauni. Vegna skorts á mannafli og þekkingu eru þeir einstaklingar sem kljást við geðræn vandamál settir í einangrun.

Betrunarvist lækkar endurkomutíðni

Árið 2014 voru 159 fangar á Íslandi í afplánun óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar innan og utan fangelsa en 84 þeirra höfðu verið í afplánun áður. Á Norðurlöndunum hefur betrunarvist, og áhrif hennar á samfélagið, verið mikið rannsökuð. Árangur Norðurlandanna í betrun er ótvíræður og hefur ekki aðeins lækkað endurkomutíðni í fangelsin heldur einnig fækkað glæpum, auk þess sem kostnaður hefur minnkað hjá lögreglu, fangelsunum og dómstólum. Tekjur hafa aukist í formi skatta og kostnaður við örorkubætur fanga hefur minnkað. Í dag er endurkomutíðni fanga í Noregi  20–25% á meðan Ísland, ásamt öðrum löndum með refsikerfi, hefur að meðaltali yfir 50% endurkomutíðni. Afstaða telur jafnframt að ósamræmi kunni að gæta í niðurstöðunum þar sem að á Íslandi telst fangavist ekki sem endurkoma ef liðin eru fleiri en tvö ár frá því að einstaklingurinn var síðast í fangelsi.

Stór hluti fanga kemur úr félagslega erfiðum aðstæðum og hafa margir hverjir aldrei náð að finna fótfestu í lífinu. Samkvæmt tölum Fangelsismálastofnunar eru 40–57% fanga á aldrinum 21–30 ára, 90% þeirra eru karlmenn og 75% þeirra hafa einungis lokið grunnskólamenntun. Margir þeirra hafa jafnvel aldrei farið út á almennan vinnumarkað. Því getur verið afskaplega erfitt fyrir þessa menn að að fóta sig í lífinu eftir fangelsisvist með litla sem enga menntun og jafnvel enga starfsreynslu. Í dag er lítil sem engin starfsendurhæfing, starfsþjálfun eða stuðningur í boði eftir að afplánun lýkur. Afstaða leggur mikla áherslu á, í sínum stefnumálum, að úr fangelsunum verði útskrifaðir iðnaðarmenn, til dæmis smiðir, málarar, píparar eða kokkar í staðinn fyrir að yfir 60% fanga útskrifist sem öryrkjar eftir fangavist

Er samfélagsþjónusta eða rafræn fangelsisvistun heppilegri lausn?

Afstaða hefur lagt fram margar tillögur að úrræðum við vandanum á  sinni stefnuskrá. Samtökin vilja ekki aðeins bæta aðstöðu fanga í fangelsum heldur vilja þau einnig skoða meiri möguleika á samfélagsþjónustu eða rafrænum fangelsisvistum. Til að koma í veg fyrir þá skaðsemi sem hefðbundin fangelsisvistun getur haft í för með sér, til að mynda atvinnumissi, fjölskyldu- og vinamissi, að falla í rangan félagsskap og fleira, telja þeir  vænlegra til árangurs að einstaklingar og sérstaklega ungt fólk með minniháttar dóma fari aldrei inn í fangelsiskerfið. Oft hafa ungir og áhrifagjarnir einstaklingar, með minniháttar dóma, farið í fangelsi og kynnst þar mönnum sem eru ekki á leið til betrunar. Þeir líta jafnvel upp til þeirra og dragast inn í harðari afbrot að afplánun lokinni.

Af hverju er verið að byggja nýtt öryggisfangelsi?

Á Íslandi eru fimm fangelsi sem geta vistað alls 136 fanga og eru þar með taldir fangar í afplánun sem og í gæsluvarðhaldi. Á síðustu árum hefur dómum á Íslandi fjölgað og refsingar lengst. Fangelsiskerfið hefur því verið undir miklu álagi undanfarin ár en fangelsisplássum hefur ekki verið fjölgað í samræmi við aukningu dóma og refsilengdar. Biðlisti hefur því myndast og bíða margir eftir að afplána dóma sína. Þetta ástand er vitnisburður um hinn margvíslega skort sem ríkir á úrræðum í fangelsismálum á Íslandi. Það stendur þó til að opna nýtt fangelsi á Hólmsheiði á þessu ári en heyrst hafa gagnrýnisraddir um hvernig fangelsið er hannað. Hér þótti mörgum kjörið tækifæri til að tileinka okkur betrunarstefnu og byggja nútímalegt opið fangelsi en í staðinn var byggt öryggisfangelsi.*

Þegar þetta fangelsi kemst á laggirnar verða einungs rúm tuttugu prósent rýma á Íslandi í opnum fangelsum, en mikill meirihluti verður áfram í lokuðum. Löng vist í mjög lokuðum húsum getur eyðilagt fjarlægðarskyn fólks og aukið einangrun sem getur verið afar skaðlegt. Því hafa nýlega verið byggð opnari fangelsi víðsvegar í heiminum með t.d. stórum gluggum í nálægð við náttúruna til auka tengsl fanga við umheiminn og auka virkni.

Það mætti segja að fangar í dag séu í raun í „geymslu“ á meðan þeir taka út refsingu. Við getum ekki vonast til að einstaklingar bæti ráð sitt og fái þá hjálp sem þeir þurfa ef aðföngin eru ekki til staðar. Það þarf að gefa föngum tækifæri að vinna í sínum málum, setja sér markmið og vinna síðan markvisst með þeim. Þetta er mikilvægur málstaður sem hefur áhrif á samfélagið og alla innan þess. Er betrunarvist ekki skref til hins betra?

*Þrátt fyrir að samkvæmt Páli Winkel, fangelsismálastjóra sé fangelsið hannað samkvæmt mannúðar- og öryggissjónarmiðum er fangelsið óumdeilanlega öryggisfangelsi. „Fangelsið verður rammgert og er hannað miðað við nýjustu öryggisreglur. Hugsað er fyrir ýmsum smáatriðum, allt frá því að útrýma mögulegum felustöðum fyrir eiturlyf, yfir í hönnun glugganna,“ sagði Páll í samtali við RÚV


Texti: Birna Stefánsdóttir