Þjónusta náms- og starfsráðgjafar

Kæri háskólastúdent, veistu að þér stendur til boða fjölbreytt þjónusta á vegum Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands (NSHÍ)? Ef ekki, lestu þá endilega áfram.

Námsráðgjöf snýst í stuttu máli um ráðgjöf um námsval, framvindu náms, og vinnubrögð í háskólanámi. Starfsráðgjöf felst í leiðsögn varðandi gerð ferilskrár og kynningarbréfs ásamt undirbúningi fyrir atvinnuleit og atvinnuviðtöl. Sértæk þjónusta er í boði fyrir fatlaða stúdenta og stúdenta með sértæka námsörðugleika eða langvarandi veikindi í formi úrræða í námi og prófum. Sálfræðingur NSHÍ veitir sálfræðilega ráðgjöf auk þess sem cand.psych. nemar Sálfræðideildar háskólans bjóða sálfræðilega þjónustu. Síðast en ekki síst þá veita náms- og starfsráðgjafar stúdentum ráðgjöf vegna persónulegra eða félagslegra erfiðleika meðan á námi stendur.

Úrval lengri og styttri námskeiða og vinnustofa er í boði ásamt örfyrirlestrum í hádeginu. Helstu viðfangsefni eru vinnubrögð og námsvenjur, tímastjórnun, markmiðssetning, undirbúningur fyrir skrif lokaverkefna og atvinnuleit, prófkvíði, prófundirbúningur, streitustjórnun, sjálfstyrking og margt fleira.

Hvernig nálgast þú svo alla þessa þjónustu? Þú getur til dæmis komið án fyrirvara og hitt náms- og starfsráðgjafa í opnum viðtalstíma mánudaga til fimmtudaga kl. 13.00–15.30 og föstudaga kl. 10.00–12.00. Einnig er hægt að bóka viðtal eftir samkomulagi með því að koma eða hringja til okkar í s: 525 4315. Námskeið, vinnustofur og örfyrirlestrar eru auglýstir á Uglu, með tölvupósti, og á vef- og facebook síðum NSHÍ.

Við hvetjum þig til að kynna þér gagnlegt efni á vef NSHÍ (http://nshi.hi.is/) og tengjast okkur á facebook til að fylgjast með því sem er í boði hverju sinni.

Gangi þér sem allra best í náminu.

María Dóra Björnsdóttir,

Deildarstjóri Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands