Reggí fyrir byrjendur

Arnljótur Sigurðsson, tónlistarmaður og meðlimur reggísveitarinnar Ojba Rasta, valdi tíu reggílög fyrir lesendur sem eru áhugasamir um reggí en vita ekki hvar þeir eiga að byrja...

Ef reggí er eins og ostur, þá er Bob Marley þessi Gotti sem allir fá sér á brauð.Ég mæli sannarlega með Gotta en það er svo margt annað gott í þessari bakteríufánu sem yrði annars útundan ef ég minntist ekki á það hér. Mig langar heilshugar að mæla með öllum þeim tónlistarmönnum sem ég fjalla um. Ég valdi þá músík sem kom fyrst upp í hugann og listinn er ekki tæmandi (hvað þá í „réttri“ röð).

Margs annars má leita og finna innan stefnunnar sem hefði eflaust átt heima á listum sem þessum. Merkilega fáar konur komust á þennan lista. Það er miður. Reggí er almennt mjög karllægt og hómófóbískt. Ég gæti trúað að það sé falið í bókstafstrú, menntunarleysi og fátækt sem ríkir á Jamaíku. En sannarlega varð mikið af spennandi músík til á þessari litlu eyju sem er tíu sinnum minni en Ísland. Það væri efni í aðra grein að rekja þau áhrif sem tónlistargróskan milli 1970 og 1980 á Jamaíku hafði á aðrar stefnur og strauma um heim allan. Njótið vel.

1. The Congos - Fisherman

Ein af þessum ótrúlegu plötum sem erfitt er að trúa að hafi orðið til, Heart of the Congos. Fisherman er fyrsta lagið á þessari skylduhlustun. Lee Perry framleiddi einhvern banvænasta og dulúðlegasta pakka sem ég hef kynnst. Það er eins og þessi plata ætti að vera eitt af guðspjöllunum í Biblíunni. Svo mikil og fjölkunnug er þessi sterka taug í tónlistinni hjá þeim. Ég held þeir hafi verið mjög heilshugar og sannfærðir í sínum boðskap. Næstum búnir að sannfæra mig með þessu góða hjali. Lagið er margþætt og leitar alltaf á mig aftur þrátt fyrir leiða inn á milli.

2. Israel Vibration - I’ll go through

Lömunarveikir munaðarleysingjar syngja. Fyrir utan það að státa af besta trommubreiki í reggísögunni, þá er þetta lag svo óendanlega fallegt og söngstíllinn einstakur. Eina reggílagið sem ég væri til í að fara með á eyðieyju. Helst eyðieyju rétt fyrir utan Eþíópíu frekar en í Karíbahafinu. Rastar væru mögulega sammála mér.

3. Willi Williams -  No Hiding Place

Þá sjaldan sem maður heyrir slíka ballöðu. Angurvært lag um heimsendi. Hvert ætlarðu að fara þegar heimurinn ferst? Willi getur mögulega hjálpað þér að gera upp hug þinn. Það verður allavega ómögulegt að fela sig. Annars er það þessi rólyndislegi og kærulausi flutningur á mjög alvarlegu efni sem sendir þetta lag hingað.

4. Horace Andy & Big Youth - Love is the Light

Tvær kanónur settar saman. Ótrúlegir flytjendur með sérlega persónulegan stíl. Áhugavert er hve ólíkt þeir bulla yfir sama takt, ljóðrænt annars vegar og melódískt hins vegar. Mætti líkja við Björk/Einar Örn í Sykurmolunum og Kukl, Gunnar/Baldur í Grísalappalísu og Sigurjón Kjartansson/Óttarr Proppé í HAM. Svo minni ég á Sister Nancy í leiðinni sem meitlaði þetta undirspil (riddim) í marmara með  flutningi sínum í laginu Bam Bam.

5. Roots Train - Junior Murvin

Það má segja að ég sé alltaf til í að heyra þetta lag. Ég man ekki eftir öðru. Junior Murvin var innblásinn af heimsókn Curtis Mayfield & the Impressions til Jamaíku, líkt og fleiri söngvarar á þessum tíma. Söngur Junior Murvin (annars undirleikari hjá Lee Perry) í falsettu gerði hann ótortímandi.

6. Young Generation - Musical Youth

Rappskólarapp eða ekki, vertu bara með! Unga kynslóðin mun rústa okkur gömlu fólunum á endanum, hvað sem hún gerir. Ég vona það allavega. Það er eitthvað í áræðninni hljómsveitarinnar sem ég tengi sterkt við í þessu lagi. Svo þarf unga kynslóðin sinn fulltrúa.

7. Love Thy Neighbour (Version) - Yabby U & King Tubby

Spikfeitt döbb með grófu attitjúdi, ekkert sparað. Gengur alveg upp þó að ég efist um að þeir skapararnir hafi heyrt nokkuð þessu líkt sjálfir á sínum tíma. Stúdíóið er notað til fullnustu, það felst nákvæmni í grófleikanum. Mig langar ekki að fara með fleiri klisjur hér, hlustið bara.

8. Dub Revolution pt.1 - Lee Perry

Eitt af fyrstu reggílögunum sem ég heyrði. Mér finnst það betra í dag en þegar ég heyrði það fyrst. Afslappað og opið, fríkað og ófyrirgefandi. Trommuheilinn ómótstæðilegur og gott singalong. Lee Perry er engum líkur.

9. Raggamuffin Hip Hop - Asher D & Daddy Freddy

Reggí hafði mikil, sívaxandi og víðtæk áhrif á ýmsa vegu. Fólk vill oft kenna reggí um ýmislegt sem gerðist í hipphoppi og rafmúsík. Nálgunin á stúdióið og hljóðkerfi olli straumhvörfum fyrir aðra tónlistarmenn sem tóku sér þessa afstöðu til fyrirmyndar. Nægir að nefna heimildarmyndina Dub Echoes máli mínu til stuðnings. Hrátt lag og einfalt. Mjög sterkt og samspil þeirra Asher D og Daddy Freddy er óborganlega skemmtilegt.

10. Yellowman - Mr.Chin

Þetta fer að verða gott, ég á of erfitt að gera svona upp á milli laga. Langt síðan ég hef hlustað á sum en merkilegt hvað þau vaxa með manni. Fæstum er ég orðinn þreyttur á. Mig langaði þó að nefna marga fleiri sem komast ekki fyrir hér. Yellowman var albínói, munaðarlaus og fátækur, sem fór að syngja/rappa mjög skemmtilega um stúlkur og ástir. Svo heitir hann Yellowman (og segir meira að segja Sin Fang í þessu lagi ef grannt er hlustað).


Góðar stundir, lífið verður bara betra :)

Ykkar einlægur,

Arnljótur Sigurðsson

Mynd: Håkon Broder Lund