10 eftirlætishlutir Steinunnar Harðardóttur

Steinunn Harðardóttir, betur þekkt sem tónlistarmaðurinn dj. flugvél og geimskip, bauð ljósmyndara Stúdentablaðsins í heimsókn á fjölskrúðugt heimili sitt í Vesturbænum. Hér deilir hún 10 eftirlætishlutum sínum með lesendum.

1. Barinn

Þetta er listaverk eftir Helga Thorsson sem bjó hérna á undan okkur, hann smíðaði barinn sjálfur úr tunnu og lampa sem hann setti saman og lakkaði. Við köllum skápinn Godd því hann er svolítið líkur Goddi; hann er stórglæsilegur en hann veit líka af því sjálfur.

2. Veggskápur

Þessi skápur fylgdi líka íbúðinni. Gulla, sem bjó hér áður, fékk hann á skransölu einhvers staðar og sagði mér að hann væri handgerður, sem er augljóst. Einhver smíðaði þennan skáp og var geðveikt ánægður með hann. Það eru mörg leynihólf á honum sem nýtast vel… v(*v*)v

3. Sjálfspilandi gítar

Þetta er geðveikur gítar, hann getur haldið partíinu gangandi klukkutímunum saman. Við tókum hann með á Norðanpönk og það var spilað á hann í þrjá sólarhringa stanslaust. Ég þoli ekki fólk sem kemur með kassagítar í tjaldferðalög og tek þennan frekar með af því hann býr til rafmagnshljóð.

4. Dansandi björn

Hann dansar, hann syngur og kemur öllum í stuð hvenær sem er. Hann syngur einhvern næntís slagara, voða sexí lag: „I don’t want you for the weekend, I just want you for the night“. Ég gaf Gullu vinkonu minni hann í afmælisgjöf en svo er ég  búin að nota hann svo mikið sjálf að hann er orðinn batteríslaus.

5. Diskóljós

Diskóljósið segir sig sjálft, það skín og gerir allt flott. Við höfum oft kveikt á því í stofunni um helgar en það var ekki fyrr en seint og um síðir að við tókum eftir því að diskóljósið endurkastast á blokkina á móti, það lýsist allt upp í litum og sést í allri götunni.

6. Krabbahúfa

Þetta er húfa sem aðdáandi gaf mér á tónleikum þegar ég var að spila í Noregi, hann var búin að búa hana til sjálfur! Það finnst mér mjög fallegt.

7. Synthesizer

Fyrst þegar ég byrjaði að spila voru allir að spyrja hvort ég notaði syntha við að búa til tónlistina mína. Ég vissi varla hvað það þá var en hugsaði að ég yrði að eignast syntha sjálf. Ég fann þennan sem var talsvert ódýrari en flestir, maður setti hann saman sjálfur. Ég er ógeðslega ánægð með hann. Hann er gegnsær og lýsir í myrkri, hljómar eins og stórt hljómborð þrátt fyrir að vera lítill og hann er þar að auki með svona filter sem gerir ýmis austræn hljóð, skrýtin sítarhljóð og austræna skala.

8. Magic 8 kúla

Þetta er kúla sem systir mín gaf mér einu sinni í jólagjöf þegar við vorum litlar. Ég hef notað hana við allar stærstu ákvarðanatökur í lífi mínu.

9. Pomeranian-fiskurinn

Þegar ég var með útgáfutónleika í sumar bað ég alla að koma með föndraða fiska og sjávardýr með sér. Þá kom einhver með þennan handa mér í gjöf og útskýrði að þetta væri pomeranian-fiskur. Pomeranian-hundur er eiginlega uppáhaldsdýrið mitt, þannig ég hef elskað hann síðan og hef hann alltaf hjá mér í studióinu.

10. Þrívíddargleraugu

Þegar maður setur á sig þessi þrívíddargleraugu breytast öll ljós þannig að í kringum hvert og eitt ljós birtast fullt af litlum marglitum ljósum. Öll ljós verða í raun eins og flugeldar með þessi gleraugu, sem er frábært.


Myndir: Ásta Karen Ólafs