Plöntuveggur Stúdentakjallarans

Í iðrum Háskólans, í  hinum víðfræga Stúdentakjallara, vex blómlegur og bústinn plöntuveggur sem lífgar upp á tilveru bugaðra nemenda skólans (á þeim dögum þegar bjórinn dugar ekki til). Veggurinn er aðallega hugsaður fyrir stúdenta sem geta aldrei með nokkru móti öðlast græna fingur og drepa hverja einustu plöntu sem kemur inn fyrir þeirra dyr.

En bókhlaðnar stúdentaíbúðir þurfa kannski oftar en ekki að láta sér nægja rykfallin gerviblóm úr dánarbúi ömmu. Plönturnar sem prýða vegginn eru nefnilega sprelllifandi. Hönnunin kemur upphaflega frá Hollandi en það var hönnuður Stúdentakjallarans, Rúna Kristinsdóttir, sem fékk þá hugmynd að setja slíkan vegg upp til að auka birtu og hlýju í Kjallaranum.

Þó að það væri verðugt og skemmtilegt verkefni fyrir stúdenta að vökva og hugsa um plönturnar í sameiningu þá býr veggurinn yfir góðum tæknibúnaði sem sinnir öllum þörfum plantnanna. Það eina sem gestir Stúdentakjallarans þurfa því að gera, er að njóta.

Skemmtilegar staðreyndir um plöntuvegginn:

  • Sírennsli er í plöntuveggnum sem Blómaval sér um að viðhalda.
     
  • Rennslið vökvar plönturnar og streymir niður eftir veggnum eftir ákveðnu kerfi.
     
  • Tímastilltir ljóskastarar lýsa á plönturnar að næturlagi og líkja eftir „dagsbirtu“ en þar til gerð „næturbirta“ skín síðan á þær að degi til.
     
  • Plönturnar eru allar lifandi og mest áberandi er burkninn, sem er heppileg húsplanta sem krefst lítils viðhalds.
     
  • Plöntur losa um stress, auka einbeitingu og eru þar að auki náttúruleg loftræsting.


Samantekt: Díana Sjöfn Jóhannsdóttir
Mynd: Håkon Broder Lund