Sendibréf frá skiptinema: Elín Margrét

Það tók ekki marga daga í París til að átta sig á því að allar klisjurnar eru sannar. Í lok ágúst á síðasta ári stakk ég af til Frakklands og hóf skiptinám við háskólann Sciences Po í París sem er þekktur fyrir nám á sviði stjórnmálafræði og alþjóðasamskipta. Ég get svarið það, ég var búin að vera í París í fjóra daga þegar mér varð ljóst að já, hér borða allir croissant, drekka espresso, reykja, ganga um með hatt og eru í sleik á almannafæri. Paris, la ville de l’amour. Að vera einhleypur í París er kannski dálítið eins og að vera einn á jólunum, en það er allt í lagi því það er svo margt annað til að elska.


Frakkar gefa sér einnig góðan tíma í hádegismat og oftar en ekki að minnsta kosti eitt glas af Bordeaux til að skola niður ostunum. Áður en langt var um liðið var ég sjálf ekkert skárri en Frakkarnir. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég stóð sjálfa mig að því að bölva túristum sem urðu á vegi mínum þar sem ég strunsaði yfir Pont des Arts haldandi á baguettinu mínu verðandi of sein í tíma.

Frönsk skriffinska er önnur sönn kjaftasaga. Hér er 100% skyldumæting í alla áfanga og þeir gefa sér þrjá mánuði í að skila einkunnum. Skiptinámið er þó klárlega þess virði þótt það sé ekkert grín. Algengt er að virkni og þátttaka í tímum gildi 30% af lokaeinkunn og ef þú mætir ólesinn í tíma geturðu auðveldlega komið þér í hann krappan. En jú, ég er víst hingað komin til að læra. Þrátt fyrir það gefst stundum tími til að eyða kvöldstund við bakka Signu eða við Eiffel turninn og sötra rautt með nýjum vinum, skoða söfn eða laumast inn á tískusýningar. Þið haldið kannski að ég sé að ýkja en þetta er allt satt. París er draumur.

 

Ástarkveðja frá París,

Elín Margrét Böðvarsdóttir

nemi í Stjórnmálafræði