Sigurður Pálsson í krísu

Í aðdraganda útgáfu fjórða tölublaðs Stúdentablaðsins þetta skólaárið ákvað ritstjórn að fá til liðs við sig nokkra þekkta einstaklinga. Þema næsta blaðs er hin svokallaða „25 ára krísa“ og fengu þau það verkefni að segja stuttlega frá sér á þessum árum með þeim hætti sem þeim hugnaðist. Þátttakendur eru úr ólíkum hornum samfélagsins og teflum við þeim hér sem fulltrúum sinnar kynslóðar. Fyrstur til þess að ríða á vaðið er hinn þekkti og þjóðkunni, rithöfundur og skáld, Sigurður Pálsson fæddur 1948.

Rithöfundur á tímamótum

Svo gerðist það, að sigldi upp í vitundina þanki sem hafði verið að trufla mig langalengi. Ég var að verða 25 ára, það stóð til að það gerðist 30. júlí. Ég bara vaknaði upp við það skelfingu lostinn að alla tíð hafði ég verið klár á því að ég yrði ekki 25 ára. Það kom til af því að faðir minn átti þrjá bræður sem dóu ungir, tveir í bernsku, einn varð, hélt ég, 24 ára. Þau systkinin voru tíu og sjö komust til fullorðinsára.

Ég hafði algjörlega misskilið tvennt. Í fyrsta lagi hélt ég staðfastlega að allir bræðurnir þrír sem dóu hafi heitið Sigurður, en það var bara sá þriðji, sá sem varð tuttugu og fjögra, hinir hétu Sigtryggur. Ég átti reyndar að verða stelpa, stóð til að ég héti Sigurborg í höfuð föðurömmu minnar, það plan klikkaði, ég var skírður Sigurður á fimmtugsafmæli pabba. Ennfremur hafði ég misskilið annað lykilatriði, Sigurður föðurbróðir minn, berklaveiki snillingurinn, hann dó ekki 24 ára heldur 21 árs.

Með annarri ríghélt árásarmaðurinn nötrandi í skyrtuna, með hinni var hann kominn með rýting undir hökuna á mér.

En hvað um það, þessi meinloka að ég yrði ekki eldri en nafni minn og föðurbróðir, ég hafði gengið með hana langalengi og engum sagt frá og reyndar ekki haft neinar áhyggjur af þessu, þetta voru örlög mín, þau biðu þarna inni í framtíðinni. Meinloka sem var ekki einu sinni byggð á réttum árafjölda, ég hefði átt að verða stressaður þegar ég var tuttugu og eins árs!

En hvað um það, meinlokan var alveg harðlæst og lokuð um þessa tilfinningu: Þú verður ekki 25 ára, þú deyrð áður! En núna var þetta bara að bresta á!

Ég hélt áfram með Glæp og refsingu, ekki var það til þess fallið að róa mig. Þá er ég eitt kvöldið að koma heim, aleinn á ferð, enginn lengur í borginni sem ég þekkti, kem niður Monge-götu, fáir ef nokkrir á ferli, þá er þrifið í mig, ég er keyrður inn í húsasund, upp að vegg. Með annarri ríghélt árásarmaðurinn nötrandi í skyrtuna, með hinni var hann kominn með rýting undir hökuna á mér. Mannfjandinn titraði svo mikið að aðalverkefni mitt var eiginlega að róa hann niður, seilast í veskið og láta hann hafa þessa franka sem ég var með, fékk að halda pappírunum. Þetta var greinilega maður sem notaði sterk efni sem hann hafði ekki fengið í allnokkra hríð og vantaði illa.

Svo var hann hlaupinn. Ég hélt áfram heim, eiginlega rólegur, þetta var svo óraunverulegt, hafði tekið svo stuttan tíma. Gekk þokkalega að sofna.

En svo kom sjokkið. Ég vaknaði bullsveittur af skelfingu um miðja nótt. Haldinn ofboðslegum ótta. Hélt áfram með Dostó. Fékk ávæning af mígrenikasti í morgunsárið. Signa rennur þarna rétt hjá, hvernig væri að hjálpa örlögunum, ég verð hvort sem er ekki tuttugu og fimm ára, þau tímamörk nálgast. Vél tímans malar af skelfilegu öryggi.

Man ég ældi úti í pínulitlum húsagarði, gengið þangað úr herberginu mínu, garðurinn tæplega nema sirka tvær grafir að flatarmáli, ekkert nema veggir hússins og fangelsislegur smábútur af himni efst uppi.

Svo er ég loksins búinn með Glæp og refsingu, illa sofinn, víbrandi allur, reyndi að róa mig niður með hvítvíni, það hafði snaröfug áhrif, Torn & Frayed á fóninum… Allt snerist með Exile on Main street í hitakófinu.

Bók um þessi ár Sigurðar Pálssonar: Minnisbók

Bók um þessi ár Sigurðar Pálssonar: Minnisbók

Ég vaknaði upp af martröð. Náði landi eftir þessa 25 ára afmæliskrísu, afgreiddi í eitt skipti fyrir öll “sjálfsmorðssælu unglingsins” eins og Sigfús kallaði það.

Ég vakna upp við það að ég er staddur á Pub St. Germain, stað sem er opinn allan sólarhringinn, ég veit ekkert hvort er nótt eða dagur, en við borðið við hliðina á mér situr fólk, þau horfa á mig frekar stressuð, ég vaknaði eiginlega upp í miðri sögu sem ég er að segja þeim með miklum smáatriðum og sannfæringarkrafti, sem sagt, ég er að segja þeim frá því hvernig ég fór að því að drepa gamla konu með öxi. Ég var kominn í hlutverk Raskolnikovs.

Þetta atvik nægði mér til þess að ná áttum, tengjast aftur veruleikanum. Ég vaknaði upp af martröð. Náði landi eftir þessa 25 ára afmæliskrísu, afgreiddi í eitt skipti fyrir öll “sjálfsmorðssælu unglingsins” eins og Sigfús kallaði það.

Nóttina á eftir dreymdi mig Sigurborgu ömmu mína. Hana sá ég aldrei, hún dó þrettán árum áður en ég fæddist, skeikar einum degi. Úr draumnum mundi ég ekkert nema afar glaðvært andrúmsloft. Mér er nær að halda að hún grípi stundum inní þegar hlutirnir eru að fara út í vitleysu.

Þegar ég kom heim blasti við mér þegar ég leit á umslagið utan um Exile on Main Street að síðustu þrjú lögin á B-hlið síðari plötu númer tvö, sem sagt lokin á albúminu, þessi þrjú lög heita Stop Breaking Down, Shine a Light og Soul Survivor. Þetta virkaði á mig eins og skilaboð.

Skrif þessi birtust fyrst í bók Sigurðar „Minnisbók“. Textinn er birtur með leyfi og að ósk höfundar.

Umsjón: Kristinn Pálsson