„Allir eru að taka þetta“

Misnotkun háskólanema á örvandi lyfseðilsskyldum lyfjum þekkist víða um heim en nemar neyta þessara lyfja til að auka einbeitingu við lærdóm og minnka svefnþörf. Virka efnið í lyfjunum sem um ræðir er ýmist amfetamín eða metýlfenídat en lyfin fást gegn lyfseðli og eru yfirleitt ávísuð sem meðferð við athyglisbresti, ofvirkni og drómasýki.

Misnotkun á lyfjunum hóf að aukast gríðarlega upp úr aldamótum. Vöxtinn má rekja til aukinnar greiningar á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD) en snemma á 10. áratugi síðustu aldar varð ákveðin sprenging í greiningu á sjúkdómnum, sérstaklega hjá börnum. Í kjölfarið jókst framleiðsla á amfetamíni í Bandaríkjunum um 5767% frá árunum 1993–2001. Aukin framleiðsla og fjölgun uppáskrifta greiddi aðgengi almennings að lyfseðilsskyldu amfetamíni til muna og það skilaði sér fljótlega inn í háskólaumhverfið. Misnotkun háskólanema á örvandi lyfseðilsskyldum lyfjum hefur verið rannsökuð talsvert í Bandaríkjunum en í rannsóknir sýna að hlutfall nemenda sem nota slík lyf í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum sé á bilinu 5–34% þar í landi.

Engar tölur liggja fyrir um notkun örvandi lyfseðilsskyldra lyfja meðal íslenskra háskólanema en Stúdentablaðinu hafa borist vísbendingar úr nokkrum áttum um misnotkun íslenskra háskólanema á slíkum lyfjum. „Það eru allir að gera þetta, að minnsta kosti mjög margir sem ég þekki,“ fullyrðir Kristjana – grunnnemi í HÍ. Auðun, einnig grunnnemi í HÍ tók í sama streng: „Vittu til, þetta er allt í kringum þig og í rauninni eru miklu fleiri að gera þetta en þú heldur,” segir hann.

Lyfin sem notuð eru í þessum tilgangi hér á landi eru helst Ritalin og Concerta. Bæði innhalda þau virka efnið metýlfenídat sem er skylt amfetamíni og hefur örvandi áhrif á miðtaugakerfið. Lyfin eru ætluð þeim sem glíma við athyglisbrest með ofvirkni (ADHD). Samkvæmt frétt sem birtist á Rúv.is fyrr á árinu eiga Íslendingar heimsmet í notkun metýlfenídatslyfja. Frá árunum 2004 til 2014 jókst notkun þeirra um 233% og hefur ávana- og fíkniefnanefnd Sameinuðu þjóðanna (INCB) ítrekað gert athugasemdir við þessa miklu notkun Íslendinga. 

„Glósaði eins og brjálæðingur“

Stúdentablaðið hafði samband við Kristjönu og Unu sem eru grunnnemar í Háskóla Íslands. Þær hafa báðar neytt lyfsins Concerta án lyfseðils og samþykktu þær að veita Stúdentablaðinu viðtal og lýsa reynslu sinni. Öllum þremur heimildamönnum okkar, Unu, Kristjönu og Auðuni hafa verið gefin dulnefni sem þau ganga undir í þessari umfjöllun.

Kristjana og Una upplifðu báðar aukna einbeitingu eftir að hafa tekið inn Concerta og fannst þeim lyfið hjálpa sér að læra mikið efni á stuttum tíma. „Mér fannst eins og hausinn minn væri mjög léttur, ég settist bara niður og opnaði námsbókina í fyrsta skipti, las og glósaði eins og brjálæðingur í sex tíma. Eftir það fékk ég reyndar hrikalegan hausverk,” segir Una. Kristjana lýsti upplifuninni sinni á þessa leið: „Mér fannst eins og það væri búið að þjappa öllu saman í hausnum á mér, það er erfitt að útskýra það. Ég vissi bara alveg hvað ég var að fara gera og hvernig ég átti að gera það. Hlutirnir voru ekki óyfirstíganlegir lengur.” Kristjana og Una nefndu báðar að þær vissu ekki að hversu stórum hluta lyfið virkaði á þær í raun eða hvort að einbeittur vilji og hugmyndin um að lyfið væri að hafa þessi áhrif hafi einnig spilað stórt hlutverk. „Mér fannst þetta virka en ég held að þetta sé líka hluta til sálrænt, ég var búin að ákveða að núna væri hausinn minn farinn í gang og nú myndi ég bara setjast og klára þetta,” segir Kristjana.

Þótt Una og Kristjana geri sér ekki grein fyrir því hvort áhrifin hafi að hluta til verið lyfleysuáhrif eða hvort þau hafi verið ósvikin er staðreyndin sú að lyf á borð við Concerta hafa í flestum tilfellum örvandi áhrif, stuðla að einbeitingu og minni svefnþörf. Mikill misskilningur er þó að örvandi lyfseðilsskyld lyf geri mann endilega klárari. Í viðtali við tímaritið The New Yorker sagðist lýsti Harvard-neminn Alex því hvernig hann neytti örvandi lyfseðilsskyldra lyfja í námi sínu, þá helst við ritgerðarskrif. Hann lýsti vinnulagi sínu þannig að í upphafi legði hann drög að ritgerðinni og skipulagði í þaula hvað hann ætlaði að skrifa en síðan tæki hann einn skammt af lyfinu Adderall og skrifaði ritgerðina í einum rykk. Lyfið hjálpaði honum að eigin sögn að „ljúka verkinu af“ en dugði skammt til þess að móta verkið sjálft. „Þegar ég lít aftur á ritgerðir sem ég hef skrifað undir áhrifum eru þær oft langorðar og tyrfnar,“ segir Alex og bætti við að röksemdafærslurnar misstu gjarnan marks því þær drukknuðu í orðum.

Ákvarðanir sem teknar eru undir áhrifum örvandi lyfja þurfa heldur ekki endilega að vera skynsamlegar. Viðmælandi The Guardian lýsti því hvernig hann sökkti sér í að endurraða tónlistarsafninu sínu í iTunes eftir að hafa tekið lyfið Modafinil, sem hefur líkt og Ritalin og Concerta örvandi áhrif á miðtaugakerfið, í stað þess að vinna að skólaverkefninu sínu. Að sama skapi þekkist að fólk undir áhrifum taki það upp hjá sjálfu sér að þrífa og taka til af miklum móð í stað þess að læra.

Viðmælendur Stúdentablaðsins, Kristjana og Una, voru sammála um að vilja frekar geta einbeitt sér og lært af sjálfsdáðum og ekki finna fyrir pressu að taka Concerta í hvert skipti sem stressið knýr að dyrum. Kristjana nefndi einnig að hún ætlaði sér að stíga varlega til jarðar þar sem henni fannst mjög trúlegt að fólk yrði háð þessu, bæði líkamlega og andlega, með mikilli notkun.

Lyfin eru ekki hættulaus

Samkvæmt Magnúsi Jóhannssyni lækni og prófessor í líflyfjafræði við HÍ, Lárusi S. Guðmundssyni lyfjafaraldsfræðingi og Ólafi B. Einarssyni verkefnastjóra hjá Lyfjaeftirliti embættis landlæknis er skaðsemi lyfja, þar sem virka efnið er metýlfenídat, enn óþekkt. Það er þó alls ekki hættulaust, hvorki fyrir þá sem greindir eru með ADHD né þá sem ekki eru greindir. Samkvæmt Magnúsi, Lárusi og Ólafi er lyfið mjög ávanabindandi og hefur sínar hættur. Til að mynda fær einstaklingur með athyglisbrest með ofvirkni lyfinu ekki ávísað fyrr en búið er að ganga úr skugga um að engin undirliggjandi hjartavandamál séu til staðar. Lyfið hækkar blóðþrýsting og getur valdið ýmsum aukaverkunum, eins og skjálfta og hjartsláttartruflunum.

Virknin svipar til amfetamíns og kókaíns fyrir einstakling er ekki þjáist af ADHD. Að þeirra sögn er virkni lyfsins þó ekki tryggð, í aðeins 80% tilfella virkar það fyrir greinda einstaklinga, og er ekki vitað hlutfallið meðal ógreindra einstaklinga. Notkun á lyfinu hefur, eins og áður hefur komið fram, aukist mjög síðustu ár. „Þegar við vorum að læra á 7. áratugnum drukkum við bara kaffi og tókum koffíntöflur,” segir Magnús. „Nú vilja allir eitthvað sterkara.“

Notkun á lyfinu skerpir vitaskuld athygli og gerir neytandanum kleift að einbeita sér að einum hlut í langan tíma. Það er þó engin trygging fyrir því að allt sem maður les undir áhrifum sitji eftir í minninu þegar áhrifin dvína. Óvíst er hvaða áhrif neyslan hefur á dómgreind manns og mörg dæmi eru um að sjálfsálit neytenda hækki til muna. „Manni finnst manni kannski ganga ótrúlega vel en í raun er maður að standa sig frekar illa og veit aldrei af því,” segir Ólafur. Aukaverkanir lyfjanna geta einnig unnið gegn manni. „Ég þekki dæmi um einn sem tók beta blocker [hjartalyf sem einnig verkar á kvíða] áður en hann fór í lokapróf en lyfið gaf honum svo mikinn skjálfta að hann gat ekki klárað prófið og féll,” segir Lárus. Að taka lyf sem skerpir einbeitingu eða lækkar kvíða þarf því alls ekki að þýða betri námsárangur.

Áhyggjur Lyfjaeftirlitsins felast aðallega í því að lyfið leiði til neyslu á harðari efnum. Árið 2012 voru 34 andlát tilkynnt vegna lyfjaeitrana. Þegar andlát af þessum völdum ber að garði er skoðað hvaða lyf finnast í fórnarlömbunum og hverju þau fengu ávísað. Við skoðun á þessum 34 einstaklingum fundust metýlfenídat-tengd lyf í líkama níu þeirra, en aðeins einn hafði fengið því ávísað. Það má ekki draga þá ályktun að metýlfenídat-lyfin hafi verið það sem dró einstaklingana til dauða, en öll viðvörunarljós eru kveikt þar sem augljós tengsl eru á milli neyslu á metýlfenídati og harðari vímuefnum.

Auðvelt að verða sér úti um lyfið

Þeir sem verða sér úti um lyf á borð við Concerta gera það með ýmsum leiðum. Oftar en ekki er það í gegnum þriðja aðila. „Þeir sem fá lyfinu ávísað selja það til millimanns sem selur það svo til kaupenda, hvort sem það eru háskólanemar eða fíklar. Viðskiptin eru mjög miðuð við samskiptamiðla, á tímabili fékk Lyfjaeftirlitið mjög margar ábendingar vegna Facebook síðna með órekjanlegum númerum sem seldu metýlfenídat-tengd lyf,” segir Ólafur. Facebook er vissulega öflugur söluvettvangur fyrir eiturlyf hér á landi en greint var frá því í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 í maí 2013 að viðskiptin færu fram í lokuðum grúppum. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, lýsti í sjónvarpsfréttunum áhyggjum sínum af þessum skipulögðu viðskiptum og taldi málið grafalvarlegt. Brýndi hann fyrir foreldrum að hafa augun opin fyrir hópum sem þessum. Ekki hefur enn tekist að útrýma grúppunum enda líklegt að nýjar spretti upp þegar öðrum er lokað.

Þó eru ekki nærri því allir sem kaupa lyfið af þriðja aðila. Auðvelt virðist vera að fá uppáskrift að Concerta og Ritalini hjá lækni, jafnvel fyrir þá sem ekki eru greindir með athyglisbrest með ofvirkni. „Vert er að minnast á það að hver sem er getur fengið lyfjunum ávísað, ADHD greining þarf ekki að liggja fyrir. Ef greining liggur fyrir fær sá einstaklingur lyfin niðurgreidd af sjúkratryggingum. Strax má setja spurningamerki við þetta, því aðgengið er mjög auðvelt og skýrir það ef til vill að hluta til faraldinn,” segir Ólafur. Hann bætir við að ný löggjöf varðandi ávísun lyfja þar sem virka efnið er metýlfenídat sé langt komin þótt ekki sé vitað hvenær hún komist í gagnið.

Stúdentablaðið hefur jafnframt fengið vísbendingar um að laus reglurammi við afhendingu lyfja í apótekum geri fólki kleift að svíkja út lyf. Heimildarmaður Stúdentablaðsins sagðist þekkja mýmörg dæmi um að fólk frétti af einhverjum sem hafi lyfseðil í höndunum og misnotar persónuupplýsingar þess með því að fara sjálft í apótek og taka út Concerta á því nafni. Einhverjir gera þetta eflaust til þess að spara sér pening en götuverðið á Concerta er hátt. Kristjana segir að verðið á einu lyfjaglasi, sem inniheldur 28–30 töflur geti nálgast 80.000 krónur í prófatíð. Verð einnar töflu er samkvæmt því tæpar 3000 krónur. Þess ber að geta að samkvæmt lyfjalögum 93/1994 er með öllu ólöglegt að selja lyf nema þeir aðilar hafi hlotið til þess leyfi frá Lyfjastofnun.

Kynslóð sem á erfitt með að einbeita sér

Neysla háskólanema á örvandi lyfseðilsskyldum lyfjum hefur gjarnan verið bendluð við bandaríska úrvalsháskóla á borð við Harvard og MIT. Sú staðreynd að neysla í þessum skólum sé algeng kemur kannski ekki á óvart enda eru þessir skólar þekktir fyrir krefjandi nám og harða samkeppni.

Viðmælendur Stúdentablaðsins voru þó sammála um að pressan væri ekki of mikil í Háskóla Íslands heldur kenndu þær eigin trassaskap um. Kristjana og Una ákváðu að taka Concerta í fyrsta skipti vegna prófa eða mikilvægra verkefnaskila. Þetta var skyndilausn við knöppum tíma og skipulagsleysi. „Ég var að læra undir próf uppi í skóla en náði ekki með nokkru móti að einbeita mér. Þetta [Concerta] hefur verið mikið í kringum mig en mig langaði ekki að taka þetta í mjög langan tíma. En þennan dag þurfti ég að læra rosalega mikið á stuttum tíma og ákvað því að prófa taka eina töflu,“ segir Una um sitt fyrsta skipti. Kristjana tekur í sama streng: „Ég var búin að sinna skólanum rosalega lítið í tvær vikur vegna kosningabaráttu fyrir Stúdentaráð og datt alveg út úr skólanum. Það var svo mikið sem ég þurfti að læra og mér þótti það bara óyfirstíganlegt og vissi að ég þyrfti eitthvað „boost” til að byrja.”

Una hefur tekið Concerta í þrígang síðan þá en segist samt ekki þykja það sjálfsagt mál að taka lyfið. „Ég vildi auðvitað geta sleppt því að taka þetta og gert þetta án hjálpar. Fyrir mér er þetta algjörlega lokaúrræði.” Kristjönu þykir þetta hins vegar ekkert stórmál og myndi taka þetta oftar ef hún gæti. „Ég væri alveg til í að taka þetta um það bil einu sinnu í viku ef það væri í boði, bara til að skerpa og ná upp lærdóm vikunnar. Þetta hvetur mig áfram,“ segir Kristjana.

Kristjana og Una telja sig ekki glíma við athyglisbrest. Auðun, einn af heimildarmönnum Stúdentablaðsins, var þó viss um að hann glímdi við athyglisbrest sjálfur en þrátt fyrir það hafði hann ekki enn fengið greiningu og kaus um sinn að kaupa lyfið Concerta á götunni. Una talaði þó um persónulega upplifun af „áunnum athyglisbresti“ sem væri afleiðing af því stöðuga áreiti sem nútímatækni hefur í för með sér. „Ég held ég sé mögulega bara með áunnin athyglisbrest vegna snjallasíma og því endalausa úrvali af afþreyingu sem virðist hafa framleitt kynslóð sem á afar erfitt með að einbeita sér að einhverju einu og sér því ekkert því til fyrirstöðu að taka lyfseðilsskyld lyf til að breyta því,” segir Una að lokum.


Grein eftir Arnór Stein Ívarsson, Birnu Stefánsdóttur og Nínu Hjördísi Þorkelsdóttur

Teikningar: Elísabet Rún Þorsteinsdóttir