Margrét Erla Maack í krísu

Síðasti gestapenni Stúdentablaðsins að sinni er hin fjölhæfa sjónvarpskona Margrét Erla Maack. Ekki er nema rúmur áratugur frá því að Margrét átti sína 25 ára krísu en hún er fædd 1984. Margrét er fjórða í röðinni sem fjallar um þema næsta Stúdentablaðs með þessum hætti í aðdraganda útgáfu blaðsins en blaðið er fullt af greinum og umfjöllunum um þetta efni.

Margrét

Magadansmær í ástarsorg vinnur í happdrættinu

Aldarfjórðungskrísan mín átti sér stað í febrúar árið 2007 þegar ég var 23 ára. Ég var komin inn í mjög fínan skóla í London og átti þá í fjarsamandi við Lundúnabúa. Þegar ég var á leiðinni til hans að segja honum gleðitíðindin sleit hann sambandinu símleiðis. Ég hætti því við skólavistina, af leiðinlegum og praktískum ástæðum.

Á þessum tíma var ég að læra ensku. Breskur hreimur var nóg til að fá mig til að grenja í tíma. En, óheppin í ástum, heppin í spilum – tveimur vikum eftir símtalið vann ég millu í Happadrætti Háskólans og þar með var það ákveðið: Að verja öllu sumrinu í New York. Þannig gat ég farið að hlusta á ensku á ný og einbeita mér. Ég sótti um að komast að í „advanced“ og einkatíma hjá Yousry Sharif, sextugum Egypta með yfirvaraskegg og bumbu, sem er einn af bestu magadanskennurum í heimi. Frábær týpa.

Ég var einmana fyrstu vikurnar þrátt fyrir að eiga frábæran meðleigjanda nokkra karaokevini. Einn þeirra hvatti mig til að koma á sketsasjóv sem hann var með einu sinni í viku með grínhópnum sínum, The Whitest Kids you Know. Þeir voru duglegir að fá alls kyns grínista með sér og smátt og smátt kynntist ég þeim og öðrum dedikeruðum aðdáendum.

Einn þeirra er Reggie Watts. Hann var heillaður af því að ég væri a) frá Íslandi og b) að læra magadans og reddaði mér prufu á hinum stórfurðulega kabarettastað The Box. Ég fékk föst gigg þar tvisvar, þrisvar í viku og kennarinn minn sá miklar framkomuframfarir. Þar að auki voru Whitest Kids að taka upp þættina sína og ég fékk að hjálpa til á settinu og vera stadisti, hjálpaði til við tískumyndatökur meðleigjandans og var líka vinningasýningardama í Drag Queen Bingo með Lindu Simpson.

You’ll find something. You can’t do anything alone, but you will find something.

Eitt kvöldið sátum við Reggie uppi á þaki í Greenpoint og hann spurði mig tæki við þegar ég færi aftur heim um haustið. Hjartað mitt sökk ofan í maga. “Ég ætla að fara aftur í skólann.”

“Oh, no you ain’t. You are a performer and an entertainer.” En, það var engin sena til heima fyrir þetta. Það var ekki einu sinni mið-austurlenskur veitingastaður sem ég gæti giggað á meðan fólk reykti hookah-pípur. Enginn bar með nógu mikilli lofthæð fyrir variety-sýningar… Hann gerði lítið úr þessu. “You’ll find something. You can’t do anything alone, but you will find something.”

Þegar heim var komið og aftur á skólabekk var einbeitingin til náms engin. Ég sökkti mér i kennslu í Kramhúsinu til að miðla því sem ég hafði lært um sumarið. Og svo var hengd upp auglýsing í Kramhúsinu: Ókeypis sirkustímar á sunnudagskvöldum.

Bingó. Þarna var fólkið sem ég var búin að vera að leita að. Ástralski götulistamaðurinn og trúðurinn Lee, eða Wally eins og margir þekkja hann, leiddi okkur í gegnum hinar ýmsu sirkuslistir. Níu árum síðar erum við 30 í sirkusfjölskyldunni, kennum börnum sirkuslistir, eigum okkar eigið tjaldi og erum á heimsmælikvarða.

Margrét í sirkustíma 2007.

Margrét í sirkustíma 2007.

Eftir þessa haustönn í Háskólanum flosnaði ég endanlega upp úr námi og byrjaði að vinna sem skrifta á RÚV. Ég skrópaði meira að segja í einu prófi til að fara í prufu. Þar fékk ég ástríðu fyrir dagskrárgerð.

Í dag er ég fjölmiðlakona, sirkusdýr, danskennari, DJ og karaokedrottning. Og ekkert af þessu hefði gerst ef ég hefði ekki náð botninum í ástarsorg í febrúar 2007. Já og unnið í happdrættinu líka.

Þegar ég hætti í náminu fannst mér ég vera að bregðast foreldrum mínum

Skynsemin snýst ekki eingöngu um að vera praktískur og öruggur, heldur líka um hvað gerir mann hamingjusaman. Þegar ég hætti í náminu fannst mér ég vera að bregðast foreldrum mínum en pabbi sagði að það þyrfti aldrei að ákveða hvað maður ætlaði að verða þegar maður yrði stór. „Ég er 57 ára og ég veit það ekki enn.“ Og svo er líka gott það sem Amma Erla segir: „Gott fólk hittir bara gott fólk.“

Lífskrísur eru ekki neikvæðar, þær eru mikilvægar. Þær eru eins og unglingaveikin: Lagast aldrei, maður lærir bara að lifa með sveiflunum.

Karaoke kvöld.

Karaoke kvöld.

Umsjón: Kristinn Pálsson