Hvernig metum við gæði kennslu?

Föstudaginn 15. mars var Kennslumálaþing haldið í fimmta sinn af Stúdentaráði, kennslumálanefnd, gæðanefnd og Kennslumiðstöð Háskóla Íslands. Þingið var haldið í fyrsta sinn árið 2012 að frumkvæði nemenda og síðan þá hefur verið blásið til þess árlega. Þingið er hugsað sem vettvangur fyrir samtal á milli kennara og nemenda um nám og kennslu við Háskóla Íslands. Þar hafa ýmis mál verið tekin fyrir, til að mynda var efnið í fyrra námsmat og endurgjöf og þar áður fjölbreytni í kennsluháttum. Í ár var yfirskriftin: „Hvernig metum við gæði kennslu?“

Þingið var haldið á Litla torgi og mættu mun fleiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þinginu stýrði Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs. Fyrri hluti þingsins fólst í fjórum inngangserindum sem voru eins konar upphitun fyrir þann síðari þar sem þátttakendur ræddu efnið.

Hvernig er kennsla metin í HÍ?

Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskóla Íslands, tók fyrstur til máls og fjallaði um hvernig kennsla væri metin við Háskóla Íslands. Magnús benti á að vísindasamfélagið hafi fyrir löngu komið sér saman um aðferðir til að meta árangur rannsókna en að varla væru til neinar almennt viðurkenndar aðferðir við að meta gæði kennslu. Hann taldi til ýmsar ástæður fyrir þessu misræmi. Almennt eru rannsóknir betur mælanlegar því að kennsla er „flókið, gagnvirkt, sálfræðilegt, vitsmunalegt og félagslegt ferli sem miklu erfiðara er að henda reiður á,“ eins og Magnús komst að orði. Þá hafa fjárhagslegir hagsmunir eitthvað að segja en þeir eru meiri á sviði rannsókna. Eitt dæmi um þetta ójafnvægi er að við ráðningu akademískra starfsmanna er fremur litið til árangurs og afkasta á sviði rannsókna en reynslu af kennslu. Til samanburðar er ólöglegt að ráða grunn- og framhaldsskólakennara án þess að þeir hafi í það minnsta fimm ára kennslunám að baki.

Loks varpaði Magnús fram fimm spurningum; hvað, hverjir, hvenær, hvernig og hvers vegna ætti að meta gæði kennslu. Í þeirri umfjöllun velti hann fyrir sér ýmsum hliðum málsins. Hvaða kennsluaðferð á að miða við? Á að leggja áherslu á kennarann eða námskeiðið? Eiga kennarar, nemendur eða óháðir sérfræðingar að meta kennsluna? Á að meta kennsluna á miðju misseri, í lok námskeiðs eða eftir að reynsla er komin á þekkinguna? Á að nota kennslukannanir eða greiningar utanaðkomandi aðila? Og svo framvegis. Engin skýr svör liggja fyrir við þessum spurningum en við síðustu spurningunni um til hvers ætti að meta kennslu voru svörin einna skýrust. Markmiðið hlyti að vera að tryggja gæði kennslu og náms, að hvetja til framþróunar og umbóta og að upplýsa núverandi og væntanlega nemendur, sem og almenning, um gæði kennslunnar.

Áhugi nemenda og kennara skiptir meginmáli

Næst tók Elísabet Brynjarsdóttir til máls fyrir hönd náms- og kennslumálanefndar SHÍ en nefndin hafði sent út könnun til allra nemenda og kennara Háskóla Íslands. Markmiðið var að ná til þeirra sem ekki hefðu kost á að sækja Kennslumálaþingið. Um 150 nemendur og um 30 kennarar svöruðu könnunarspurningunum þremur skriflega: Hvað er góð kennsla? Hvernig á að meta gæði kennslu? Hverjir eiga að meta gæði kennslu? Í svörum nemenda við fyrstu spurningunni var orðið áhugi mest áberandi; áhugi kennarans og nemandans, sem og hæfni kennarans til að vekja áhuga meðal nemenda og viðhalda honum. Einnig var nefnt gott skipulag á öllum þáttum námsins, fjölbreyttir kennsluhættir, tengsl við atvinnulífið, endurgjöf, skýr hæfniviðmið og að upplýsingarnar komist jafnt til skila til allra. Þeir kennarar sem svöruðu voru sammála nemendum um mikilvægi áhuga, skipulags og skýrra hæfniviðmiða en nefndu auk þess skapandi hugsun og virkni nemenda. Einn kennari tók svo til orða að góð kennsla væri þegar nemandi lærði betur en hann hefði nokkurn tímann gert á eigin spýtur.

Meirihluti bæði nemenda og kennara var sammála um að kennslukannanir væru eitt besta tólið til að meta kennslu svo lengi sem eftirfylgni væri góð. Nefndar voru ýmsar aðrar hugmyndir svo sem viðtöl við úrtakshópa nemenda, jafningjamat kennara og dulbúnir matsmenn í tímum. Áberandi munur var á svörum nemenda og kennara hvað varðar framtíðarsýn; nokkrir kennarar töldu að ekki væri hægt að meta gæði kennslu fyrr en að tíu árum liðnum á meðan flestir nemendur töldu matið eiga að fara fram nokkrum vikum eftir upphaf námskeiðs.

Í síðustu spurningunni lögðu nemendur mesta áherslu á að þeir sjálfir ættu að meta kennsluna. Einnig nefndu margir utanaðkomandi fagaðila. Atkvæði kennara um matsmenn skiptust hins vegar jafnt milli kennara og nemenda.

Í lokin benti Elísabet á að góð kennsla væri í rauninni ekki flókið hugtak – nemendur og kennarar væru nokkuð sammála: „Okkur kemur öllum saman um að hún sé vel skipulögð, markviss, fjölbreytt og áhugavekjandi. Flest teljum við mikilvægt að nemendur og kennarar eigi samtal, ekki eintal, og öll viljum við að hún skili sér í hæfum, sjálfstæðum og vel menntuðum nemendum. Kennslukannanir koma skoðunum nemenda á framfæri og við þurfum að fylgja þeim eftir. Kennarar eiga ekki að sitja hver í sínu horni heldur eiga þeir að hjálpast að, meta hver annan og læra hver af öðrum. Þetta snýst allt um samvinnu.“

Ný stefna Háskóla Íslands

Næsta erindi flutti Sigurður Magnús Garðarsson, prófessor og annar formanna stýrihóps stefnumótunar Háskóla Íslands. Hann fjallaði um hvað hin nýja stefna Háskóla Íslands 2016–2021 segði um mat á gæðum kennslu. Í skýrslunni er athyglinni beint að lykilsviðum háskólans; rannsóknum, námi og kennslu og virkri þátttöku. Á hverju sviði eru sett fram markmið og aðgerðir. Á sviði náms og kennslu, sem mat á gæðum kennslu fellur undir, eru sett fram sex markmið og af þeim eru tvö sem varða beint gæðamat kennslu. Innan þeirra markmiða eru þrjár aðgerðir sem beinast að mati á gæðum kennslu og munu niðurstöður kennsluþingsins m.a. vera notaðar við framkvæmd þessara aðgerða.

Kennslumat í öðrum löndum

Síðasta erindið flutti Guðrún Geirsdóttir, dósent og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar, um áhugaverðar aðferðir við mat á kennslugæðum í öðrum löndum. Guðrún benti á að hægt er að tala um fagvæðingu (e. professionalism) í kennslu nú á dögum – það er orðið mun flóknara að kenna en það var. Áður fyrr voru nemendahóparnir einsleitari, fáir unnu með skóla og allir voru áhugasamir. Nútímakennarar þurfi að búa til kennsluáætlun, setja hæfniviðmið, læra að nota Uglu og Moodle, o.s.frv.

Guðrún hefur kynnt sér fjölbreyttar aðferðir við kennslumat erlendis og tók sem dæmi hin bresku viðmið, The United Kingdom Professional Standards Framework, sem sett eru af yfirvöldum og Australian university teaching criteria and standards framework sem búið var til af fimm háskólum í vesturhluta Ástralíu og hefur verið í þróun síðustu ár. Í lokin tók hún saman það sem öll þau kerfi sem hún kannaði eiga sameiginlegt. Öll byggðu þau á víðri sýn á kennslu og gerðu ráð fyrir að kennsluhæfni væri stigvaxandi. Þau settu fram kröfu um að hægt sé að sýna fram á kennsluhæfni á fjölbreyttan hátt og að hægt sé að leggja mat á gæðin. Loks gerðu kerfin kennsluhæfni að aðalatriði í mats- og framgangskerfum háskólanna.

Samtal nemenda og kennara

Að loknum erindunum fjórum hófust umræður þátttakenda. Gestir sátu við mörg hringborð þar sem borðstjórar, skipaðir af náms- og kennslunefnd stúdenta og kennslunefndum fræðasviða, stýrðu umræðum. Í fyrstu umferð var reynt að finna hentug viðmið fyrir góða kennslu. Í síðari umferð var rætt um hverjir og hvernig ætti að leggja mat á gæði kennslu út frá þeim viðmiðum. Umræðurnar voru ákaflega líflegar og margar góðar hugmyndir komu fram. Borðstjórarnir skráðu niðurstöðurnar jafnóðum á veggspjöld sem hengd voru upp á torginu í lok umræðna. Þinginu lauk með því að boðið var upp á léttar veitingar og gestir gátu gengið um og skoðað niðurstöður allra umræðuborðanna.

Af erindum og umræðum á þessu þingi má ráða að það vantar hvorki áhuga né lausnir til að bæta mat á gæðum kennslu. Það eina sem þarf er samtal nemenda og kennara til að komast að samkomulagi. Kennslumálaþing 2016 hefur sannarlega lagt orð í belg í því samtali.

 

Texti, ljósmyndir og teikning: Elísabet Rún Þorsteinsdóttir