Háskólasvæðið: Listasafn Háskóla Íslands

IMG_2935f.JPG

Vissir þú að…

Háskóli Íslands á sérstakt listaverkasafn sem stofnað var árið 1980 eða fyrir 36 árum. Hann er eini háskóli landsins sem á eigið listasafn.

Listasafn Háskóla Íslands var stofnað með stórri listaverkagjöf hjónanna Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur. Við stofnun safns og síðar hafa þau gefið háskólalistasafninu um 250 málverk og nokkur hundruð teikningar og skissur. Flest gjafaverkanna eru eftir myndlistarmanninn Þorvald Skúlason og mynda þau sérstaka deild innan safnsins sem er nefnd Þorvaldssafn.

Þá hafa listamenn einnig gefið safninu stórar gjafir. Stærsta einstaka gjöf listamanns kom úr dánarbúi Guðmundu Andrésdóttur sem ánafnaði Listasafni Háskóla Íslands um 70 málverkum og Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur álíka mörgum verkum.

Safnið er mjög fjölbreytt þó abstraktverk séu í miklum meirihluta. Verkin sem eru keypt inn eru þó af ólíkum toga og á safnið í eigu sinni olíumálverk, teikningar, grafíkmyndir, ljósmyndir, höggmyndir og lágmyndir. Meðal listamanna sem safnið á verk eftir, fyrir utan Þorvald Skúlason, eru Guðmunda Andrésdóttir, Hörður Ágústsson, Eyborg Guðmundsdóttir, Karl Kvaran, Jón Stefánsson, Magnús Pálsson, Ragnheiður Jónsdóttir, Georg Guðni Hauksson, Ólöf Nordal, Anna Líndal, Hildur Bjarnadóttir, Katrín Sigurðardóttir, Tumi Magnússon, Davíð Örn Halldórsson og Sigtryggur Bjarni Baldvinsson. Telja þetta um 500 verk og um tvö þúsund teikningar og skissur.

Safnið kaupir einnig verk í gegnum fjárstyrki og regluleg framlög frá Háskóla Íslands sem samsvara 1% af því fé sem varið er til nýbygginga á vegum skólans.Til viðmiðunar eru reglur Listskreytingasjóðs ríkisins varðandi styrki til listaverkakaupa fyrir opinberar byggingar og umhverfi þeirra.

Fyrr á þessu ári var í fyrsta skipti unnið skemmdarverk á einu listaverka safnsins. Um var að ræða stafrænt prent á striga eftir Hallgrím Helgason úr Grim seríu, Can I Be With You, frá 2005. Margir kannast við verkið þar sem það hékk í Odda. Verkið var á sínum tíma keypt á á 350 þúsund krónur og dæmt ónýtt eftir skemmdarverkið. Ekki voru í kjölfarið gerðar breytingar á þeirri grundvallarstefnu Listasafns Háskóla Íslands að sýna verkin í almannarými, dreifð víða um háskólasvæðið, þannig að þau komi nemendum og starfsfólki reglulega fyrir sjónir. Hvetjum við því alla til þess að líta upp frá símum sínum af og til og virða fyrir sér listina.

Samantekt: Kristinn Pálsson