Klassísk tónlist fyrir byrjendur

Arngunnur Árnadóttir, fyrsti klarínettuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, valdi níu tónverk fyrir lesendur sem eru áhugasamir um klassíska tónlist en vita ekki hvar þeir eiga að byrja...

Síðan ég byrjaði í fullu starfi sem tónlistarkona fyrir fjórum árum hef ég hlustað sífellt minna á tónlist mér til yndisauka. Þetta hefur eitthvað með eyrnaþreytu að gera eða bara sígilda togstreitu vinnu og frítíma. Það var því gaman að fá fyrirspurn frá Stúdentablaðinu og tækifæri til að rifja upp hvað það var nú aftur sem mér finnst gaman að hlusta á.

18. öldin

Hér eru það risarnir Bach og Mozart sem koma fyrstir upp í hugann. Að mínu mati er engin þörf á að vera of töff fyrir það frægasta í klassískri tónlist – oft er góð ástæða fyrir því að sum listaverk verða ódauðleg. Ég ætla því að nefna tvo sívinsæla hittara: Sellósvíturnar eftir Bach og g-moll sinfóníu Mozarts.

1. Sellósvíta nr. 3 í C-dúr BWV 1009 eftir Johann Sebastian Bach (í flutningi Jean-Guihen Queyras).

Bach samdi sellósvítur sínar líklega á bilinu 1717–23. Þær eru sex talsins en ég valdi þá þriðju eiginlega af handahófi, geri ekki svo auðveldlega upp á milli. (Eða kannski er hún bara eftir allt saman í sérstöku uppáhaldi!) Svítan er í sex köflum sem allir bera nöfn mismunandi dansa frá barokktímabilinu, nema fyrsti kaflinn, Praeludium, sem getur þýtt forleikur eða forspil. Pablo Casals hlaut á sínum tíma heimsfrægð fyrir flutning sinn á svítunum, en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Það er um að gera, og á alltaf við hvað varðar klassíka tónlist, að bera saman mismunandi flutning og finna hjá sjálfum sér hvað maður fílar best.

2. Sinfónía nr. 40 í g-moll KV 550 (1788) eftir Wolfgang Amadeus Mozart (í flutningi The Chamber Orchestra of Europe undir stjórn Nicolaus Harnoncourt).

Margir hafa eflaust heyrt gullfallegan og áleitinn fyrsta kaflann út undan sér einhvers staðar. Annar kaflinn er óendanlega tær og elskulegur. Tónlist Mozarts er tónlist án aukaefna, hrein og tær, náttúruleg, mannúðleg… Mozart er eiginlega bara bestur!

19. öldin

19. öldin. Vá maður. Þá greiddi fólk lokka vel og vandlega við Galtará, trylltist úr lýrískri vatnsorkusálsýki, fór í langa göngutúra og söng svo um það: „Að ganga, að ganga!“ Lítum hér á dæmi:

3. Das Wandern úr ljóðaflokkinum Die Schöne Müllerin Op. 25 eftir Franz Schubert (í flutningi Dietrich Fischer-Dieskau og Gerald Moore).

Þvílík öld. Meiri tónlist:

4. Fiðlukonsert í D-dúr Op. 61 eftir Ludwig Van Beethoven (í flutningi Kyung Wha Chung og Royal Concertgebouw Orchestra undir stjórn Klauss Tennstedt).

Þetta er kannski mitt uppáhaldsverk allra tíma. Hvað er hægt að segja um svona tónlist? Good old Ludwig Van. Ég held einnig mikið upp á flutning kóreska fiðlusnillingsins, engir yfirkeyrðir fiðlustælar hér, bara öll þau smekklegheit sem hæfa þessari undurfögru tónlist.

5. Intermezzo nr. 2 í A-Dúr Op. 118 eftir Johannes Brahms (í flutningi Glenn Gould).

Þetta intermezzo er að finna meðal Sex stykkja fyrir píanó Op. 118 sem Brahms lauk við árið 1893. Fáum tekst jafn vel og Brahms að veita huggun í tónum. Gott er að grípa í þetta intermezzo til dæmis þegar heimurinn virkar sérlega fjandsamlegur eða ef maður er myrkfælinn.

20. öldin

Ef ég gæti ferðast í tíma þá veldi ég fyrir forvitni sakir að vera í Vín um aldamótin 1900. Allir voðalega klikkaðir þá eitthvað. Þegar Gustav Mahler lauk við sjöttu sinfóníu sína („þá tragísku“, eins og hún er stundum kölluð) árið 1904 brast hann í grát vegna þess hve djúpt tónlistin snerti hann og vegna þeirra illu fyrirboða sem honum fannst hún fela í sér. Margir hafa síðar sett sinfóníuna og „fyrirboða“ hennar í samhengi við dauða dóttur hans árið 1907 og hans eigin dauða árið 1911. Sinfónían byrjar á myrkum nótum og endar í vonleysi, þegar slagverksleikari slær þriðja og síðasta hamarshögg lokakaflans með gríðarstórum hamri. Sinfónía þessi er í miklu uppáhaldi hjá undirritaðri, ekki síst undurfagur hægi kaflinn sem oftast er númer þrjú í röðinni.

6. Sinfónía nr. 6 í a-moll eftir Gustav Mahler (í flutningi Lucerne Festival hljómsveitarinnar undir stjórn Claudio Abbado).

7. Le Tombeau de Couperin (fyrir hljómsveit) eftir Maurice Ravel (í flutningi Fílharmóníuhljómsveitar Berlínar undir stjórn Pierre Boulez).

Mér skilst reyndar að hin svokölluðu impressjónísku tónskáld hafi aldrei alveg samþykkt nafnbótina en hún loðir víst við þau samt. Le Tombeau de Couperin var upphaflega samið fyrir píanó, tónskáldið lauk við verkið árið 1917 en útsetti það fyrir hljómsveit 1919. Þetta var ekki eina skiptið sem Ravel útsetti píanótónlist fyrir hljómsveit, fræg er útsetning hans á Myndum á sýningu eftir Mussorgsky, en Ravel er álitinn einna færastur í tónlistarsögunni í „orkestrasjón“ eða raddsetningu fyrir sinfóníuhljómsveit. Með verkinu vottar Ravel 17. aldar tónskáldinu François Couperin virðingu sína sem og barrokksvítuforminu, en kaflarnir sækja nöfn sín í þá hefð. Ravel tileinkaði hvern kafla ástvini sem hafði látist á vígvöllum fyrri heimsstyrjaldar.

8. Strengjakvartett nr. 8 Op. 110 eftir Dmítrí Sjostakovítsj (í flutningi Kronos kvartettsins).

Sjostakovítsj samdi tónlist sína undir vökulum augum Stalín og félaga og litaðist ferill hans alla tíð af togstreitu listamanns í alræðisríki. Hinn harmþrungni áttundi kvartett var saminn í Dresden árið 1960 og er opinberlega tileinkaður „fórnarlömbum fasisma og stríðs“. Hins vegar hefur hann einnig verið álitinn sjálfsævisögulegur, samkvæmt vini tónskáldsins hugði Sjostakovítsj á sjálfsmorð og á kvartettinn að hafa verið hugsaður sem nokkur konar grafskrift. Upphafstónar verksins styðja meðal undir þetta en þeir eru D-Es-C-H og byggjast á þýskri stafsetningu á nafni tónskáldsins (D. Schostakovich). Kvartettinn er eitt ástsælasta verk Sjostakovítsj  og ber öll helstu aðalsmerki tónskáldsins, þar á meðal drunga og ískalt háð.

Að lokum eitt ómþýtt og gott frá árinu 1986 eftir ameríska minimalistann Steve Reich!

9. Six Marimbas eftir Steve Reich (í flutningi Bob Becker, Kory Grossman, Russ Hartenberger, James Preiss, Bill Ruyle og William Trigg).

HÉR er hægt að hlusta á lagalista Arngunnar í heild sinni.