Að blæða út

Ljósmynd/Vigdís Erla Guttormsdóttir

Ljósmynd/Vigdís Erla Guttormsdóttir

Orðaleikir einkenna titla ljóðabóka Eydísar Blöndal. Í september síðastliðnum gaf hún út sína aðra ljóðabók, Án tillits, en áður hefur hún gefið út ljóðabókina Tíst og bast. Eydís segir bækurnar tvær ólíkar sem skýrist af því að hún sjálf hafi breyst. „Ég hef þroskast mikið síðan ég gaf út Tíst og bast. Hún var unnin sem einhvers konar Twitterljóðabók en það er ekkert endilega minn stíll. Ég vildi auðvitað ekki gefa út bók sem væri alveg eins en það er þó eitthvað líkt með Tíst og bast og Án tillits; hnyttni, knappi stíllinn sem einkennir Tíst og bast kemur líka fyrir í Án tillits.“

Eydís gaf báðar ljóðabækur sínar út upp á eigin spýtur og segir það skemmtilegra en að gefa út í samráði við útgefanda. „Það er svo gott að hafa frjálsar hendur, hafa engan sem ritstýrir mér, sem er kannski galli líka. Ljóðin mín eru persónuleg og þurfa að koma frá hjartanu. Auk þess finnst mér gaman að sjá um bókhaldið og prentsmiðjuna og allt það. Að gefa sjálfur út er skemmtilegt bras og maður fær miklu meiri pening út úr því.“

Báðar ljóðabækur Eydísar hafa slegið í gegn og komust báðar á metsölulista Eymundsson. Eydís kom fram í Kiljunni og segir að þau Egill séu mestu mátar. Því er vert að velta fyrir sér hvort annars konar skáldskapur heilli hana. Aðspurð segir hún svo vera: „Það virðist vera ákveðið þema hjá ungum skáldum að gefa út ljóðabók og gefa svo út smásögubók. Ég var alveg smá komin þangað, en ég veit það ekki. Það er einhvern veginn svo eðlileg þróun, maður byrjar á að skrifa ljóð og þá er maður kannski kominn með heilsteyptari hugmyndir sem verða jafnvel að smásögum.“

Öll ljóðin í ljóðabókum þínum eru óbundin, hver er ástæðan fyrir því? „Ég skrifaði stundum bundið þegar ég var yngri en mér finnst það vera svo bindandi. Á þann hátt finnst mér ég ekki geta tjáð mig eins hreint og beint og ég vil.“

Í Tíst og bast var umfjöllunarefnið aðallega ástarsorg, hvert sækir þú innblástur fyrir Án tillits? „Það er nefnilega mjög fyndið. Þegar ég skrifa ljóð hef ég alltaf verið að skrifa þau út frá sorginni, maður er búinn að þjálfa sig mikið í því og er einhvern veginn orðinn vanur því. Svo allt í einu þegar ég var orðin hamingjusöm þá einhvern veginn gat ég ekki skrifað, hvað átti ég að skrifa? Nú er gaman, vei? Ef maður grandskoðar þessa bók, Án tillits, þá fattar maður að öll ljóðin mín um hamingjuna eru samanburður við sorgina. Ég áttaði mig eiginlega á því eftir á. Það er eins og ég geti ekki skrifað án þess að koma frá sorglega hlutanum og ástarsorginni.“

Sestu niður, ákveðin í að skrifa, eða koma ljóðin frekar til þín? „Ég sest mjög sjaldan niður til að skrifa ljóð. Það er algengara að mér detti eitthvað sniðugt í hug til að segja eða ég skrifa kannski óvart eitthvað sem mér þykir voða fallegt og ljóðrænt sem ég breyti í ljóð. Ég er ekkert sérstaklega hátíðleg þegar ég er að yrkja. Skáldið í mér er bara ég í tölvunni sem dettur eitthvað sniðugt í hug.“

Ljóðin hennar Eydísar eru mjög persónuleg og hún segir þau undantekningalaust vera skrifuð út frá sér sjálfri. „Þegar ég er að skrifa ljóð þá er ég alltaf að setja eitthvað í samhengi sem ég er að hugsa sjálf. Eftir að ég gaf út Tíst og bast fékk ég oft spurninguna: „Um hvern er þessi bók?“ , sem mér fannst alltaf svo pirrandi þar sem þessi bók var ekki um neinn sérstakan, eða í raun bara um mig. Ég vildi ekki vera að skrifa einhverja bók um fyrrverandi kærastann minn, það væri geðveikt skrýtið. Þetta eru bækur um mína upplifun og um mínar tilfinningar.“

Á forsíðu Án tillits er mynd af laki og sömuleiðis er mynd af laki framarlega og aftarlega í bókinni. Rauðir tónar eru áberandi á sumum síðum bókarinnar og fá lesandann til að velta fyrir sér hvort þeir hafi einhverja þýðingu. Eydís segir lakið vera myndefni bókarinnar í þeim tilgangi að framkalla ákveðna stemmningu en rauði liturinn hefur dýpri merkingu: „Rauði liturinn er í bókinni sem kaflaskipti og táknar að mér blæði út á mismunandi hátt. Fyrst birtast ljóð um kynferðisofbeldi og eftir það kemur rauði liturinn sem þýðir að mér blæði út þeirri sorg. Þar á eftir yrki ég um ástarsorg og þegar því er lokið birtist rauði liturinn aftur og mér blæðir út ástarsorginni. Svo verð ég ólétt og þá blæðir mér aftur út. Það er svona pælingin, mismunandi ástæður fyrir að manni blæðir út.“

Annað án titils

Mig langar bara aðeins að fá að segja eftirfarandi

Ef þú hlustar bara á karla spila tónlist, kýst bara

karla í kosningum, lest bara bækur eftir karla,

biður frekar karla um aðstoð í verslunum, hlærð

hærra þegar karlar segja brandara, lækar

ómeðvitað frekar komment frá körlum á facebook

o.s.frv

o.s.frv

o.s.frv

prófaðu aðeins að setjast niður og pæla í því af

hverju það er.